Hópur aðgerðasinna stóð fyrir mótmælum á setningu Menningarnætur vegna nýrrar stefnu stjórnvalda í útlendingamálum í kjölfar umdeildra útlendingalaga sem Jón Gunnarsson, fyrrverandi dómsmálaráðherra, kom á laggirnar með stuðningi ríkisstjórnarflokkanna og nokkurra stjórnarandstöðuþingmanna úr Miðflokki og Flokki fólksins. Mótmælin báru nafnið: Afmælisgjöf Reykjavíkurborgar: yfir 30 manns gerð heimilislaus. Þau fóru fram við Kjarvalsstaði þar sem borgarstjóri Dagur B. Eggertsson setti viðburðinn og Langi Seli og Skuggarnir skemmtu gestum.
„Fyrir 2-3 vikum hóf Útlendingastofnun í samstarfi við ríkislögreglustjóra að svipta fólk á flótta allri þjónustu. Það felur í sér sviptingu á húsnæði og vikulegum uppihaldskostnaði (samtals 8.000 krónur) og úthýsingu þeirra á götuna,“ segir í dreifibréfi frá hjálparsamtökunum Solaris og No Borders Iceland.
Neyðarástand á götum Reykjavíkur
Sema Erla Serdaroglu er stofnandi og forseti Solaris samtakanna og aðjúnkt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún segir mótmælin hafa verið til þess að minna fólk á stöðuna sem er uppi núna og það neyðarástand sem ríkir í samfélaginu.
Á mótmælunum mætti fólk með skilti og sýndi samstöðu með fólki á flótta sem nú á undir högg að sækja vegna skertrar þjónustu. „Yfir 30 manns eru nú í þessari annarlegu stöðu og fleiri bætast í hópinn í hverri viku. Í hópnum eru meðal annars konur sem eru þolendur mansals og ungmenni á aldrinum 18-25. Það hefur skapast sannkallað neyðarástand á götum Reykjavíkur og nágrannasveitafélaga og það stefnir í að ríkisstjórnin ætli að nýta sér neyðarástandið til að koma á legg fangelsisbúðum fyrir fólk á flótta.“
Sema Erla segir samtökin Solaris hafa miklar áhyggjur af þróun mála. „Miðað við þessar tölur þá höfum við ekki komist í samband við helming þeirra einstaklinga sem núna ættu að vera á götunni en við reynum að hafa upp á fólki þegar okkur berast ábendingar. Það kom ein rétt áðan.“ Aðstæðurnar sem sjálfboðaliðar samtakanna mæta eru of krefjandi fyrir þau til að ráða úr. Dæmi eru um að fólk finnist eftir að hafa verið á götunni í tvær vikur með ruslapoka sér til skjóls. „Við erum að tala um fólk í þeirri stöðu að það hefur verið sett allslaust á götuna. Það hefur ekkert bakland né tengslanet á Íslandi. Við erum að finna fólk sem hefur sofið í rjóðrum eða görðum og verið borðandi upp úr ruslatunnum án þess að geta farið í sturtu eða skipt um föt. Líkamleg og andleg staða fólks í þessari stöðu er í rauninni bara hræðileg.“
Fangabúðir
„Þetta er ekki eitthvað sem sjálfboðaliðar ráða við að leysa úr, það er alveg á hreinu. Þess vegna er þess krafist að yfirvöld bregðist við án frekari tafa," segir Sema Erla og lýsir vonleysinu hjá fólki á flótta sem algjöru. „Það er búið að dæma fólk til heimilisleysis, sárafátæktar og hungursneyðar. Þetta fólk er berskjaldað gagnvart allskonar misnotkun og ofbeldi. Það sem yfirvöld hafa gert er að ræna fólk reisn sinni og allri von. Það er bara staðan og margir sem mættu skammast sín akkúrat núna.“
„Það er búið að dæma fólk til heimilisleysis, sárafátæktar og hungursneyðar.“
„Miðað við það sem dómsmálaráðherra hefur sagt að þá á að setja á fót einhverskonar úrræði þar sem fólk er geymt og hefur ekki frelsi til að koma og fara og það er auðvitað bara ekkert annað en fangabúðir. Ef þú ætlar að skerða ferðafrelsi fólks og loka það inni einhversstaðar. Það er alveg sama hvaða fallegu orðum þú reynir að fegra hlutina með þá sést auðveldlega í gegnum það sem er verið að gera. Maður hreinlega veltir því fyrir sér hvort að þetta hafi alltaf verið markmiðið og þetta sé leiðin að markmiðinu, að það sé verið að nota fólk í neyð í einhverja pólitíska leiki,“ segir Sema Erla.
„Ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hefur því tekist langþráð ætlunarverk sitt: Að grafa sem aldrei fyrr undan grundvallar mannréttindum fólk á flótta á Íslandi og afmennska þau á hátt sem aldrei áður hefur sést hér á landi,“ segir í dreifibréfinu þar sem almenningur er hvattur til að beita stjórnvöldum þrýsting í þessum málaflokk með öllum mögulegum leiðum.
Það er slæmt hvað fólk þarf að bíða lengi eftir ákvörðun yfirvalda, það þarf að ganga frá svona löguðu á skemmri tíma.
Það vantar spítala, götur, húsnæði og margt sem samfélagið krefst og svo er fólk að standa á torgum og heimta að allir sem hafa einhvern veginn komist hingað fái alla þá þjónustu sem heimamenn verða að bíða eftir í mörg ár að fá. (Og bölva svo helv…. kerfinu, að komast ekki að hjá læknum, á milli húsa á ófærum götum eða fá ekki húsnæði eða barnaheimili útaf lélegri ríkisstjórn.
Það verður að stoppa “túrista flóttamenn” frá því að fylla hér öll hús.
Fólk fær að vita að hér fær “flóttafólk” húsnæði og dagpeninga og getur lifað á kerfinu í nokkur ár, eða karlar, sem hefur verið sagt að hér bíði þeirra konur með hús og bíl og þeir þurfi ekki annað en að “tékka inn” og lifa glaðir það sem eftir er.
Það mætti halda áfram lengi enn.
Kveðjur. bjornf