Árið 1956 fengu George og Charlotte Blonsky, barnlaus hjón búsett í New York, einkaleyfi á „tækjabúnaði sem auðveldaði barnsfæðingar með slöngvikrafti“. Skyldi verðandi móðir bundin niður á borð hannað af Blonsky-hjónunum og því snúið í hringi uns hvítvoðungurinn flygi út og ofan í netkörfu sem fest var við læri konunnar.
Mér kom einkaleyfið í hug þegar ég las um að sex þingmenn Sjálfstæðisflokks og Flokks fólksins hefðu lagt fram frumvarp þess efnis að kristinfræði yrði tekin aftur upp í grunnskólum landsins. Vilja þingmennirnir að börn séu þjálfuð í siðferði með því að kenna þeim biblíusögur. Í frumvarpinu segir að nám í kristinfræði sé „mikilvægt til skilnings á hugtökum eins og kærleik, umhyggju og umburðarlyndi“.
Sexmenningarnir eru ekki einir um að hafa áhyggjur af æskunni. „Af hverju í ósköpunum mega börn ekki vita eitthvað um Jesúm Krist?“ spurði Kristrún Heimisdóttir, lögfræðingur og fyrsti varaforseti kirkjuþings, í viðtali við Morgunblaðið í sumar. Kristrún, sem kveður Jesús besta áhrifavaldinn, sagði dómara landsins kvarta undan unglingum í dómsal sem þeir „næðu engu sambandi við um gildi betrunar“ og kennara undan börnum sem hefðu engin „viðmið lengur eins og þau fengu hér áður fyrr úr sunnudagaskólanum“.
Leiðin til glötunar
Um síðustu aldamót ruddi sér til rúms heimspekistefna sem gjarnan er kennd við nýtrúleysi (e. new atheism). Töldu forsvarsmenn hennar – fræðimenn, rithöfundar, vísindamenn og heimspekingar – að trúarbrögð lægju til grundvallar helstu vandamálum samtímans á borð við stríð, fordóma og hryðjuverk. Sögðu þeir nauðsynlegt að berjast gegn kennisetningum með staðreyndum og rökum í ræðu, riti og heimildarmynd sem hlaut heitið „Rót alls ills?“
Farnir eru á stjá „o tempora, o mores“-kristniboðar landsins, sem telja æskuna stefna beinustu leið til glötunar vegna þess að hún les ekki sömu kennslubók í kristinfræði og við gerðum þegar við vorum ung. Skiptir engu sú staðreynd að flest bendir til að ungt fólk í dag sé þvert á móti skynsamara en við sem teyguðum landa fyrir utan hverfissjoppuna og kreistum pakka af Winston í snjallsíma-lausum lófanum meðan við svikumst um að læra sýsluheiti utanbókar fyrir landafræðipróf.
Í viðtali sínu við Morgunblaðið lýsti Kristrún Heimisdóttir yfir áhyggjum af því að börn þekktu ekki dæmisögur Jesú Krists. „Ef þú hefur aldrei heyrt talað um Miskunnsama Samverjann í samfélagi eins og okkar þá vantar eitthvað í samhygðina.“
Kristrún virðist hins vegar ekki greina þann yfirgengilega skort á samhygð sem einmitt felst í yfirlýsingu hennar.
Hnökralaus vegferð
Hvort kom á undan, hænan eða eggið?
Í bókinni Hvernig maðurinn kom til leiðir Charles Darwin líkur að því að siðferði eigi sér líffræðilegar rætur og hafi þróast með manninum í gegnum náttúruval. Fjöldi rannsókna hefur síðan stutt þá kenningu. Má nefna rannsókn breska mannfræðingsins Oliver Scott Curry, sem kannaði siðferðisgildi í sextíu samfélögum og komst að þeirri niðurstöðu að sama hvar borið var niður fylgdu öll samfélög, óháð menningu og trúarbrögðum, sömu sjö siðferðisreglunum.
Við síðustu aldamót brugðust trúarleiðtogar ókvæða við ásökunum nýtrúleysingja og sögðu fráleitt að kenna trúarbrögðum um allt illt í veröldinni. En það er jafnmikil fásinna að eigna trúarbrögðum allt gott.
Trúarbrögð eru ein af mörgum birtingarmyndum tilrauna mannsins til að finna sér ástæðu til að fara fram úr rúminu á morgnana. Sumir finna sér tilgang í trú. Þótt aðrir finni sér tilgang í vinnu, stjórnmálastarfi, fjölskyldulífi, námskeiðum eða fótboltaliði er slíkt ekki nokkur vísbending um minni getu til að sýna samhygð.
Kirkjunni er frjálst að reyna að fá fólk til liðs við sig, rétt eins og jógastúdíói er frjálst að reyna að stækka kúnnahóp sinn með markaðsátaki. En krafa kirkjunnar þjóna um að kristinfræði sé sett skör hærra en aðrar lífsskoðanir í menntastofnunum landsins er engu réttmætari en ef unnendur impressjónisma krefðust þess að listastefnunni yrði gert hærra undir höfði en öðrum stefnum í myndmennt.
Einkaleyfi kirkjunnar á kærleika, samhygð og siðferði er jafnlíklegt til að stuðla að hnökralausri vegferð æsku landsins inn í framtíðina og einkaleyfi George og Charlotte Blonsky.
Enda rökstyðja ofsatrúarbrögð kvenna- og hommahatrið sitt eingöngu með einhverri tilvisun í gamla testamentið.