„Ég heiti Jóna Jóhanna Steinþórsdóttir og er fædd og uppalin í sveit. Ég var bóndi í mörg ár í Norðfirði. Svo var ég að keyra strætó í sumarafleysingum og keyra hjá ferðaþjónustu Kópavogs. Síðustu þrjú árin vann ég á hjúkrunarheimilinu Mörk. Ég er ófeimin við að prófa eitthvað nýtt enda hef ég engu að tapa og rek nú litla jólabúð ásamt vinkonu minni, Maríu Björk Viðarsdóttur.
Við tókum við rekstrinum 1. júlí og þetta leggst bara vel í mig. Ég átti aldrei von á að verða kaupmaður en þetta er bara mjög gaman. Við erum báðar mikil jólabörn og sáum búðina auglýsta til sölu en gerðum ekkert í þessu í einhvern tíma. Svo bara allt í einu fór allt af stað og hér er ég. Það er mjög mikið að gera. Ég hefði aldrei trúað því að það væri svona mikið að gera í jólabúð að sumarlagi. Við erum aðeins að gera smá breytingar, lagfæra, undirbúa jólin og panta inn til þess að eiga nóg þegar jólatörnin byrjar aftur í nóvember. Þetta er allt öðruvísi en allt sem ég hef gert áður. Ég ætlaði aldrei að flytja til Reykjavíkur en kom hingað 1999 og á hér þrjú börn og tvö barnabörn. Þetta er bara fjör.
„Ég er ófeimin við að prófa eitthvað nýtt enda hef ég engu að tapa.“
Það besta við haustið er að þá koma kertaljós og ég kemst í berjamó, það er náttúrlega það besta. Ég tala nú ekki um ef maður kemst að smala og í réttir, það er toppurinn. Á eftir legg ég af stað upp í sveit og tek smá helgarfrí þar.
Á síðustu árum hef ég lært að góð heilsa er ekki sjálfgefin. Ég er búin að vera að vinna með svo mikið af veiku fólki og hef áttað mig á því að góð heilsa er það dýrmætasta sem þú hefur. Til þess að viðhalda minni heilsu tek ég rétt vítamín, hreyfi mig, fer í sund, göngutúra og sef vel. En svo núna er ég kannski að vinna alltof mikið en við erum nýteknar við og það er tímabundið álag. En ég er að fara í frí í sveitina að hlaða batteríin og það verður bara algjör kyrrð og ró.“
Athugasemdir