Slysaslepping þúsunda eldislaxa úr kví í Patreksfirði eru hörmulegar fréttir fyrir lífríki Íslands og fjölbreytileika þess að sögn Þórunnar Sveinbjarnardóttur, þingmanns Samfylkingarinnar.
„En það dapurlegasta við þessar fréttir er það að þær eiga ekki að koma neinum á óvart vegna þess að þetta stóð allt í skýrslu Ríkisendurskoðunar sem var hér til umfjöllunar í upphafi þessa árs og skilað var um samhljóða áliti frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þar sem nefndin var í raun sammála um að taka undir allar ábendinga Ríkisendurskoðunar,“ sagði Þórunn í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun þar sem hún spurði Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra út í slysasleppingar sjókvíaeldisfyrirtækisins Arctic Fish í Patreksfirði.
Lögleglan á Vestfjörðum hefur hafið rannsókn á slysasleppingum sjókvíaeldisfyrirtækisins Arctic Fish í Patreksfirði að beiðni Matvælastofnunar. Þetta er fyrsta rannsókn af þessu tagi sem farið er í á eldisfyrirtæki hér á landi.
Í síðasta mánuði var greint frá því að tvö göt hefðu komið á kví hjá Arctic Fish við Kvígindisdal í Patreksfirði. Um 73 þúsund laxar, sem voru um 6 til 7 kíló, voru í kvínni sem götin fundust á. Síðan þá hafa veiðst fjölmargir stórir eldislaxar víða um landið, aðallega á Vestfjörðum og á Norðurlandi. Matvælastofnun hefur greint nokkra af eldislöxunum sem veiðst hafa og hefur niðurstaðan verið sú að í flestum tilfellum sé um að ræða laxa frá Arctic Sea Farm í Patreksfirði.
Þórunn spurði ráðherra til hvaða aðgerða hún hefur gripið í sínu ráðuneyti. „Hvernig ætlar ráðherra að koma í veg fyrir að sá skaði verði með þeim hætti að við séum að hætta á útrýmingu villtra laxastofna við strendur Íslands?“
Eigum ekki að normalísera slysasleppingar
„Það er auðvitað þyngra en tárum taki að þessi viðburður í raun og veru standi yfir, það er að strok verði af þeirri stærðargráðu sem við erum hér að sjá,“ sagði Svandís sem sagðist þó ekki geta tjáð sig um atvikin sem sum hver eru kæranleg. Ábyrgð rekstraraðila sé hins vegar mikil.
„Mér finnst það skipta mjög miklu máli í því ljósi að við verðum að geta treyst því að bæði innra eftirlit og ytra eftirlit sé með þeim hætti að það sé viðunandi. Frá því að ég kom í ráðuneytið hef ég tekið þessi mál mjög alvarlega, enda eru strok af þessu tagi óásættanleg umhverfisslys. Við eigum ekki að normalísera þau, við eigum ekki að segja: Þetta er eitthvað sem hlýtur að gerast. Eldislaxar eiga að vera í kvíum og þeir eiga ekki að vera í kvíum með götum og rekstraraðilinn hverju sinni ber ábyrgð á því að tryggja það,“ sagði Svandís.
„Eldislaxar eiga að vera í kvíum og þeir eiga ekki að vera í kvíum með götum.“
Þrír norskir sérfræðingar hafa rekkafað síðustu daga eftir eldislaxi. Þeir byrjuðu í Ísafjarðará þar sem meira var af eldislaxi í ánni en villtum laxi en þess má geta að laxastofn í ánni er ekki stór. Kafararnir nota skutulbyssur til að drepa eldisfiskinn.
Þetta er ekki sú framtíðarsýn sem matvælaráðherra vill sjá þegar kemur að laxeldi. „Það er alveg ljóst að við viljum ekki sjá slys af þessu tagi hér á landi og það er ekki glæsileg framtíðarsýn að það séu froskmenn með skutulbyssur að sulla í ám hér fram eftir hausti. Það er ekki það sem við viljum sjá.“
Svandís hefur lagt það til við Alþingi í gegnum fjárlagavinnu að fjármunum verði beint bæði til Hafró og til Fiskistofu til að bæta það eftirlit sem hér er nauðsynlegt.Þórunn fagnar því að veita eigi meira fé til eftirlits. „Ekki veitir af.“
Þórunn sagði fyrirtækin að sjálfsögðu bera ábyrgð. „en mesta ábyrgð bera stjórnvöld sem skapa lagarammann og regluverkið með þessari atvinnugrein og það verður alltaf að horfa á það fyrst og fremst. Um það fjallaði skýrsla Ríkisendurskoðunar sem var hér til umfjöllunar á vormisseri. Við megum ekki láta það gerast að hér verði óafturkræfur skaði og við verðum að horfast í augu við það að allar ábendingar í skýrslu Ríkisendurskoðunar og allt sem sagt hefur verið um hættuna sem getur stafað af atvinnugreininni fyrir lífríki landsins stendur heima. Það er ekkert nýtt í þessu.“
Athugasemdir