Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn og stjórnandi miðlægrar rannsóknardeildar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, er kominn í leyfi. Eitt af því sem var til skoðunar áður en hann fór í leyfi var ákvörðun hans um að taka undirmann sinn úr fyrirhugaðri aðgerð hjá embættinu án faglegrar ástæðu.
Vísir greinir frá þessu og segir Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúa hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, hafa staðfest þetta skriflega við fréttastofu.
Lögreglustjóri neitaði
Blaðamaður Heimildarinnar hafði samband við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu, Höllu Bergþóru Björnsdóttur, föstudaginn 8. september en hún vildi ekki staðfesta að stjórnandi miðlægrar rannsóknardeildar væri kominn í leyfi.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn hefur tekið við verkefnum Margeirs. Hann sagðist í samtali við Heimildina ekki geta tjáð sig um málefni einstakra starfsmanna.
Samkvæmt Vísi var sálfræði- og ráðgjafarstofa fengin til að taka stjórnunarhætti Margeirs til skoðunar, ræða við starfsfólk og skilaði síðan skýrslu til yfirstjórnar lögreglunnar.
Óskýr svör
Blaðamaður Heimildarinnar sendi Gunnari Rúnari póst í morgun þar sem sagði:
„Ég sé á Vísi að þú hefur staðfest að Margeir Sveinsson sé kominn í leyfi.
Á föstudaginn fyrir viku hringdi ég í Höllu Bergþóru, lögreglustjóra, og spurði hvort stjórnanda miðlægrar rannsóknardeildar hefði verið vikið tímabundið frá störfum en hún sagði það rangt. Var Margeir þá ekki kominn í leyfi?“
Gunnar Rúnar svaraði fyrir stundu:
„Margeir hefur verið í leyfi en lögreglustjóri var að vísa til þess að umræddum starfsmanni hafi ekki verið veitt lausn frá embætti, hvorki tímabundið né ótímabundið.“
Athugasemdir