Það hefur færst meiri þungi í umræðuna um galla íslensku krónunnar á síðustu vikum. Fyrst ber að nefna að seðlabankastjóri – sem aðeins fyrir um 2 árum taldi daga verðtryggðra vaxta liðna undir lok – nefnir núna að sá möguleiki er fyrir hendi að færa sig úr nafnvaxtalánum yfir í verðtryggð lán og þar með minnka mánaðarlega greiðslubyrði. Þá hafa verkalýðsleiðtogar komið fram og opnað á þann möguleika að hugsanlega sé komið að þeim tímapunkti að notagildi krónunnar sé fullreynt.
Viðreisn er eini flokkurinn sem talar fyrir upptöku annarrar myntar. Í morgun birtist pistill eftir Þorstein Pálsson í DV undir yfirskriftinni „Uppreisn gegn ójöfnuði”. Þar má finna eftirfarandi málsgreinar:
„Fyrir níu árum skrifuðu hagfræðingarnir Ásgeir Jónsson og Hersir Sigurgeirsson:
„Íslendingar verða að horfast í augu við það að með lítinn gjaldmiðil er erfitt að lofa stöðugum kaupmætti, lágri verðbólgu og fyrirsjáanlegri greiðslubyrði húsnæðislána.“
Þorri Íslendinga horfist í augu við þennan veruleika í dag.
Eigendur hótelkeðjanna, frystihúsanna, togaranna, fiskeldisstöðvanna og orkuiðnaðarfyrirtækjanna þurfa hins vegar ekki að horfast í augu við veruleika heimilanna þegar þeir fjárfesta.“
Þetta er allt rétt þegar litið er til heimila landsins en mig langar aðeins að benda á atriði sem snertir útflutningsfyrirtæki landsins. Hagfræðin hefur lengi vitað að fyrirtæki sem eru með tekjur í erlendri mynt og stýra sinni rekstraráhættu innan skynsamlegra marka eiga að fjármagna sinn rekstur í nokkurn vegin sömu hlutföllum og væntingar/spár um komandi tekjur að teknu tillit til gjalda segja til um. Þannig er til dæmis eðlilegt að sjávarútvegsfyrirtæki sem er með allar sínar tekjur í erlendri mynt sé með meginþorra allra sinna skulda í erlendri mynt.
Þetta má líka orða sem svo. Þýskt útflutningsfyrirtæki sem er með allar sínar tekjur í dollurum myndi mjög ólíklega fjármagna allan sinn rekstur í evrum, þetta fyrirtæki myndi taka lán í dollurum. Eðlileg áhættustýring myndi kalla á slíkt.
Þetta samhengi hefur aðeins vantað þegar talað er um að hér á landi búi tvær, jafnvel þrjár þjóðir sem hver um sig noti mismunandi gjaldmiðla. Málið er flóknara en svo og væri gott ef Viðreisn útskýrði þetta samspil betur fyrir almenningi og notaði síður eðlilega áhættustýringu og þar með vaxtakostnað útflutningsfyrirtækja sem mikilvæga ástæðu fyrir upptöku annarrar myntar.
Komandi slagur um framtíðargjaldmiðil landsins verður að byggjast á öðrum röksemdum en einvörðungu vaxtastigi. Hér ber að nefna hvaða áhrif þetta myndi hafa á aðrar hagstærðir, afsali á stjórn peningamála með tilheyrandi aukinni ábyrgð á stjórn ríkisfjármála ásamt því að þetta verður ólíklega gert nema með fullri inngöngu í Evrópusambandið.
Flestum á hins vegar að vera ljóst að þessi stóra spurning á að vera langtum fyrirferðarmeiri í allri pólitískri umræðu og ber að þakka Viðreisn fyrir að halda þessu grundvallarmálefni á lofti. Vonandi feta fleiri flokkar í fótsporið.
Höfundur er hagfræðingur
Það jafngildir um 17,18 milljörðum evra miðað við núverandi gengi.
Verða þau sem vilja taka upp evru sem gjaldmiðil ekki að svara þeirri spurningu hvar þau ætli að fá 17,18 milljarða evra til að skipta út öllum krónum í umferð á Íslandi?
Og verða þau ekki líka að svara enn mikilvægari spurningu: Hvernig og með hverju ætla þau að borga fyrir þessa 17,18 milljarða evra? Halda þau kannski að þeir peningar fáist ókeypis?