Öll munum við einhvern tímann heyra sögunni til. Færri munu hins vegar komast á spjöld hennar.
Út um eldhúsgluggann minn, þar sem ég bý í Islington-hverfi Lundúnaborgar, blasir við ný stytta sem reist var í sumarlok. Styttan er af Arsène Wenger, fyrrverandi þjálfara enska fótboltaliðsins Arsenal. Þótt Wenger heyri ekki sögunni til er hann kominn á spjöld hennar; fólk stendur nú í röðum til að taka af sér sjálfu við hliðina á styttunni.
En á sama tíma og ein hetja hverfisins er hafin til vegsemdar fellur önnur af stalli.
Kyndilberi réttsýni og skíthæll
Einn þekktasti íbúi Islington-hverfis fyrr og síðar er rithöfundurinn George Orwell. Orwell bjó í Islington á árunum 1944 til 1947 og vann þar að merkustu verkum sínum, Dýrabæ og Nítján hundruð áttatíu og fjögur.
Orwell hefur löngum verið álitinn kyndilberi réttsýni sem barðist gegn kúgun, alræðishyggju og fasisma. En sú ímynd bíður nú hnekki. Svo virðist sem Orwell kunni að hafa verið – eins og það er orðað í nýútkominn bók – „skíthæll“.
Eileen O’Shaughnessy var afburðanemandi sem stundaði meistaranám í sálfræði og skrifaði blaðagreinar og ljóð þegar hún hitti Orwell í partíi árið 1935. Þau giftust rúmu ári síðar.
Í bréfi sem Eileen skrifaði vinkonu sinni sagði hún Orwell hafa „kvartað sáran þegar hjónabandið hafði staðið í viku yfir því að hann hefði aðeins átt tvo afkastagóða vinnudaga af sjö“.
Í stað þess að ljúka meistaranámi sínu gerðist Eileen fyrirvinna eiginmanns síns, einkaritari, umboðsmaður og yfirlesari. Hún hjúkraði honum í krónískum veikindum, sá um heimilið, ferðaðist langar leiðir til að kaupa í matinn, mokaði kamarinn sem flæddi ítrekað yfir og aðstoðaði Orwell við ritun Dýrabæjar.
Orwell virtist þó aldrei telja ástæðu til að vekja máls á framlagi hennar. Orwell skrifaði ítarlega um þátttöku sína í borgarastyrjöldinni á Spáni. Hann lét þess þó hvergi getið að Eileen ferðaðist með honum til Spánar og lagði líf sitt í hættu í þágu baráttu lýðveldissinna. Orwell skrifaði 2.500 orð um sjúkrahúsdvöl sína í kjölfar þess að hann var skotinn á vígvellinum en minntist ekki einu orði á að þar dvaldi einnig Eileen sem sinnti honum nótt sem dag.
Umhyggjusemin var sjaldan endurgoldin. Orwell átti sér fjölda hjákvenna. Þegar Eileen og Orwell tóku að sér lítinn dreng hélt Orwell til Parísar í stað þess að koma fyrir dómara og ganga frá ættleiðingunni. Þegar Eileen þurfti að fara í legnámsaðgerð fannst henni hún ekki verðskulda kostnaðarsama fyrsta flokks læknisþjónustu svo að hún hafði uppi á ódýrari kosti. Orwell var á faraldsfæti þegar hún lést á skurðarborðinu aðeins 39 ára að aldri.
Ótti aðdáanda
Bókin Wifedom eftir ástralska verðlaunahöfundinn Önnu Funder um Eileen O’Shaughnessy vekur nú athygli. Funder segist hafa hikað við að skrifa bókina. Sem einlægur Orwell-aðdáandi óttaðist Anna að segði hún sögu Eileen yrði Orwell slaufaður.
Undanfarin ár hafa styttur orðið vígvöllur átaka um sagnaritun. Höggmyndir af hetjum fortíðar hafa verið rifnar niður sem mótmæli við gjörðum eða skoðunum viðfangsefna þeirra.
Vissulega er hægt að endurskoða söguna með því að rífa niður styttur – eiginlega og óeiginlega. Önnur leið er hins vegar að reisa þær.
Eftirmynd af Arsène Wenger er ekki eina styttan sem leit dagsins ljós í sumar. Afsteypa af verki Nínu Sæmundsson, Afrekshugur, var afhjúpuð á Hvolsvelli í síðasta mánuði en frumgerð verksins stendur við inngang hins fræga Waldorf Astoria hótels í New York. Þótt Nína hafi verið fyrsta íslenska konan sem gerði höggmyndalist að ævistarfi er það ekki fyrr en nýlega sem hún tók að öðlast réttmætan sess í sögunni.
Púsl í púsluspili
Þegar gesti ber að garði hér í Islington-hverfi ferja ég þá gjarnan að Canonbury-torgi 27b þar sem minnismerki hangir við fyrrum heimili George Orwell.
Ólíklegt verður að teljast að skilningur okkar á sögunni myndi aukast við að fjarlægja minnismerkið og láta gestkomandi Íslendinga í Islington gera sér að góðu sjálfu með Arsène Wenger í staðinn. Því það er ekki með því að fækka púslunum í púsluspili sem myndin skýrist heldur með því að fjölga þeim.
Rífa eða reisa?
Styttan Afrekshugur blasir nú við á Hvolsvelli. Tímabært er að bæta Eileen O’Shaughnessy við minnismerkið að Canonbury-torgi 27b.
Athugasemdir (8)