Kærunefnd útlendingamála hefur kveðið upp sinn dóm í málum fólks frá Venesúela sem vill hér fá að vera: Ástandið í heimalandi ykkar er ekki nógu slæmt lengur til þess að þið getið talist flóttafólk á þeim grunni.
Þessari niðurstöðu komst kærunefndin að jafnvel þó að í nýrri skýrslu Mannréttindavaktarinnar (e. Human Rights Watch) segi að Venesúela standi frammi fyrir alvarlegri mannúðarkrísu. Milljónir hafa ekki aðgang að fullnægjandi heilbrigðisþjónustu og næringu. Í skýrslum annarra mannúðarsamtaka og stofnana á síðustu árum hafa ítrekað komið fram frásagnir af alvarlegum glæpum stjórnvalda og vopnahópa þeirra gegn borgurum sínum, meðal annars pyndingum og aftökum.
Þrátt fyrir að Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hafi ekki dregið til baka mat sitt á aðstæðunum sem hún telur mjög alvarlegar telur kærunefnd útlendingamála, þessi íslenska, að ástandið hafi á síðustu mánuðum breyst til batnaðar.
Forsagan: ÚTL reyndi ítrekað að segja bless en kærunefndin greip inn í þar til hún hætti því
Frá árinu 2018 til ársins 2020 veitti Útlendingastofnun þeim venesúelsku ríkisborgurum sem sóttu um vernd hér svokallaða viðbótarvernd vegna ástandsins í landinu. Árið 2021 fór Útlendingastofnun svo að synja fólki frá landinu en kærunefnd útlendingamála komst að þeirri niðurstöðu að veita ætti fólkinu viðbótarvernd, sem það fékk. Aftur reyndi Útlendingastofnun að synja umsóknum fólks frá landinu í fyrra en kærunefndin stóð við sitt. Fólki frá Venesúela skyldi veitt viðbótarvernd, ástandið í landinu væri einfaldlega það slæmt.
Í lok síðasta árs ákvað Útlendingastofnun að bíða með umsóknir frá Venesúela. Þegar hún fór aftur að taka umsóknir fólks þaðan fyrr á þessu ári var þó nokkrum hafnað.
Stór hópur venesúelskra ríkisborgara, á fjórða hundrað manns, sem höfðu fengið neitun frá Útlendingastofnun kærðu ákvörðun hennar til kærunefndar útlendingamála í sumar.
Og nú hafa úrskurðir í málum fjögurra Venesúelabúa verið birtir. Niðurstöður Útlendingastofnunar eru staðfestar. Þrír Venesúelabúanna skulu fara úr landi, hvernig er enn óvitað, en einn þeirra fær dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Slíkt dvalarleyfi er talsvert verra en viðbótarvernd. Dvalarleyfið gildir í eitt ár á meðan alþjóðleg vernd gildir í fimm ár og viðbótarvernd í fjögur.
Þar sem kærunefndin hefur nú tekið ákvörðun um að Venesúelabúum sé ekki veitt viðbótarvernd á línuna bíður hennar ærið verkefni: Ríflega 300 kærur frá Venesúelabúum sem Útlendingastofnun hefur synjað um vernd.
Athugasemdir (1)