Hótel Gjá ehf. áformar að byggja allt að 120 herbergja hótel á fimm hæðum auk kjallara á jörðinni Ytri-Varðgjá við hlið Skógarbaðanna við Eyjafjörð. Bílastæði, aðkomuvegur og ný laug verða einnig hluti af framkvæmdunum. Hótelið á að byggja á eyri og að hluta inni í brekku. Það verður að líkindum um 23 metrar á hæð og umvafið skógi á þrjá vegu.
Hótel Gjá ehf., sem er í eigu sömu aðila og eiga Skógarböðin, kynnti áformin fyrir Skipulagsstofnun sem leitaði umsagnar ýmissa stofnana sem komust allar að því að þrátt fyrir að umhverfisáhrif hótelsins verði einhver, m.a. á fuglalíf, þyrfti framkvæmdin ekki að undirgangast mat á umhverfisáhrifum. Tók Skipulagsstofnun undir þá niðurstöðu og telur framkvæmdina ekki líklega til að hafa í för með sér veruleg og óafturkræf áhrif á umhverfið.
Er það mat Skipulagsstofnunar að um sé að ræða umfangsmikla mannvirkjagerð sem jafnframt sé við jaðar svæðis á náttúruminjaskrá. Þrátt fyrir verndarstöðu Óshólma Eyjafjarðarár telur hún svæðið ekki viðkvæmt enda sé það töluvert raskað nú þegar af landfyllingu og vegaframkvæmdum.
Samkvæmt gögnum Hótels Gjár er auk gistiherbergjanna 120 gert ráð fyrir veitingastað, bar, fundarherbergjum, heilsulind og líkamsræktarstöð í byggingunni sem yrði að hámarki 9.000 fermetrar að stærð. Þak hótelsins verður ýmist flatt eða með lágmarks halla og það og veggir hafðir í náttúrulegum tónum og klæddir timbri til að lágmarka sýnileika. „Hótelið verður staðsett þannig að útsýni úr herbergjum þess verður til vesturs og suðurs að Akureyri og inn Eyjafjörð,“ segir í gögnum framkvæmdaaðila. „Það er talið eitt helsta aðdráttarafl hótelsins ásamt því að byggja það inni í skóginum og að hafa baðstaðinn Skógaböðin í næsta nágrenni.“
Lögð verði sérstök áhersla á að mannvirki falli sem best að landslagi og raski á skógi verði haldið í lágmarki.
Stækka þarf landfyllingu og leggja veg yfir lón
Vinnuvegur að fyrirhuguðu hóteli verður frá Eyjafjarðarbraut eystri og þverar lón á fyllingu á milli Eyjafjarðarbrautar eystri og fjöruborðsins. Hótelið verður innan núverandi landfyllingar en þörf verður á viðbótar landfyllingu vegna bílastæða og aðkomusvæðis vestan hótels. Innan lóðar hótels er gert ráð fyrir bílastæðum 20-40 bílastæðum en í bílageymslu í kjallara hótelsins yrðu 54 stæði til viðbótar.
Við hótelið er gert ráð fyrir heitri laug frá laug sem þegar er við Skógarböðin Laugin verður um 100 metrar að lengd.
Innan byggingareits hótelsins er Vaðlaskógur á um 0,2 hektara svæði og þarf að ryðja þann skóg. Vegna laugar þarf einnig að ryðja skóg á um 8 metra breiðu og 100 metra löngu belti. Framkvæmdaaðilar segjast þegar hafa átt samráð við Skógræktarfélag Eyfirðinga vegna þessa rasks. „Þar sem því er við komið munu merk tré sem þurfa að víkja af svæðinu verða tekin upp og þeim plantað á öðrum stað í skóginum. Sótt verður um fellingarleyfi skógar til Skógræktarinnar. Þær mótvægisaðgerðir verða að skógi verður plantað í land Ytri-Varðgjár í jafn stórt svæði og þarf að ryðja vegna hótels og tengdra framkvæmda.“
Með uppbyggingu hótels mun atvinnulíf á svæðinu eflast þar sem mörg störf verða til á hótelinu eftir opnun þess, segir í gögnum Hótel Gjár um verkefnið. „Vegna þessa starfa má gera ráð fyrir að áhrif á íbúaþróun í sveitarfélaginu verði jákvæð þar sem gera má ráð fyrir að starfsfólk hótelsins muni í einhverjum tilfellum sækjast eftir því að setjast að í sveitarfélaginu. Gera má ráð fyrir því að einhver afleidd störf í þjónustu muni skapast í Eyjafjarðarsveit auk þess sem frekari grundvöllur er fyrir aukinni þjónustu í sveitarfélaginu.“
Vel tekið
Skógarböðin í Eyjafjarðarsveit voru opnuð í fyrravor. Hagnaður á fyrsta rekstrarári var um 100 milljónir króna. Stofnendur og aðaleigendur Skógarbaðanna eru hjónin Sigríður María Hammer og Finnur Aðalbjörnsson, en næststærsti hluthafi er félagið Bjarnason Holding ehf., sem er í eigu Birkis Bjarnasonar, atvinnumanns í knattspyrnu.
Athugasemdir