Þessi grein birtist fyrir meira en ári.

Bráðhress með fjórða stigs sortuæxli

„Ég geri þetta lif­andi, held ég,“ seg­ir Sig­ur­björn Árni Arn­gríms­son, skóla­meist­ari á Laug­um, íþrótta­lýs­andi og bóndi, sem lýsti ný­ver­ið sínu 42. stór­móti í frjáls­um íþrótt­um. Fjórða stigs sortuæxli aftr­ar hon­um ekki í dag­leg­um störf­um og fagn­aði hann fimm­tugsaf­mæl­inu á hest­baki á fjöll­um við smala­mennsku með fjöl­skyld­unni.

Bráðhress með fjórða stigs sortuæxli
Skólameistari, íþróttalýsandi og bóndi Sigurbirni Árna Arngrímssyni líður ofboðslega vel í náttúrunni og innan um dýr. „Það er afslappandi,“ segir hann. Fjórða stigs sortuæxli hefur lítil áhrif á störf hans sem skólameistari, íþróttalýsandi og bóndi. Mynd: Aðsend

„Bíddu nú við, þetta eru að ég held, látum okkur nú sjá, það er 1, 2, 3, 4, 5 …“ segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson, íþróttalýsandi, skólameistari á Laugum og bóndi, þegar hann gerir heiðarlega tilraun til að svara blaðamanni hversu mörgum stórmótum í frjálsum íþróttum hann hefur lýst í Ríkissjónvarpinu. Hann nemur ekki staðar fyrr en við töluna 42. Svo oft hefur hann lýst frjálsum íþróttum á heimsmeistaramótum, Evrópumeistaramótum eða Ólympíuleikum. „Ég byrjaði 2002 og hef verið að gera þetta allar götur síðan.“

„Ég flutti heim 2001 og við konan mín bjuggum uppi á Laugarvatni, við áttum ekki börn og við höfðum aldrei farið í frí, við vorum eins og hvert annað námsfólk sem vann á sumrin. Við fengum þarna sumarfrí og ákváðum að fara á Evrópumeistaramótið í München.“ 

Fljótlega eftir komuna til München fékk Sigurbjörn símtal frá Samúel Erni Erlingssyni, íþróttafréttamanni á RÚV, sem hafði frétt af veru hans á mótinu í gegnum Véstein Hafsteinsson frjálsíþróttaþjálfara. „Sammi sá fram á að hann yrði einn þarna með mótið og kæmist ekki á klósettið, hvað þá meira. Ég bara sló til og hélt að þetta væri bara að setjast upp í stúku og lýsa því sem fyrir augu bar, ég áttaði mig ekki á öllum undirbúningnum. Þetta átti vel við mig og við náðum ágætlega saman og ég hef gert þetta síðan.“

Lifandi lýsingEinlægur áhugi á frjálsum íþróttum skilar sér í lifandi lýsingum að sögn Sigurbjörns Árna. Hér er hann í essinu sínu á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu árið 2016.

Sigurbjörn er hlaupari og það hefur nýst honum í lýsingunum, það fer ekki á milli mála. „Ég er með hlaupin í fingrunum. Ég sé hvað er að gerast, oft löngu á undan. Ég átta mig á hraðanum og hvernig fólki líður og hvað er að fara að gerast.“

„Einhverjir myndu koðna ofan í klofið á sér“

Á nýafstöðnu heimsmeistaramóti sem fram fór í Ungverjalandi vakti lýsing hans á kringlukasti Svíans Daniel Ståhl athygli utan landsteinanna. Fyrir kastið hafði Slóveninn Kristjan Čeh, sem var heimsmeistari, tekið forystuna af Ståhl. Með kastinu tryggði hann sér gullið og setti meistaramótsmet í leiðinni. Sænskir miðlar höfðu gaman af lýsingu Sigurbjörns og sögðu hann „gjörsamlega hafa misst vitið“. 

„Sko, einhverjir myndu koðna ofan í klofið á sér en Ståhl er keppnismaður. Þá taldi ég alveg eins líklegt að hann myndi svara þessu. En ég hefði ekki veðjað á meistaramótsmet,“ segir Sigurbjörn og hlær.  

Fyrrnefndur Vésteinn Hafsteinsson, sem tók nýverið við sem afreksstjóri Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands, hefur þjálfað Ståhl um árabil og Sigurbjörn segir að það hafi spilað inn í ákafann í lýsingunni. „Þetta er svo ofboðslega gaman því ég held aðeins með Ståhl út af tengingunni við Véstein. Þó að maður reyni að vera hlutlaus þá verður maður extra glaður þegar þetta gengur. Ef þetta hefði verið í hina áttina hefði ég að sjálfsögðu lýst þessu með ástríðu en það hefði kannski ekki verið alveg sama gleði á bak við ef hann hefði verið að hirða gullið af Daniel.“

Er Gummi Ben ekki bara Bjössi fótboltans? 

Sigurbirni hefur verið líkt við Gumma Ben þegar hann lýsir hlaupum eins og æsispennandi fótboltaleik en bendir góðlátlega á að hann hafi byrjað á undan.

„Ég geri þetta lifandi, held ég“

„Þegar fólk segir við mig að ég sé Gummi Ben frjálsu íþróttanna spyr ég hvort hann sé ekki bara Bjössi fótboltans?“ segir Sigurbjörn, sem er gjarnan kallaður Bjössi, en bætir við að hann hafi mjög gaman af því að vera líkt við Gumma Ben. „Hver er að apa eftir hverjum? Við erum bara svipaðir, með áhuga á íþróttinni, hrífumst með og verðum ákafir og það kemur í gegn.“ 

SmaliSigurbjörn Árni varði fimmtugsafmælinu á góðum hesti á fjöllum við smalamennsku með smá gin og tónik í pela, eins og fylgir því að fara í göngur.

„Ég geri þetta lifandi, held ég,“ segir Sigurbjörn um íþróttalýsingar sínar. Líf hans tók nokkuð óvænta stefnu fyrir tveimur og hálfu ári þegar hann greindist með fjórða stigs sortuæxli en krabbameinið hefur lítil sem engin áhrif haft á dagleg störf skólameistarans, íþróttalýsandans og bóndans. Í viðtali við Morgunblaðið fyrir tveimur árum sagðist hann ekki vita hvort hann nái því að verða sextugur en hann yrði örugglega fimmtugur. Þeim áfanga náði hann í fyrradag, 31. ágúst, og fagnaði með smalamennsku á hestbaki uppi á fjöllum, með örlítið gin og tónik eins og fylgir í göngum. 

Kannski eru æxlin að hvíla sig fyrir næstu árás

Sortuæxlin hafa minnkað og Sigurbjörn hefur verið í lyfjahléi í tæpt eitt og hálft ár. „Mögulega eru æxlin dauð. Mögulegt er, sem er kannski líklegra, að þau liggi bara og eru að hvíla sig og safna kröftum fyrir næstu árás. En ég er bráðhress í dag. Mér hefur aldrei fundist ég vera veikur og fann aldrei fyrir krabbameininu, það var meira lyfjameðferðin sem gerði mann slappan. Manni finnst þetta kannski ósanngjarnt þó að maður sé ekki að hugsa um þetta dagsdaglega, en ég hef orðið var við það að ég er aðeins skapstyggari. En ég reyni nú almennt að vera geðgóður. Ég sé nú kómísku hliðina á öllu, meira að segja þessu krabbameini.“

„Ég er ekki mjög stór maður, það yrði ekki mikið eftir af mér ef allt yrði tekið.“

Sigurbjörn er undir það búinn að krabbameinið geri vart við sig á ný. „Ef æxlin fara af stað verður ákveðið þá hvaða skref verða tekin. Ef þetta er kannski bara eitt æxli verður athugað hvort það sé skurðtækt. Það er ekki hægt að taka þau öll af því þetta er svo mikið og úti um allt. Ég er ekki mjög stór maður, það yrði ekki mikið eftir af mér ef allt yrði tekið. Þetta er bara þarna og svo þarf maður bara að anda með nefinu og sjá hvernig fram vindur. Treysta svolítið á guð og lukkuna.“

Á afmælisdaginn sjálfan var Sigurbjörn ásamt fjölskyldunni uppi á fjöllum að smala. „Mér líður ofboðslega vel úti í náttúrunni og innan um dýr, það er afslappandi.“

Hann stefnir að því að halda almennilega upp á hálfrar aldar afmæli í október, jafnvel með því að halda almennilegt sveitaball í Mývatnssveit. „Þá verður farið að hægjast um í skólanum og ég verð búinn að klára sláturtíð,“ segir bóndinn, skólameistarinn og íþróttalýsandinn Sigurbjörn Árni.  

Kjósa
37
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.
Tengdar greinar

Allt af létta

Mest lesið

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Mest lesið í mánuðinum

Hann var búinn að öskra á hjálp
3
Viðtal

Hann var bú­inn að öskra á hjálp

Hjalti Snær Árna­son hvarf laug­ar­dag­inn 22. mars. For­eldr­ar hans lásu fyrst um það í frétt­um að hans væri leit­að í sjón­um, fyr­ir það héldu þau að hann væri bara í göngu­túr. En hann hafði lið­ið sál­ar­kval­ir, það vissu þau. Móð­ir Hjalta, Gerð­ur Ósk Hjalta­dótt­ir, lýs­ir því hvernig ein­hverf­ur son­ur henn­ar gekk á veggi allt sitt líf, og hvernig hann veikt­ist svo mik­ið and­lega að þau voru byrj­uð að syrgja hann löngu áð­ur en hann var dá­inn.
Forsprakki útifundar játaði fjárdrátt á leikskólanum Klettaborg
4
Fréttir

Forsprakki úti­fund­ar ját­aði fjár­drátt á leik­skól­an­um Kletta­borg

Sig­fús Að­al­steins­son, stofn­andi hóps­ins Ís­land - þvert á flokka, sem stend­ur fyr­ir úti­fund­um um hæl­is­leit­end­ur, ját­aði á sig fjár­drátt frá leik­skól­an­um Kletta­borg þeg­ar hann var for­stöðu­mað­ur þar. Hann vill ekki dæma hvort brot af því tagi séu nógu al­var­leg til að inn­flytj­end­ur sem gerð­ust sek­ir um þau ætti að senda úr landi.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár