Kannski var þetta dauðadæmt frá byrjun. Bretar hefðu aldrei enst til lengdar í Evrópusambandinu. Þeir voru öðru vísi og minntir á það í hvert skipti sem þeir fóru í sumarfrí til meginlandsins. Fyrst þurftu þeir að keyra yfir á hinn vegarhelminginn og svo pössuðu klærnar á raftækjunum þeirra hvergi í innstungurnar.
Hvar er þín fornaldarfrægð?
Þegar best lét réðu þeir nær fjórðungi jarðarinnar og settu hundruðum milljóna manna lög og reglur með einu pennastriki. Það var því erfitt fyrir þá að að lúta forskriftum sem ekki voru á þeirra eigin forsendum einum.
Þeim leið eins og verið væri að þrengja að fullveldinu. Tomman og fetið fuku út um gluggann þegar metrinn tók yfir og um líkt leyti ýtti kílóið únsunni og pundinu til hliðar.
Ekki bætti úr skák að það voru Frakkarnir sem fundu upp bæði metrann og kílóið.
Gamli prófessorinn minn í Birmingham í Englandi viðurkenndi aldrei þessar breytingar. Hann sagði að hálft kíló væri bara stærðfræðilegt hugtak sem hefði enga merkingu fyrir venjulegt fólk og bað slátrarann alltaf um pund af kjöti fyrir sig og frúna.
Við hjónin töldum mótþróa Bretanna bara skemmtilega sérvisku, nutum alls sem landið og fólkið höfðu upp á að bjóða og eignuðumst yndislega vini sem fylgt okkur hafa í hálfa öld.
Út vil ek
En þetta var meira en sérviska. Bretar höfðu gengið í Evrópusambandið í ársbyrjun 1973. Lögmæt yfirvöld þeirra, sem fullvalda ríkis, sömdu um aðgang og sem fullvalda ríki tóku þeir í 43 ár virkan þátt í frekari þróun og uppbyggingu sambandsins.
Samt sem áður grófu fortíðarþráin og fullveldisharmurinn um sig, einkum meðal íhaldsmanna, sem í áraraðir börðu sig á hverri nóttu með hrísi í þjáningu og þrá eftir glæstri fortíð heimsveldisins. Smám saman litaði þessi kvöl alla breska pólitík og ekki síst voru málefni innflytjenda notuð til að kynda undir kötlum óánægjunnar.
Að lokum gáfust Bretar upp á Evrópu og kvöddu í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 2016, Brexit-kosningunum svokölluðu. Munurinn var naumur, 52% gegn 48%. Þjóðin klofnaði í herðar niður. Útgöngumenn ráku svo smiðshöggið á verkið í þingkosningum 2019 sem Boris Johnson sigraði með yfirburðum.
Trúboð og bókabrennur
Bull Brexittrúboðsins var með endemum. Því var til dæmis lofað að allri ESB-smitaðri löggjöf yrði eytt, rétt eins og riðufé.
Fastur liður í prédikunum Brexitsafnaðarins var að reglugerðafarganið frá Brussel dræpi frumkvæði og framfarir. Lausir úr viðjum ESB myndu Bretar loks geta hreinsað lögbækurnar sínar af Evrópuáhrifum. Breska pressan kallaði verkefnið Brexitbrennuna.
Brennumálaráðherrann var á tímabili David Frost, barón. Í ræðu í Lávarðadeildinni í september 2021 sagði hann að Evrópureglurnar væru ónýtar vegna „ófullnægjandi málamiðlana við önnur ESB lönd“.
Í augum útgöngusinna var fullveldisskerðingin nefnilega það að geta ekki lengur einhliða sagt öðrum þjóðum fyrir verkum.
Brexithaukarnir í flokknum píndu fram lagafrumvarp um að löggjöf sem bæri fingraför ESB, félli sjálfkrafa niður í lok árs 2023.
Verkinu hefur nú verið „frestað“. Meðalið myndi drepa sjúklinginn. Eftir 40 ára sambúð eru áhrif Evrópusamvinnunnar um allt lagakerfið. Það rennur ESB-blandað blóð í öllum æðum breska þjóðarlíkamans.
Bull á bull ofan
En í sæluríki Brexitsins var lofað meiru.
Bretar myndu hætta að greiða 350 milljónir punda á viku til Brussel og nota peningana til að styrkja heilbrigðiskerfið.
Spunnið yrði eigið net fríverslunarsamninga um allan heim, sem kæmi í staðinn fyrir óheftan aðgang að mörkuðum Evrópusambandsins, og
loks myndi nást stjórn á svokölluðum útlendingamálum; málefnum innflytjenda og flóttamanna.
Ekkert af þessu hefur gengið eftir.
Spítalar og fríverslun í hillingum
Engir nýjir peningar hafa borist heilbrigðiskerfinu. Árið 2020 lofaði Boris Johnson 40 nýjum spítölum fyrir 2030. Í grein í Breska læknatímaritinu (BMJ) í júní sl. segir að loforðið hafi frá upphafi verið hillingar einar.
Heilbrigðismálaráðherrann, Steve Barcley, sagði þingi og fjölmiðum í maí að ekki mætti taka þetta með nýja spítala of bókstaflega; endurbætur og viðbyggingar gætu líka gert gagn.
Stóru draumarnir um fríverslunarsamningana hafa heldur ekki ræst.
Í ljós kom að ráðuneytin skorti kunnáttu til að gera slíka samninga. Bretarnir þurftu að sækja aðalsamningamann til Nýja Sjálands. Sá heitir Crawford Falconer, var aðalfulltrúi lands síns hjá Alþjóðaviðskiptastofnuninni í Genf og kann fagið. Hann náði samningum við heimaland sitt, Nýja Sjáland, og nágrannana í Ástralíu.
Í sumar var svo samið við bandalag 11 Kyrrahafsþjóða. Bretar voru raunar þegar með samninga við níu þeirra síðan á ESB árunum. Efnahagslegur ávinningur er hverfandi. Þeirra eigin hagstofur meta hann aðeins um 0.08% af vergri þjóðarframleiðslu á næstu 10 árum.
Þetta er allt og sumt sem Bretarnir hafa haft upp úr fríverslunarkrafsinu. Að öðru leyti eru þeir bara með gömlu samningana sem þeir tóku með sér frá ESB. Búinn heilagur, hefði hún móðir mín sagt.
Útlendingamálin í ólestri
Og ekki hefur náðst betri stjórn á málefnum innflytjenda og aðkomumanna, hvorki þeirra löglegu né þeirra vegalausu.
Brexitreglur varðandi starfsfólk frá Evrópu, sem áður hafði réttindi til frjálsra flutninga til landsins samkvæmt leikreglum innri markaðarins, hafa valdið gríðarlegum skorti á vinnuafli. Gildir það jafnt um almennt verkafólk og stéttir með sérmenntun.
Nýtt punktakerfi, sem átti að nota til að flokka innflytjendur eftir verðleikum og væntanlegri nytsemi fyrir atvinnulífið, hefur brugðist. George Eustice, fyrrverandi ráðherra og Brexitleiðtogi, lagði til í sumar að opnað yrði á ný fyrir starfsfólk frá Evrópu. Hann sagði að nýja fyrirkomulagið hleypti inn þeim, sem enginn skortur væri á, s.s. lögfræðingum, en ekki fólki til að vinna almenn framleiðslustörf, sem bráðvantaði.
Og um vegalausa fólkið kalla ég Björn Bjarnason til vitnis. Þann 16. ágúst skrifar hann í dagbók sína: „Þeir sem börðust fyrir BREXIT árið 2016 sögðu að úrsögn úr ESB yrði besta leiðin til að stöðva straum ólöglegra farandmanna til Bretlands. Af mörgu sem þá var hampað til að hvetja kjósendur til að greiða atkvæði með BREXIT hefur þetta reynst ein mesta blekkingin. Bresk stjórnvöld eru ráðalaus gegn vandanum“.
Paradísarheimt
Í baráttunni um Brexit fór bullveldið með sigur af hólmi. En það er eftirsjá hjá mörgum.
Þegar fólk, sem kaus útgönguna í kosningunum 2016, leit um öxl í skoðanakönnun fyrirtækisins Yougov í júlí sl., sagðist sjötti hver myndi velja að vera áfram í ESB ef kosið væri núna. Þannig hefði Brexit fallið. Og ef kosið væri um hvort Bretar ættu að segja „sorrí, megum við koma aftur“, myndu 51% segja já.
Og Rishi Sunak, forsætisráðherra Breta, er byrjaður að bakka. Hann tilkynnti 7. september að landið væri aftur orðið þátttakandi í vísindaáætlunum ESB. Það sagði hann opna einstaka möguleika og væri hagstætt skattgreiðendum. Aðgangseyririnn er 2,6 milljarðar sterlingspunda á ári. Og þeir sem sögðust ætla að spara.
Í Paradísarheimt Halldórs Laxness tók Steinar í Steinahlíðum mormónatrú og fór til Utah, fyrirheitna landsins. Hann flutti svo aftur heim, vonsvikinn og örsnauður.
En enginn bilbugur er á Boris Johnson. Það kann að vera að hann sé vonsvikinn því hann hrökklaðist úr forsætisráðherrastólnum, en örsnauður er hann ekki. Á ári hefur hann fengið jafnvirði yfir 800 milljóna íslenskra króna fyrir ræðuhöld og ritstörf.
Ef Bretland ætlar í einhverri framtíð að sækja aftur um inngöngu verður samið upp á nýtt og útilokað að Bretland fái nokkra sérmeðferð þá.
Líklega má líta á það sem ákveðinn hreinsunareld í sögu ESB.
Þarna hefði mátt segja.
Þegar verst lét fyrir mannkynið réðu þeir nær fjórðungi jarðarinnar og settu hundruðum milljóna manna lög og reglur með einu pennastriki.
Því breska heimsveldið er án efa viðurstyggilegast og ógeðfelldasta heimsveldi í sögu mannkynsins. PUNKTUR!