Nú þegar mannkyn tekst á við hamfarahlýnun gorta Íslendingar sig af nokkuð góðu sumri. Samt ekki svo rosalega góðu, því það gæti verið betra. Það er eðli Íslendinga.
Stjórnvöld setja engar hömlur á stjórnlausan fjölda ferðamanna hingað og til þess að þjónusta þá alla verður að flytja inn ótrúlegan fjölda af verkamönnum á lægstu launum. Þó beri sérstaklega að gjalda varhug við flóttamönnum. Þeir eru meindýr í þeirra huga.
Hins vegar ber svo við að það er ekki til neitt húsnæði fyrir allt þetta fólk. Leiga almennings snarhækkar. Fasteignafélög spretta upp, sem kinoka sér ekki við því að hækka leiguna bara rétt sisona um helming, þegar vel liggur á þeim. Hvað þá þegar illa liggur á þeim.
Seðlabankastjóri hefur það eina verkfæri að hækka vexti, sem torveldar byggingu íbúða fyrir allt þetta aðkomna láglaunafólk og magnar upp erfiðleika almennings innanlands.
Allt ber þetta að sama brunni. Sjálfstæðisflokkurinn er að búa svo um hnútana að þeir efnameiri nái að arðræna lágstéttina. Þetta eru eldgömul tíðindi og þrautreynd pólitík, sem hefur gagnast yfirstéttinni um aldaraðir. Vinstri-græn virðast standa nokkuð halloka í þessu samstarfi, enda mætti ætla að sá flokkur sé á öndverðum meiði. Fylgið hrynur af þeim.
Í öllu þessu argaþrasi Sjálfstæðisflokksins hefur honum samt tekist að gera hvalveiðar Íslendinga að helsta bitbeini stjórnarsamstarfsins. Það var og. Sjálfur Machiavelli gæti verið stoltur af slíkri pólitík. En við skulum fylgja þessu stórkostlega álitamáli Bjarna Ben & Co aðeins eftir.
Áður en ég held áfram, vil ég þó taka það það skýrt fram að mér finnst það svívirðilegt athæfi að skjóta sprengjum í langreyðar. Einfaldlega bara viðbjóðslegt. Ekki vegna þess að nær enginn hefur áhuga á að éta slíkt kjöt, hvorki hérlendis eða í Japan, né heldur vegna þess að það er ekki hægt að græða á þessum skepnuskap – jafnvel þó að nýskipaður þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hafi glaðhlakkalega haldið því fram að kapítalistar megi stunda atvinnurekstur um áratuga skeið, sem nemur mörg þúsund milljón króna tapi – jafn kjánalega og það nú hljómar.
Kannski horfir hún til fordæma Hr. Ice-Hot, sem er sagður hafa komið að gjaldþroti fyrirtækja, sem nemur einhverjum 130 milljörðum. Sá hinn sami og mundi ekki hvort hann hefði verslað eina eða tvær íbúðir í Dúbæ hér í denn. Þetta er undarlegur kapítalismi, sem hefur gefið útvöldum góðan arð. Það er nefnilega hægt að græða á því að tapa. Það mætti kannski benda henni á að þessar viðurstyggilegu veiðiaðferðir á hvölum brjóta lög um dýravernd, þrátt fyrir að tap Kristjáns Loftssonar sé mikið, eins og henni sé það sérstakt keppikefli.
Nei, ég er einfaldlega á móti hvalveiðum vegna þess að við Íslendingar erum hér í algerri yfirburðastöðu að heimila að einhver stórfenglegustu dýr Jarðar séu skotin með skutlum, sem innihalda sprengiefni. Sum dýranna eru kvendýr með fangi, önnur með kálfum sínum.
Dauðastríð þeirra getur staðið klukkustundum saman. Meðal-Íslendingur gæti horft á mini-seríu á Netflix á meðan á slíkum harmleik getur staðið. Allir myndu þeir hrópa hástöfum hvað þeir væru miklir dýravinir. Ég trúi ekki að nokkur af þessum „dýravinum“ gætu samþykkt viðlíka trakteringar á hreindýraveiðum, hvað þá að skjóta búfénað á færi með sprengiskutlum.
Öllu þessu er hampað fyrir einhvern gamlan innmúraðan auðkýfing, sem er augljóslega með afskaplega óheilbrigða árátturöskun, í boði kapítalistanna í Sjálfstæðisflokknum.
Nema hvað. Nýverið birtist ágæt grein eftir Þorvald Gylfason, fyrrverandi prófessor, í Heimildinni, sem bar yfirskriftina: „Jónas í hvalnum“. Þar tók hann saman stuttar og hnitmiðaðar ádrepur, eins og Jónasi Kristjánssyni ritstjóra m.m. var einkar lagið að setja fram með einstaklega knöppum og skorinorðum hætti.
Ég vil hvetja lesendur til að setja „Jónas í hvalnum“ sem leitarorð á Facebook, lesa greinina með hægð og íhygli. En þá blasir við nokkur vandi, sem ég hef áhyggjur af. Þar getur fólk nefnilega kommenterað á grein Þorvaldar um þessar ágætu hugleiðingar Jónasar, sem hann setti fram fyrir nokkrum áratugum síðan.
Þar gefur nefnilega að líta viðlíka andsvör:
„Eftir því sem fleiri svona flikki eru í sjónum, því hærra sjávarborð...ekki satt“ ...og ennfremur frá sömu manneskju: „Svo fellur allt hitt draslið sem drepst + á sjávarbotninn og úldnar þar, við það hitnar sjórinn og súrnar/úldnar gejast eins og í skyrmisu, eins er af öllu drasli öðru sem sett er í sjó þannig að salt hans hefur ekki undan að endurnýjast er bara á fullu við að reyna að halda í horfinu og étur niður jökulbrúnir sem ganga í sjó fram, þetta bara gengur einfaldlega ekki upp ss. uppá land með helv... draslið “
Svo bætast þessir dýravinir við, einn af öðrum:
„Langreiðar í norður atlandshafi er ekki í meiri hættu en þorskur, loðna og fl. fiskar sem við veiðum“
„Fyrir hvern veiddan hval má sleppa því að ala upp hundruðir grísa í búrum með tilheyrandi kolefnisspori. Það er nú eitthvað.“
„Kemur það bull. Beljur prumpa og ropa metan en hvalir ekki?!“
Og að lokum þessi perla: „Veiðum fleiri hvali, síðasti vetur var ekkert sérlega hlýr og væri gaman að geta ræktað meira korn að sumri“.
Þessi vandi sem ég impraði á hér að ofan varðar eiginlega fræðilega hugmynd um meðalgreind manna. Í stuttu máli kveður hún á um að á sérhverjum tíma má greina hana með því að segja að helmingur manna sé undir meðalgreind og hinn helmingurinn er yfir meðalgreind. Þetta er svona fiftí-fiftí skilgreining og það er allt í lagi með hana. Jafnvel þó að greind manna verði meiri, eftir því sem tíminn líður, þá gildir hún jafn vel. Hún er góð til síns brúks, jafnt langt og hún nær.
Áhyggjur mínar snúast einkum um þá dapurlegu staðreynd að vitleysingarnir – þeir sem eru rækilega undir meðalgreind – eru alltaf líklegri til þess að láta til sín taka í kommentakerfum með einhvern furðulegan þvætting. Og aðrir jafningjar þeirra eru viðbúnir að „læka“ herlegheitin. Þeir sem eru yfir meðalgreind kæra sig ekki um að taka þátt í svona bjánalegu samtali. Vitleysan yfirgnæfir þannig skynsamlega umræðu.
Þó bar við nýverið að hámenntaður hugmyndafræðingur nýfrjálshyggju Sjálfstæðismanna steig fram til að garga á fjandans múslimabörnin, sem hann sagði ásælast eigur sínar á Keflavíkurvelli og að þau geti bara storma síðan rétt si svona óhindrað inn í sjálft Ísland. Engu máli skipti að þetta voru íslenskir rískisborgarar. Fyrir þetta rasíska viðhorf sitt hlaut hann nokkrar ákúrur.
Hann bætti reyndar um betur og birti glaðhlakkalegur mynd af matarboði, sem bar yfirskriftina: „Engir múslimar hér“. Viðbrögð sumra íslendinga urðu til þess að hann blörraði andlit annarra veislugesta, þeim til verndar, en var jafn skælbrosandi eftir sem áður.
Vegna þess hversu snautleg viðbrögð voru við þessum trakteringum hans ákvað blessaður karlinn að venda sínu kvæði í kross og árétta réttmætt erindi félaga síns, Kristjáns Loftssonar, auðkýfingsins, sem veit fátt betra en að skjóta sprengjuskutlum í einhver tilkomumestu spendýr Jarðar – en báðir hafa þeir verið kjörnir „Frelsishetjur Heimdallar“ – eða hvað þessar meintu vegtyllur nú heita.
Smjörklípa hans hljóðar svo: „Hvers vegna eiga Íslendingar að taka að sér að fóðra hvali á Íslandsmiðum af þeirri ástæðu einni, að til er fólk erlendis, sem má ekki til þess hugsa, að þeir séu veiddir til matar eins og önnur nytjadýr? Þeir éta um 6 milljónir lesta af sjávardýrum og plöntum, en við veiðum eitthvað á aðra milljón lesta af fiski.“
Hér þykir mér rétt og tilhlýðilegt að sundurgreina alla þessa visku forréttindahommans – og ég vil taka það skýrt fram að hér nýtur hann aðeins sannmælis – og þá blasir við að rýna í fyrri staðhæfingu Hr. Gissurarsonar. Hún er þessi: „Hvers vegna eiga Íslendingar að taka að sér að fóðra hvali á Íslandsmiðum af þeirri ástæðu einni, að til er fólk erlendis, sem má ekki til þess hugsa, að þeir séu veiddir til matar eins og önnur nytjadýr?“
Því er til að svara að Íslendingar taka ekki á nokkurn máta að sér að fóðra hvali, hvað þá heldur nytjastofna fiska. Sjálfur þekki ég engan Íslending, sem gottar sig af fóðrun sinni á hvölum eða fiskistofnum, hvað þá að hann harmi það að hafa ekki kost á viðlíka gjörningi. Þetta er bara þvæla.
Íslendingar taka einfaldlega ekki að sér að fóðra eitt né neitt í hafinu. Stjórnvöld geta hins vegar sett fræðimann í stöðu prófessors og borgað honum tugi milljóna til að halda því fram í riti að Davíð Oddsson hafi verið bjargvættur nokkuð kynhreinna Íslendinga í hruninu – eða meintu hruni eins og kapítalistarnir kjósa að kalla þær hamfarir.
Í öðru lagi þá eru stórhveli ekki nytjastofn. Það er enginn ágóði fólginn í því að skjóta sprengjum í dýrin. Það er einfaldlega enginn markaður fyrir þetta dýraníð. Hvalir eru heldur ekki fiskar. Þeir eru spendýr eins og forréttindahomminn. Hvað síðari hluta speki Hannesar varðar, sem er þessi: „Þeir éta um 6 milljónir lesta af sjávardýrum og plöntum, en við veiðum eitthvað á aðra milljón lesta af fiski.“, þá er hún eiginlega heimskulegri. Mögulega byggir hún á þeirri fásinnu, sem hin hápólitíska Hafrannsóknarstofnun hélt fram – eins og Jónas Kristjánsson benti réttilega á – að við réttbornir Íslendingar værum einhverjir sérútvaldir gæslumenn Norður-Atlantshafsins og meints „jafnvægis“ í því ótrúlega flókna vistkerfi, sem þar ríkir.
Vissulega eru Sjálfstæðismenn búnir að moka tugmilljónum í svokallaðar „vísindaveiðar“ Hafrannsóknarstofnunar, með þeim árangri að afraksturinn af öllu því blóðbaði er enginn. Bókstaflega enginn hvað vísindi varðar. Þrátt fyrir ægilega fína og rándýra vinnu við svokallað „fjölstofnalíkan“, sem var ætlað að sanna að með því að skjóta nokkrar hrefnurog slatta af stórhvelum, þá mætti veiða miklu fleiri þorska. Og að þannig mætti kalla alla sjósókn Íslendinga jafnvægisveiðar. Þetta viðhorf er eiginlega of bjánalegt til að það taki því að ræða það.
Allt þetta umstang Sjálstæðisflokksins í marga áratugi, hvað hvalveiðar varðar, virðist vera til þess fallið að þjónusta sprengjublæti „velgjörðarmanns“ flokksins. Þetta dýraníð hans er sagt vera rekið með mögulega 300 milljóna tapi ár hvert undanfarin áratug. Sambærilegt og á við um Moggann, sem hampar vitanlega þessum dásamlega taprekstri Kristjáns Loftssonar.
Karlinum hefur jú m.a. tekist að sanka að sér alls konar undanþágum, sem varða verkun á kjöti til manneldis. Kristján Loftsson fær að verka langreyðar undir berum himni, þar sem margir mávar sæta færis í von um æti, og skíta síðan eðlilega hér og þar yfir aðgerðaplanið. Aukinheldur hefur hann fengið undanþágur sem varða mengunarhættu vegna olíutanka hans í mörg ár. Konum er bannað að baka vöfflur undir berum himni fyrir góðgerðarmál. Þvílík endemis hræsni!
Þrátt fyrir allar þessar velgjörðir flokksins, þá ber svo við að það virðist ekki vera hægt að ná tali af gamla milljarðamæringnum. Reyndar bárust nýverið þær fregnir að gamli freki karlinn væri búinn að setja upp heljarinnar rafmagnsgirðingu til þess eins að aftra „góða fólkinu“ frá því að líta dýraníð hans eigin augum.
Kristján Loftsson lagði reyndar sjálfur til að mögulega mætti aflífa langreyðar með skilvirkari hætti með því að leiða rafmagn í skotlínuna og senda rosalegt rafstuð í kvikindin til þess að drepa þau sem skjótast. Og þetta gerði hann í fullri alvöru!
Síðast bárust þau tíðindi að annað hvalveiðaskipa milljarðamæringsins mætti ekki halda út til frekari sprengjuárása á saklausar skepnur, enda er þetta augljóst dýraníð. Núna felur gamalmennið sig á bak við rafmagnsgirðingu sína og vill ekki tala við nokkurn mann.
Svandís horfir í gaupnir sér, en Katrín brosir út að eyrum
Og Sjálfstæðisflokkurinn glottir við tönn.
Höfundur er þýðandi.
Svona fólk hagar sér ekki þannig innan um annað fólk því þá spyr einhver sem afhjúpar það óþægilega: Þú ert ekkert voðalega skörp/skarpur er það? Svo lyklaborðið er meira svona safe zone fyrir þessar týpur sem sjá ekki samhengi hlutana og koma bara með illa ígrundað gaspur á samfélagsmiðlum af því þau kunna ekki og geta ekki betur. Munið þetta er bara kenning eftir að hafa umgengist mikið af fólki í 65 ár :)
- Aldur Kristjáns hefur ekkert með gjörðir hans að gera.
☻g hvað er það þá sem hefur annars með gjörðir gamla freka karlsinns að gera ?
Látum aldur gamla freka karlsinns liggja milli hluta og fáum útskýringu þína á gjörðum hanns, ef einhverjar eru.
Því eftirfarandi upphrópun er frekar aumkunnarverð og ómálefnaleg.
„Aldur Kristjáns hefur ekkert með gjörðir hans að gera.“