Á mánaðarlangri hátíð, sem er tileinkuð tónskáldinu, eru í Bayreuth árlega flutt frægustu verk þessa nítjándu aldar afreksmanns, sem virtist geta allt. Hann var fyrirferðarmikill í þýsku þjóðlífi, hann samdi og stjórnaði tónlist sinni, skrifaði og reif kjaft um pólitík og var gerður útlægur í meir en áratug. En nafn hans verður um aldur og ævi tengt einum stórfenglegustu tónverkum sögunnar.
Persónur og leikendur
Maður er nefndur Dmitry Utkin. Hann er fyrrverandi foringi í leynilögregu- og njósnadeild rússneska hersins, svipljótur og húðflúraður með einkennismerkjum nasista. Fyrirmynd hans í lífinu var nefnilega Adolf Hitler. Hitler var aðdáandi tónlistar Wagners og misnotaði hana til að skreyta þjóðernisstefnu sína. Dmitry tók sér nafn Wagners, sem kallmerki í samskiptum innan rússneska hersins. Svo segir sagan.
Um Wagnerflokkinn er raunar lítið vitað. Að dæmi annarra stóreignamanna hafa eigendurnir sett á fót flókið net fyrirtækja og eignarhaldsfélaga til að hylja slóð sína. Munurinn er þó sá að fyrir þeim vakir að dyljast fyrir herjum og leyniþjónustum heimsins á meðan venjulegir auðmenn eru bara á flótta undan ríkisskattstjórum og lögreglu.
En málaliðarnir komu upp á yfirborðið þegar Rússar réðust á Krímskaga 2014 og börðust við hlið Bashar al-Assad í Sýrlandi árið eftir. Og fljótlega eftir innrás Rússa í Úkraínu í febrúar 2022 vissi svo umheimurinn allur hverjir þeir voru og nú eru þeir á ratsjánni í Afríku.
Aukasýningar í Afríku
Prigozhin hefur haft í ýmsu að snúast fyrir Rússa. Hann hefur verið önnum kafinn í Afríku á þeirra vegum síðan 2017. Í grein í franska stórblaðinu Le Monde, 31. júlí sl. segir að í minnisblaði innan Wagnerhópsins frá 2019 standi að í Afríku skarist hagsmunir allra stórvelda heimsins og að styrkur þeirra á alþjóðavettvangi ráðist af áhrifum þeirra þar.
Eftir fyrsta toppfund Rússa og Afríkuþjóða, sem haldinn var í rússnesku borginni Sochi árið 2019, segir blaðið að Prygozhin hafi búið til öfluga áróðursvél til að styrkja stöðu Rússa í álfunni. Markmiðið skyldi vera að dreifa upplýsingum um stuðning þeirra við sjálfstæðisbaráttu Afríkuþjóða í gegnum tíðina og að efla andstöðu gegn Evrópulöndum og Bandaríkjunum.
Prygozhin lét hendur standa fram úr ermum. Wagnerliðar eru taldir hafa náð fótfestu í allt að tugi Afríkuþjóða og samvæmt skýrslu bandarískrar öryggismálastofnunar frá síðasta ári nær upplýsingastarfsemi Rússa til um 20 landa um alla álfuna, allt frá Libýu í norðri til Suður-Afríku í suðri.
Næsta stórverkefni Prygozhins verður líklega í Niger. Í fréttum BBC þann 8. ágúst er haft eftir Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að óvíst sé hvern þátt Rússar og Wagnerhópurinn eigi í nýlegri uppreisn í Vestur-Afríkuríkinu. Hinsvegar sé líklegt að þeir muni færa sér ástandið í nyt.
Prygoshin lítur trúlega á verkefnin í Afríku sem lífeyrissjóð fyrir sig. Þau munu endast honum í langan tíma því mestar líkur eru á að álfan verði um ókomna tíð bitbein stórvelda og leikvöllur vopnaframleiðenda.
Senuþjófurinn
Prygozhin er erfiður i samskiptum og kann að stela senunni. Hann hefur brúkað kjaft við yfirmenn rússneska hersins, sagt þá vanhæfa, þeir útvegi hvorki vopn né skotfæri og kunni yfirleitt ekki til verka við að drepa fólk. Og þegar hann sendir þeim tóninn í myndböndum frá vígvellinum hlustar allur heimurinn og þar með talinn rússneskur almenningur.
Í júní sl. varð Prygozhin pirraður. Hann stefndi sínum mönnum til Moskvu. Þeim var fagnað á leiðinni eins og þjóðhetjum. Hann hefði getað lent í því að hertaka höfuðborgina ef hann hefði ekki náð að bremsa í síðustu beygjunni. Putin lokaði sig inni og tók ekki símann.
Putin boðaði forystumenn Afríkuríkja til toppfundar í Sankti Pétursborg, 27. og 28. júlí. Þegar hann bauð þeim til Sochi mættu 43. Nú mættu færri en 20 af þeim 54 sem fengu boð. Stemningin var ekki góð. Og aðalspekúlasjónin var hvort Prygozhin myndi koma.
Hann kom ekki.
En Prygozhin veit að í Kreml eru óperuhandritin skrifuð þannig að í lok sýninga leiki enginn vafi á hver skuli taka á móti lokaklappinu fremst á sviðinu.
Höfundur er lífeðlisfræðingur og var eitt sinn alþingismaður.
Athugasemdir