Regnbogafánar sem flaggað var við bensínstöð Orkunnar í Öskjuhlíð voru skornir niður í nótt sem leið. Fánarnir, sem voru tveir, lágu á jörðinni við fánastangirnar þegar vegfarendur áttu leið framhjá í morgun á meðan að fánar með merki Orkunnar blöktu áfram í golunni. Augljóst er því að ekki er um tilviljanakennd skemmdarverk að ræða heldur beinast þau sérstaklega að hinsegin fólki. Hinsegin dagar í Reykjavík hefjast formlega eftir fjóra daga.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem regnbogafánar sem flaggað er við bensínstöðvar Orkunnar eru skornir niður. Í fyrrasumar, 18. ágúst, voru fjórir regnbogafánar skornir niður við bensínstöð Orkunnar í Suðurfelli. Skömmu áður höfðu níu regnbogafánar sem flaggað var á Hellu verið skornir niður úr fánastöngum þar í bæ, sem og regnbogafánar sem flaggað var fyrir utan Hjallakirkju í Kópavogi.
Hinsegin fólk hefur lýst því að bakslag hafi orðið í réttindabaráttu þess undanfarin misseri. Í síðustu ársskýrslu Samtakanna ‘78 lýsti framkvæmdastjóri samtakanna, Daníel E. Arnarson, því sem hinsegin fólk stæði nú í miðjum stormi. Sagðar voru fréttir af áreiti á hendur ungu hinsegin fólki á götum á síðasta ári og nasistatáknum sem máluð voru á skilti hinsegin daga, til að mynda. Skemmdarverk á regnbogafánum eru enn ein birtingarmynd andúðar í garð hinsegin fólks og eru hluti af hatursorðræðu og hatursglæpum í garð þess.
Að standa fyrir réttindi samkynhneigðra og fleiri "jaðarhópa" skerðir ekki á neinn hátt tilveru "venjulegs" fólks.
Þvert á móti finnst mér betra að búa í samfélagi sem virðir réttinda allra.