Allt í einu þykjast íslenskir foreldrar vera fullfærir um kynfræðslu fyrir börnin sín alls kostar án aðkomu hins opinbera. Þessi opinberun er í ákveðnu trássi við upplifun fjölmargra kynslóða íslenskra ungmenna sem minnast kynfræðslu sinnar á heimilinu sem bældrar minningar af því að sitja fyrir framan sjónvarpið með foreldrum sínum að horfa á laugardagsmyndina á RÚV og finna hvernig hitastigið í stofunni lækkaði um að minnsta kosti sjö gráður þegar það rann upp fyrir öllum að allt stefndi í að þunglyndi en hjartagóði lögreglumaðurinn og skelegga blaðakonan væru að fara að fækka fötum. Það hefði mátt heyra saumnál detta ef ekki hefði verið fyrir munúðarfullu saxófóntónlistina og stunurnar á meðan allir sátu stjarfir í sófanum og forðuðust allt augnsamband og snertingu í að því er virtist 30 mínútur á meðan þrýstingurinn magnaðist upp. Albert Einstein lýsti einhverju sinni afstæðiskenningunni svona: „Eyddu klukkustund með fallegri konu og hún virðist mínúta. Horfðu á illa kóreógraferaða kynlífssenu í mínútu með foreldrum þínum og hún líður sem þrjár sársaukafullar klukkustundir.“ Og þannig silaðist tíminn áfram þangað til loksins annað foreldrið gaf sig, ræskti sig og sagði í einhverju sem það hélt að væri kíminn tónn en var í raun bara titrandi muldur; „þetta er nú meira hosseríið“.
Og þannig lauk formlegri kynfræðslu heimilisins og allir fóru hver í sína áttina að reyna að bæla þessa minningu.
Frjálslyndið í því að sjá bibbann á Hilmi Snæ
Íslendingar halda margir hverjir að þeir séu svo líberal og víðsýnir þegar kemur að svona málefnum því þeir hafa séð bibbann á Hilmi Snæ í 20 ólíkum kvikmyndum, en sannleikurinn er að við erum enn þjökuð af genetískri lúterskri skömm sem hamlar okkur í að geta dílað við þennan veruleika. Margir þeirra foreldra sem eru hvumsa yfir kynfræðslu yngri grunnskólabarna eru held ég vel meinandi. Þau vilja halda í sakleysi barna sinna eins lengi og þau geta og halda öllu tali um kynhegðun eins lengi frá þeim og hægt er, eins og þetta sé einhver afturábak jólasveinn. En, líkt og með jólasveinatrúna, vita börnin líklega meira en foreldrarnir þora að viðurkenna.
„Íslendingar halda margir hverjir að þeir séu svo líberal og víðsýnir þegar kemur að svona málefnum því þeir hafa séð bibbann á Hilmi Snæ í 20 ólíkum kvikmyndum“
Ég hef verið kannski átta ára þegar ég sá einhvers konar „erótík“ í fyrsta skipti. Ég var í heimsókn á sveitabæ þar sem einn sonur húsráðenda hafði nappað einhvers konar sænskri myndabók úr náttborði foreldra sinna sem sýndi munúðarfullar konur með blásið hár í hinum ýmsu stellingum. Það var auðvitað ekkert kynferðislegt við þetta athæfi, enda vissi ég ekkert um neitt tengt kynlífi annað en að einhver hafði einhvern tímann sagt mér að standpína héti að „vera með steyputyppi“. Þetta var bara spennandi – gera eitthvað sem var bannað og forboðið.
Nokkrum árum síðar var ég á skóladagheimili og þá var mikið sport að fara í bókabúðina sem var þar nálægt og reyna að fletta nokkrum blaðsíðum í klámblöðunum í efsta rekkanum áður en skapstyggi bóksalinn náði að reka okkur á dyr. Um svipað leyti hafði einn úr vinahópnum komist yfir VHS spólu frá eldri bróður sem gekk á milli og sýndi konur með blásið hár að gera talsvert grófari hluti en sáust í myndabókinni forðum daga. Algjört hosserí.
Klámvæðingin fylgt meginstraumnum lengi
Og þetta gerðist allt áður en internetið gleypti meginstrauminn og brenglaði allt landslag tilvistar okkar um ókomna tíð. Fyrstu árin voru saklaus; eyða 20 mínútum í að sækja eina gríðarlega pixlaða mynd af Pamelu Anderson, en það liðu ekki mörg ár þar til unglingar voru farnir að senda sín á milli myndbönd af bílslysum, rónum að slást, téténskum aftökum og brasilískum konum að freta á afmæliskökur. Það leið ekki á löngu þangað til hugtakið „Regla 34“ raungerðist: Ef eitthvað er til í raunveruleikanum eða hefur verið hugsað upp af fólki, þá er til klámútgáfa af því.
Og þetta hefur verið veruleiki barna sem komust á legg síðustu rúmu tvo áratugi í það minnsta. Sænsku dónabækurnar, klámblöðin og VHS spólurnar eru löngu farnar á veg pervertískra feðra sinna og nú alast allir upp við fullkomið aðgengi að nánast öllu sem hægt er að ímynda sér. Klámvæðingin hefur fylgt meginstraumnum í áraraðir, algjörlega án hjálpar frá hinu opinbera. Börn hafa aðgang að klámi, þau horfa á það, þau eru mótuð af því. Það er bara raunveruleikinn. Kynferðisbrotum fjölgar, og sérstaklega kynferðisbrotum þar sem börn brjóta á öðrum börnum. Það má því segja að yfirvöld hafi verið allt of sein að grípa þarna inn. Börn hafa fengið að alast upp við klámvæðingu allt of lengi án þess að fá markvissa fræðslu um kynlíf, kynhegðun, upplýst samþykki, mörk og kynferðislega sjálfsvirðingu.
Og nú þegar loksins er verið að rétta úr kútnum virðist viðbragð margra vera bjargföst afneitun á þessum veruleika. Börn eiga að fá að vera börn, við skulum ekki sverta sakleysi þeirra með tali um líkamsvirðingu, snertingu, hreinlæti, mörk og sjálfsvirðingu. Þau sem ganga lengst saka yfirvöld um að ýta undir kynferðisbrot og barnaníð. Í fyrsta lagi hefur íslenskt samfélag ekki átt í neinum erfiðleikum með að framleiða kynferðisbrotamenn og níðinga í gegnum árin, og sú staðreynd að kynferðislegt og kynbundið ofbeldi sé faraldur hefur ekkert með grunnskólafræðslu að gera. Fjölmargar rannsóknir sýna að veruleikinn sé akkúrat hið þverstæða. Börn eiga að fá að vera börn, en með því þarf líka að viðurkenna veruleika barna. Börn eru forvitin og áhrifagjörn, umhverfi þeirra gegnsýrir þau og mótar. Fræðsla og menntun í bland við ástríkt uppeldi er besta brynjan gegn öllu því sem þau munu sjá og upplifa; reyna að setja reynsluheim þeirra í þann farveg að þau geti skilið og meðtekið heiminn með sjálfsást, sjálfsvirðingu og virðingu fyrir öðrum. Skömm, tabú og afneitun hjálpar þeim ekki neitt.
Haldið endilega áfram að trúa á jólasveininn
Það virðist vera viðkvæði margra foreldra að þetta sé fræðsla sem þau vilji stýra sjálf – gott og vel. Endilega fræðið börnin ykkar, en að gera ráð fyrir að öll börn séu svo heppin að fá faglega mótaða og upplýsta fræðslu um jafn flókin málefni heima hjá sér er barnsleg einfeldni. Tilgangur góðs menntakerfis hlýtur að eiga að vera að undirbúa öll börn sem best fyrir allan þann veruleika sem bíður þeirra, bæði í nútíð og framtíð. Og ef þið viljið halda áfram að trúa á jólasveininn og halda að þið getið brynjað börn frá öllum hættum nútímans, þá getið þið allt eins tekið börnin ykkar úr skóla, flutt á eyðibýlið hans Sigmundar Davíðs og farið að strokka eigið smjör í baðstofunni ykkar. Er þá ekki betra að fræðsla endurspegli veruleika barna, frekar en fantasíu foreldranna um hver sá veruleiki ætti að vera?
„Það er mannvonska að viðurkenna ekki tilvist fólks, og sú mannvonska holdgervist í því að vilja banna börnum að fræðast um þá tilvist“
Í upplýsingaóreiðu síðustu vikna reyndi svo lítill en áhrifaríkur hópur að blanda saman kynfræðslu grunnskóla og hinsegin fræðslu Samtakanna ´78. Mannvonskan þar birtist í að ala á þeirri brjáluðu samsæriskenningu að málsvarar hinsegin samfélagsins séu að reyna að innræta börn með einhvers konar „kynvillu“ og ýfa þannig upp orðræðu sem maður hélt að hefði verið kveðin niður á 9. áratugnum þar sem hommar voru sagðir barnaperrar og hinsegin fræðsla sögð spilla ungdómnum. Illskan í þessari hugsun er sú hugmynd að þú getir búið hinsegin einstaklinga til; að þetta sé einhvers konar innræting sem er best að forðast og bæla niður. Það er mannvonska að viðurkenna ekki tilvist fólks, og sú mannvonska holdgervist í því að vilja banna börnum að fræðast um þá tilvist. Blessunarlega vona ég og held að þetta sé tiltölulega fámennur hópur. Enn sem komið er. En það þarf stöðugt að berjast gegn afturhaldinu. Bæði í samfélaginu og í okkur sjálfum. Bakslag síðustu ára sýnir það.
Og fyrir þau sem óttast að kynjatvíhyggjan sé að hverfa í áróðursvél trans-mafíunnar segi ég: ekki hafa áhyggjur. Horfið til sjóndeildarhringsins í austurs þegar sól tekur að halla, og ef þið trúið nógu heitt þá munuð þið kannski, ef þið eruð heppin, sjá þyrlu bera við sólroðin ský yfir Skuggahverfinu og úr henni blása fagurbláan reyk sem tilkynnir að nýr instagram-páfi hefur verið valinn.
Athugasemdir