Emmanuel Macron Frakklandsforseti er nú á seinna fimm ára kjörtímabili sínu og má ekki bjóða sig fram aftur. Valdatíma hans lýkur eftir fjögur ár, en endataflið er þegar hafið og farið er að stilla upp á skákborðið fyrir forsetakosningar 2027.
Tvennar kosningar verða í landinu þangað til. Munu þær segja okkur eitthvað um stöðu Macrons og framtíð flokksins hans?
Þær fyrri eru rétt handan við hornið, þann 24. september nk. þegar valinn verður helmingur 348 þingmanna Öldungadeildarinnar. Þeir verða kosnir af kjörmönnum sem eru tilnefndir af sveitarstjórnum landsins.
Þar getur Macron ekki vænst mikils stuðnings, því flokkurinn hans er aðeins sjö ára gamall og hefur veika stöðu í ráðhúsum landsbyggðarinnar. Borgar- og sveitarstjórar eru auk þess svekktir út í hann eftir mótmælin í vor gegn hækkun eftirlaunaaldurs. Þá urðu óeirðir og brennur um allt land og svefnlausar nætur á bæjarstjórakontórum.
Öldungadeildin er í glæsilegri höll í Luxemborgargarðinum í París. Þar er yndislega fallegt og gott að borða ís á heitum sumardegi. Og ekki er ónæði af öldungunum í höllinni, því þeir eru margir á virðulegum aldri og hafa hægt um sig.
Hinn prófsteinninn á stöðu Macrons eru kosningar til Evrópuþingsins í júní á næsta ári. Þá verða þrjú ár til forsetakosninganna 2027 og úrslitin munu gefa sterkar vísbendingar um hvert stefnir í franskri pólitík.
Flokkur án fyrirheits?
Þegar franskir stjórnmálamenn komast í forystu, stofna þeir gjarnan nýjan flokk eða breyta að minnsta kosti um nafn á þeim gamla. Í brjósti þeirra berst hjarta keisara. Napóleon flúði frá eyjunni Elbu í febrúar 1815 með 700 manns. Eftir 20 daga kom hann til Parísar, tók við stjórn ríkisins og í maílok hafði hann 200 þúsund manns undir vopnum. Hann er fyrirmyndin eilífa.
Macron tók Napóleon á þetta. Hann hafði verið ráðherra í ríkisstjórn Sósíalistaflokksins, frönsku kratanna, en geystist fram á sviðið 2016 með nýjan flokk á miðjunni og hjó til beggja handa. Honum gekk glimrandi vel, sigraði í forsetakosningunum 2017 og fylgdi því eftir með því að ná meirihluta á þinginu í kosningum rúmum mánuði síðar. Napoleon hefði ekki gert betur.
Og hann vann aftur í forsetakosningunum 2022.
En hvað verður um flokkinn þegar Macron hverfur af sviðinu. Kann einhver uppskriftina? Hver tekur við keflinu?
Samkvæmt dagblaðinu Le Monde höfðu ráðherrar í ríkisstjórn Macrons gert með sér heiðursmannasamkomulag um að láta vera að kljást um sæti hans fyrr en eftir Ólympíuleikana sem verða haldnir í París næsta vor. Annað myndi veikja manninn og vera óvirðing við hann.
En heiðursmannasamkomulag er venjulega gert vegna gruns um misbrest á heiðursmönnum í herberginu. Enda sprungu þeir á limminu og dansinn er þegar hafinn.
Fyrstur sprakk innanríkisráðherrann, Gerald Darmanin. Hann er kominn af fátæku fólki með alsírskar og maltneskar rætur, harðduglegur og vann sér inn aur með söng á lestarstöðvum. Hann er stjórnmálafræðingur frá einum virtasta skóla Frakka á því sviði, Sciences Po í borginni Lille og komst á þing fyrir hægri flokkinn Repúblikana en gekk snemma til liðs við Macron.
Hann segist best fallinn til að taka slaginn í forsetakosningunum 2027 þar sem baráttan muni verða á hægri kanti stjórnmálanna. Hann þekki til í hægri bransanum og muni ná eyrum alþýðunnar, hins venjulega fólks, sem ráði úrslitum.
Þar verði höfuðandstæðingurinn Þjóðfylkingin, öfgahægri flokkurinn, sem frá því að Jean Marie Le Pen stofnaði hann 1972, hefur haft eitt baráttumál, andstöðu við innflytjendur.
En þá segja keppinautarnir í flokknum: „Hægan, hægan. Ekki gleyma upprunanum. Ekkert gamaldags hægri-vinstri hér. Við erum á miðjunni?“
Gamla flokkakerfið í rúst
Áratugum saman höfðu tvær fylkingar skipst á um að fara með völdin í Frakklandi. Annars vegar var hægri blokkin með Repúblikanaflokknum, þar sem fóru hugmyndafræðilegir arftakar de Gaulle. Hins vegar var Sósíalistaflokkurinn, kratarnir. Og yst á hægri kantinum fitnaði Þjóðfylkingin eins og púkinn á fjósbitanum.
Macron bjó til pólitíska miðju 2017, vann og endurtók leikinn fimm árum síðar.
„Og yst á hægri kantinum fitnaði Þjóðfylkingin eins og púkinn á fjósbitanum.“
Í fyrri umferð síðustu forsetakosninga sem fram fóru í maí 2022 varð ljóst að gömlu flokkarnir áttu í miklum vandræðum. Frambjóðandi krata var Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísar, fyrsta konan til að gegna því embætti og öflugur stjórnmálamaður. Hún fékk einungis 1,75% atkvæða og lenti í 10. sæti af 12.
Frambjóðandi hægri flokkanna var Valerie Pecresse, þaulreyndur ráðherra úr ríkisstjórnum þeirra. Hún fékk 4,8% atkvæða og lenti í 5. sæti.
Í efstu þremur sætunum urðu hins vegar Emmanuel Macron, Marine Le Pen fyrir Þjóðfylkinguna og vinstri maðurinn Jean-Luc Melenchon.
Í síðari umferðinni tókust á þau tvö efstu, Macron og Marine Le Pen og Macron vann.
En hver er þessi Jean-Luc Melenchon? Hann var í gamla daga í baráttunni með krötunum en árið 2016 stofnaði hann eigin flokk, „Uppreisnargjarna Frakkland“ eins og gert í þessu landi til að vera maður með mönnum.
Í undanfara forsetakjörsins 2022, stofnaði Melenchon hreyfinguna NUPES , sem heitir fullu nafni „Ný fylking fólksins um félags- og umhverfismál“ til að bjóða fram í þingkosningunum sem alltaf fylgja.
Á franska þinginu eru 577 sæti og kosið er í einmenningskjördæmum. Í stað þess að vinstri hreyfingar myndu kljást innbyrðis í öllum kjördæmum, var NUPES var hugsað sem bandalag um skiptingu framboða milli flokka og samtaka vinstra megin í lífinu þar sem hver fengi sanngjarnan skerf.
NUPES er því nokkurs konar pólitískt fjölbýlishús með misstórum íbúðum. Þakíbúðina með útsýni í allar áttir og stórar svalir fékk Melanchon sjálfur og bauð fram í 326 kjördæmum af 577. Aðrir fengu minna og kratarnir fengu eitt herbergi og eldhús á jarðhæð, 70 kjördæmi. Minnst fékk gamli kommúnistaflokkurinn, kjallaraíbúð með fullri lofthæð fyrir 50 kjördæmi.
Í kosningunum varð NUPES annar stærsti þingflokkurinn með 131 mann, næst á eftir flokki Macrons, sem fékk 245 sæti.
Hægra megin við öfgahægrið
Í hræringum franska flokkakerfisins og hruni gömlu flokkanna hefur Þjóðfylkingin, sem Jean Marie Le Pen stýrði áratugum saman, náð sér á strik. Gamli maðurinn var verulega umdeildur og fylkingunni gekk illa að eignast þingmenn undir hans forystu en árið 2011 tók dóttir hans, Marine Le Pen, við stjórninni. Hún vann markvisst að því að fegra ásýnd flokksins og rak föður sinn fjórum árum síðar.
Marine Le Pen komst í úrslitaslaginn í forsetakosningunum 2017. Í kosningunum 2022 endurtók hún svo leikinn, en með enn meira fylgi en áður því hún naut þess að vera búin að fá samkeppni frá hægri.
Þar var á ferðinni flokkur rithöfundar og sjónvarpsmanns að nafni Eric Zemmour. Hann gekk miklu lengra í andúðinni á innflytjendum og múslimum en Marine Le Pen og lagði m.a. til að stofnað yrði „útflytjendaráðuneyti“ sem yrði falið að flytja eina milljón þessara óvelkomnu borgara úr landi. Og hann ataðist út í feminista og taldi að feðraveldinu væri ógnað, einni af undirstöðum heilbrigðs heimilislífs.
Með Eric Zemmour hægra megin við sig hljómaði Marine Le Pen eins og hófsemin ein, hætti að agnúast út í innflytjendur og fór að tala um aðgerðir til að lækka framfærslukostnað heimilanna. Þannig varð hún ásættanlegur valkostur fyrir hægrisinnaða kjósendur.
Í þingkosningunum í fyrra ellefufaldaði hún þingmannafjölda flokksins. Þeir eru nú 89 talsins, kunna mannasiði, bjóða góðan daginn á göngum þingsins og virka bara eins og venjulegt fólk.
Evrópuþingskosningar hægra megin við hornið
Evrópuþingskosningarnar í júní á næsta ári skerpa hugann. Ef illa gengur hjá flokki Macrons, verður franska stjórnkerfið lemstrað síðustu þrjú stjórnarár hans. Ef illa gengur hjá gömlu flokkunum geta þeir farið að leita sér að legstað.
Og ef velgengni Marine Le Pen heldur áfram, gæti hún unnið forsetakosningarnar 2027. Þá gæti allt farið beina leið til andskotans, Evrópusambandið og „det hele“.
Og öll þessi ósköp mætti á einn eða annan hátt rekja til litla keisarans í brjósti Emmanuels Macrons.
Eftir að Napóleon Bonaparte lék lausum hala í Evrópu tók það ríki álfunnar heilt ár að ná niðurstöðu Vínarfundarins 1814-15 um framhaldið.
Hvernig ætli frönsku flokkarnir hugsi sér lífið eftir Emmanuel Macron keisara?
Höfundur er lífeðlisfræðingur sem vonar að einn daginn geti hann talað frönsku með fallegum hreim.
Hvað snertir fallegan franskan hreim höfundar þessa pistils er ég ansi hrædd um að hann verði ekki kominn á næstunni. Ég hef sjálf búið í Frakklandi í yfir 50 ár, þekki hvorki Íslendinga né nokkra aðra útlendinga sem hafa náð honum. Hvað þá ég sjálf.