1. Aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur ekki verið uppfærð síðan 2020
Markmið Íslands í loftslagsmálum eru að mörgu leyti óljós. Síðan 2020 hefur ríkisstjórnin uppfært markmiðin en engu að síður miðast gildandi aðgerðaáætlun í loftslagsmálum við gömul markmið. Það er algjört grundvallaratriði að ný og uppfærð aðgerðaáætlun komi fram svo hægt sé að ræða þessi mál og hefjast handa. Ekki er nóg að setja sér langtímamarkmið nema ljóst sé hvernig á að komast þangað. Það þarf alvöru plan með tölusettum markmiðum um samdrátt, ár frá ári. Ljóst þarf að vera hvernig honum er náð í öllum þeim losunarflokkum sem tilheyra Íslandi, ekki bara þeim sem eru á beina ábyrgð Íslands. Eins og stendur er einungis rætt um orkumál en olíunotkun Íslendinga er ekki eini losunarþátturinn; iðragerjun við framleiðslu á kjöti, urðun úrgangs og jarðvarmavirkjanir valda líka losun.
2. Kröfur um aukna orkuöflun í þágu orkuskipta ekki sannfærandi
Í stað þess að móta aðgerðaáætlun þar sem tilgreint er skref fyrir skref hvernig samdrætti verður náð tala stjórnvöld mikið um að afla þurfi meiri endurnýjanlegrar orku. Þetta er gert algjörlega án þess að gera nokkra tilraun til að beina þeirri orku sem nú er aflögu í verkefni sem stuðla að orkuskiptum. Auður Önnu Magnúsdóttir benti nýlega á í að nýlegir samningar um orkusölu hjá Landsvirkjun hafa annars vegar farið til landeldis og hins vegar í gagnaver. Á sama tíma fara 120MW uppsett afls í rafmyntagröft sem til dæmis er ólöglegt í Kína. Nú setja ýmsir fram orkuspár þar sem reiknað er hversu mikið rafmagn þurfi til að skipta út öllum þeim lítrum af olíu sem nú eru fluttir inn. Ekki er gert ráð fyrir neinum orkusparnaði eða breytingu lifnaðarhátta af nokkru tagi. Hvað þá að reynt sé að ráðstafa þeirri orku sem nú er framleidd til loftslagsvænni verkefna.
Til að taka dæmi um þá breytingu á lifnaðarháttum sem liggur beinast við að endurskoða, þá ferðast um 71% fólks með einkabíl til og frá vinnu samkvæmt könnun Maskínu frá 2020. Hins vegar myndi tæpur helmingur allra þeirra sem ferðast í einkabíl í og úr vinnu frekar vilja ferðast öðruvísi. Efla þarf aðra ferðamáta og þá sérstaklega þar sem samnýting er möguleg eins og almenningssamgöngur sem nota endurnýjanlega orku. Þannig mætti spara orku sem færi annars í einkabíla.
Loftslagsbreytingar kalla á að við endurhugsum allt kerfið. Íslensk stjórnvöld stefna einnig á að uppfylla samninga um líffræðilega fjölbreytni fyrir 2030 og jafnframt er það yfirlýst stefna stjórnvalda að ná fram hringrásarhagkerfi. Það er augljóst að töfralausnir á borð við tvöföldun orkuframleiðslu á Íslandi eru ekki vænlegar til þess að við náum árangri í öllum þessum málum. Áskorunin krefst breytinga og nýrrar forgangsröðunar, ekki viðskipta eins og venjulega (e. Business as usual).
3. Endurheimt votlendis er undirfjármögnuð
Langstærsti losunarþáttur Íslands er losun frá landi og þar vega áhrif af framræstu votlendi þyngst. Nú liggur á að endurheimta votlendi en þar eru vissulega margar áskoranir sem þarf að sigrast á. Sú fyrsta sem nefnd er í skýrslu Landgræðslunnar um áskoranir og tækifæri í endurheimt votlendis á Íslandi er fræðsla til landeigenda um áhrifin og ávinninginn af endurheimtinni. Þar kemur einnig fram að vegna sérstakrar verndar votlendis skv. náttúruverndarlögum sé framræsing háð framkvæmdarleyfi. Í umfjöllun Kveiks hins vegar er rætt um að á síðustu árum hafi votlendi verið framræst víða án leyfis. Þetta þarf að rannsaka betur og taka á, enda til mikils að vinna.
4. Losun heldur áfram að aukast milli ára
Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Umhverfisstofnun um losun frá árinu 2022 stóð losun á ábyrgð Íslands í stað frá 2021 til 2022. Á sama tíma jókst um 2% sú losun sem fellur undir staðbundinn iðnað innan viðskiptakerfis ESB með losunarheimildir. Losun frá alþjóðasamgöngum jókst umtalsvert. Mjög ánægjulegt er að sjá árangur í að draga úr losun í landbúnaði, fiskiskipum og frá kælimiðlum en á öðrum sviðum sjáum við bæði stöðnun og þróun í ranga átt. Sérlega bagalegt er að losun skuli hafa aukist frá fiskimjölsverksmiðjum, varaafl- og fjarvarmastöðvum. Stafar þessi aukning af erfiðum vatnsbúskap, en ólíðandi er að heimilum og litlum fyrirtækjum skuli seld ótrygg raforka. Sérstökum vonbrigðum veldur að sjá að losun frá vegasamgöngum jókst um 2% þrátt fyrir aukinn fjölda rafbíla. Það liggur í augum uppi að það að nota eingöngu hvata og engar skerðingar á móti er ekki að skila tilætluðum árangri.
5. Niðurstöður starfshóps um loftslagsþolið Íslands benda á hætturnar sem steðja að okkur
Ef til vill hefur okkur mörgum þótt afleiðingar loftslagsbreytinga vera fjarlægar en þær ná svo sannarlega til okkar líkt og komið hefur fram í skýrslu stýrihóps um aðlögun að loftslagsbreytingum. Er þar nefnt að þurrkadögum kunni að fjölga, úrkomuákefð aukast, sjávarborð hækka, jöklar hörfa, sífreri bráðna, hafið hlýna og súrna, auk fleiri áhrifa. Einnig er aukin hætta á smitsjúkdómum líkt og við kynntumst 2020. Þessi hætta steðjar að okkur á Íslandi og gerir neyðarástandið sem ríkir í loftslagsmálum mun áþreifanlegra. Á sama tíma og við undirbúum okkur undir breyttan heim vegna loftslagsbreytinga ber okkur að draga eins mikið og við getum úr losun og það strax.
Loftslagsbreytingar eru neyðarástand og þær krefjast aðgerða. Aðlögun að loftslagsbreytingum snýst ekki bara um að laga sig að áhrifum þeirra heldur felst í henni aðlögun að samfélagi sem lifir án þess að ganga á og skaða náttúruna og loftslagið þar með.
Athugasemdir