Húsfyllir var í sal Hjálpræðishersins við Suðurlandsbraut í Reykjavík síðdegis á samráðsfundi 28 félagasamtaka vegna fólks á flótta sem hefur verið svipt opinberri þjónustu.
Samtökin höfðu boðið ráðherrum, sveitarstjórnarfólki og ríkislögreglustjóra á fundinn en Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félagsmálaráðherra, var sá eini úr ríkisstjórninni sem mætti.
Drífa Snædal, talskona Stígamóta, sem stýrði fundinum sagði að þetta væri söguleg stund því aldrei hefðu þessi 28 samtök sameinast um mál sem þarf að ræða og boðað til fundar til að gera einmitt það. Þetta sýndi alvarleika málsins. „Ég held að þetta sé í fyrsta sinn sem svo mörg félagasamtök senda frá sér sameiginlega yfirlýsingu. Það sýnir alvarleika málsins,“ sagði Drífa.
Á fundinum voru einnig nokkur úr hópnum sem hafa verið svipt þjónustu eftir að hafa verið synjað um vernd. Þeirra á meðal konurnar þrjár sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum, þær Mary Hichioyah, Blessing Uzoma og Esther Omoregie.
Athugasemdir (1)