Norski dýralæknirinn sem starfað hefur sem ráðgjafi Hvals hf. vegna langreyðaveiða Íslendinga hannaði einn hluta á sprengjuskutlinum sem fyrirtækið notar og átti einkaleyfi á þeim í 20 ár. Þetta einkaleyfi hans var skráð í Noregi og rann það út árið 2020. Þetta kemur fram í norsku einkaleyfaskránni. Um var að ræða einkaleyfi á öryggismekanisma á hvalskutlinum sem virkar þannig að sprengjuhleðslan á skutlinum springur aðeins ef skutullinn hæfir dýrið.
Dýralæknirinn heitir Egil Ole Øen og er hann einn helsti sérfræðingur heims í hvalveiðum. Auk þess að hafa starfað sem ráðgjafi við veiðarnar fyrir Hval hf. þá hefur hann einnig verið ráðgjafi íslenskra stjórnvalda vegna hvalveiða.
Þannig má segja að Egil Ole hafi hagnast á hverjum einasta sprengjuskutli sem notaður var á hvalskutul á Íslandi frá því Hvalur hf. hóf aftur veiðar á langreyðum við Ísland árið 2006, eftir 20 ára hlé, og þar til árið 2020.
Athugasemdir