„Ég var í varðhaldi [...] þegar ég heyrði það í útvarpinu sem ég var með í klefanum mínum að stríð væri hafið,“ segir Maria Alyokhina í samtali við Heimildina um þá ákvörðun hennar að forða sér í burtu frá Rússlandi. Þegar úr varðhaldi var komið þurfti hún að ákveða sig hvað hún ætlaði að gera í framhaldinu. Hún vissi það eitt að hún vildi styðja málstað Úkraínu og að það yrði erfitt innan landamæra Rússlands.
Heimildin ræddi við Pussy Riot um miðjan júlí á Seyðisfirði en þangað voru þær komnar til þess að taka þátt í dagskrá LungA, Listahátíð ungs fólks á Austurlandi. Raunar voru þær að koma úr löngu flakki um Evrópu sem líkja mætti við tónleikaferðalag þar sem þær sýndu verk sitt Riot Days. Það ætluðu þær líka að gera á Seyðisfirði.
Þær fóru allar, hver í sínu lagi frá Rússlandi á síðasta ári. „Fyrir mér var þetta erfiðasta ákvörðun sem ég hef tekið og ég get ekki ímyndað mér líf mitt án Rússlands. Það er engin spurning að ég mun snúa aftur. Ég veit ekki hvernig staðan verður þegar ég fer til baka en ég mun gera það,“ segir Maria, sem iðulega er kölluð Masha, um ákvörðun sína um að yfirgefa landið. Frá Rússlandi fór hún yfir til Belarús og þaðan inn í Litháen, en það gekk ekki þrautalaust fyrir sig.
Átti frekari fangelsisvist yfir höfði sér
Þegar hún lagði af stað frá Rússlandi vissi Masha að þar biði hennar frekari fangelsisvist. „Þegar ég fór yfir landamæri Belarús og inn í Evrópusambandið [til Litháen] í lok apríl á síðasta ári þá var stærsta spurningin sem ég stóð frammi fyrir: Hvað á ég að gera? Ég átti yfir höfði mér 24 daga fangelsisdóm og nú er ég komin á lista yfir eftirlýsta glæpamenn. Hvort átti ég að taka út mína refsingu og þurfa líklegast að standa í fleiri dómsmálum í kjölfarið eða að taka stöðu með Úkraínu? Það var valið sem ég stóð frammi fyrir.“
Til þess að geta fjallað með gagnrýnum hætti um stjórnvöld í Rússlandi og stríðið sem þau reka í Úkraínu þurfti hópurinn að yfirgefa heimalandið. „Það er þaggað niður í meirihluta fólks sem hefur einhver alvöru áhrif því það er allt í fangelsi,“ segir Olga Borisova, annar meðlimur Pussy Riot um stöðu þeirra sem gagnrýnin eru á ástandið.
Hætt að trúa á friðsamleg mótmæli
Þó svo að harkalega sé tekið á mótmælum og að fjöldi pólitískra fanga sé hár, bendir Olga á að enn finnist dæmi um baráttu gegn stríðinu.
Til dæmis skæruaðgerðir á borð við íkveikjur á stöðum þar sem herskráning fer fram, auk þess sem skemmdarverk hafa verið unnin á lestarstöðvum.
„Þetta eru því ekki „friðsamlegir mótmælendur“ en ég er hætt að trúa á friðsamleg mótmæli,“ bætir Olga við.
Athugasemdir (5)