Vaxtahækkunarferli Seðlabanka Íslands mun ljúka fyrir lok árs 2023 og á fyrri hluta næsta árs mun hefjast hægfara vaxtalækkunarferli sem mun skila stýrivöxtum í kringum sex prósent við lok árs 2025. Áður en hækkunarferlinu, sem staðið hefur frá vormánuðum 2021 og þegar leitt af sér fjórtán vaxtahækkanir í röð, lýkur munu stýrivextir þó hækka einu sinni enn, um 0,25 prósentustig. Þeir munu því toppa í 9,5 prósentum í lok þessa árs.
Þetta er niðurstaða þjóðhagsspár Greiningar Íslandsbanka sem birt var í morgun, en þar er spáð fyrir um þróun efnahagsmála á Íslandi til loka árs 2025.
Bankinn spáir því að verðbólgan verði 8,7 prósent að meðaltali í ár en að hún lækki skarpt á næsta ári og verði þá 5,4 prósent. Hún nái svo að verða að meðaltali 3,7 prósent á árinu 2025, sem er þó yfir 2,5 prósent verðbólgumarkmiði Seðlabanka Íslands.
Ástæður þess að verðbólgan muni hjaðna liggur, að mati Íslandsbanka, meðal annars í því að íbúðamarkaður stefni í jafnvægi og íbúðaverð tempri þar með verðbólgu. Í nýlega birtu Fjármálastöðugleikariti Seðlabanka Íslands kom fram að raunlækkun hafi orðið á íbúðaverði á höfuðborgarsvæðinu síðastliðið ár. Það hafi lækkað um 5,3 prósent á tímabilinu eftir gríðarlegar hækkanir á undanförnum árum. Því virðist ákveðin leiðrétting vera að eiga sér stað á eignamörkuðum, sérstaklega á íbúða- og hlutabréfamarkaði, eftir miklar hækkanir.
Íslandsbanki telur að stöðugt verðlag erlendis og hæg styrking krónu á spátímanum muni líka hjálpa til við að stuðla að verðbólguhjöðnun.
Áfram eftirspurn eftir aðfluttu vinnuafli
Í Þjóðhagsspánni er einnig spáð að umtalsverður samdráttur verði í hagvexti í ár og að hann verði 2,2 prósent, en hagvöxtur var 7,2 prósent í fyrra. Þar skipti þó máli að efnahagslífið var að koma til baka eftir kórónuveirutímabilið og sérstaklega hin mannaflsfreka ferðaþjónusta. Gríðarleg aukning hefur orðið í komu ferðamanna sem munu verða fleiri en tvær milljónir í ár, og sú aukning hefur kallað á mikinn innflutning á fólki til að manna störf í geiranum. Eftirspurn eftir vinnuafli er enda miklu meiri en íslenskur vinnumarkaður réð við sem sést best á því að skráð atvinnuleysi var 2,9 prósent í ágúst, en það er undir því sem talist getur náttúrulegt atvinnuleysi. Þessi mikla eftirspurn hefur, ásamt síðustu kjarasamningum, gert það að verkum að laun hafa hækkað um 9,3 prósent á árinu 2023.
Vöxtur í ferðaþjónustu mun áfram leika lykilhlutverk í útflutningsvexti og bankinn spáir því að útflutningur muni aukast um 6,8 prósent í ár og 4,9 prósent á næsta ári. Það muni skila því að lítils háttar viðskiptaafgangur verði í ár, á næsta ári og á árinu 2025, en undanfarið hefur verið halli á utanríkisviðskiptum Íslands.
Íslandsbanki spáir því að áfram verði talsverð þörf fyrir aðflutt vinnuafl en að atvinnuleysi muni hækka lítillega og verða á bilinu 3,8 til 4,0 prósent á næstu tveimur árum. Þessi umtalsverða spurn eftir vinnuafli muni viðhalda launaþrýstingi og skila því að laun muni hækka um 7,8 prósent á næsta ári og 6,1 prósent á árinu 2025, að mati bankans.
Réttast væri að Ísland yrði fylki í Noregi.
Þar er unnið af mun meiri fagmennsku á flestum sviðum.