Skort hefur á það í núverandi fyrirkomulagi almenningssamgangna að þær séu valkostur fyrir fólk til ferða innan atvinnusvæða og milli byggðalaga. Þetta er meðal þess sem kemur fram í umsögn Akraneskaupstaðar um drög að samgönguáætlun Alþingis til 2038. Nauðsynlegt sé að gera bragarbót þar á, bæði hvað varðar þjónustu strætó og annarra áætlunarbíla, en eins óskar bærinn eftir samtali um rekstur farþegaferju milli Akraness og Reykjavíkur.
Í umsögn sveitarfélagsins er það nefnt að verðlagning farþegagjalda þurfi að vera með þeim hætti að raunhæft sé að ferðast með almenningssamgöngum á móti því að notast við einkabíl, að tíðni ferða þurfi að uppfylla kröfur fólks og að tenging almenningssamgangna frá Akranesi við önnur samgöngukerfi verði að vera hvetjandi svo þær verði eðlilegur valkostur. Þá sé mikilvægt að almenningssamgöngutæki séu knúin endurnýjanlegri orku.
Í umsögninni er einnig nefnt að tilraun með áætlunarsiglingar milli Skaga og Reykjavíkur sem stóð sumarið og haustið 2017 hafi gefið vísbendingar um að slíkur almenningssamgangnakostur stytti bæði ferðatíma og gæti aukið við komur ferðamanna til Akraness.
Yrði að vera knúið endurnýjanlegri orku
Haraldur Benediktsson, bæjarstjóri á Akranesi, segir að fyrst og fremst sé verið að horfa til mögulegra siglinga yfir háferðamannatímann, að sinni í það minnsta. Hins vegar sé enn sem komið er ekki lögð þung áhersla á að koma umræddum ferjusiglingum á koppinn.
„Þetta hefur verið áherslumál í nokkur ár þegar samgönguáætlun hefur verið til umræðu, en kannski ekki af fullri alvöru því það hefur ekki verið eitt sérstakt skip í sigtinu. Menn hafa verið með augun opin en við höfum sagt að það er ekki horft á neitt annað en það sem styður við orkuskipti líka. Ekkert slíkt er í hendi en við erum áfram um að ef finnst farþegaskip sem tekur þetta hundrað manns og uppfyllir þessi skilyrði, að það yrði þá kannað,“ segir Haraldur og bætir við ekki sé verið að horfa á bílferju heldur eingöngu farþegaskip.
„Þetta er kannski ekki fyrsti kostur varðandi heilsárssamgöngur en stóran hluta ársins gætu þetta verið mjög raunhæfar samgöngur“
Ferja sem þessi gæti lagst að bryggju í Reykjavíkurhöfn, við Hörpu hér um bil, og segir Haraldur að mikilvægt væri að umrætt skip myndi tengja saman miðbæina beggja vegna Faxaflóa. „Það sem við lærðum kannski á fyrri tilraun var að það þyrfti að leggja áherslu á stilla ferðatímann þannig að þetta yrði valkostur fyrir þá sem væru að sækja vinnu og nám, jafnt til þess að þjónusta lausatraffík við þá sem vildu skjótast upp á Skaga, ferðamenn þar á meðal. Þetta er kannski ekki fyrsti kostur varðandi heilsárssamgöngur en stóran hluta ársins gætu þetta verið mjög raunhæfar samgöngur.“
Yrði liður í markaðssetningu Akraness
Spurður hvort hann telji að Akranes sé afskiptur bær, þegar kemur að ferðaþjónustu segir Haraldur að ferðamennska á Akranesi sé ekki mikil en fari vaxandi. „Það er þó meira okkar heimamanna að gera í því en annarra. Við eigum fullburða ferðamannastaði, til að mynda Akranesvita sem er að fá til sín einhverja 40 þúsund ferðamenn á ári. Við eigum líka, eins og aðrir, safnasvæði sem ferðamenn sækja. Við eigum hins vegar ekki hótel og við erum eiginlega með það núna í farvatninu. Þegar við sjáum til lands í því erum við staðráðin í því að fara að byggja okkur upp og vekja athygli á Akranesi. Ferja sem þessi gæti verið einn liður í því.“
Ferjusiglingar sem þessar væru hluti af því að byggja upp tíðar og hagkvæmar almenningssamgöngur, sem væru raunhæfur kostur fyrir fólk sem þarf og vill ferðast milli Akraness og Reykjavíkur í báðar áttir. Enn sem komið er leggur Haraldur þó áherslu á að nauðsynlegt sé að laga almenningssamgöngur á landi að þessum kröfum, ferjusiglingar séu meiri framtíðarmúsík en mikilvægur og raunhæfur möguleiki þó.
„Við eigum gamla mælingu, frá árinu 2017, og þá var það eitthvað um 30 prósent íbúa Akraness sem sóttu atvinnu eða nám á höfuðborgarsvæðinu daglega. Við eigum ekki nýrri könnun en sjálfum fannst mér, meðan ég keyrði ennþá daglega á milli, þá fannst mér sem traffíkin hefði minnkað eftir Covid. Við verðum líka vör við það, það er meira um heimavinnu og slíkt. Atvinnusókn hefur hins vegar ekki síður aukist frá höfuðborgarsvæðinu og upp á Akranes, það er eiginlega stóra breytingin. Til að mynda flytja stóru byggingaverktakafyrirtækin, sem eru farin að byggja uppi á Akranesi í vaxandi mæli, mikinn mannskap á milli,“ segir Haraldur enn fremur.
Vilja bæta það sem er fyrir
Í umsögninni segir þá einnig að Akraneskaupstaður „leggur áherslu á að almenningssamgöngur verði raunhæfur valkostur“. Spurður hvort að með þessu orðalagi sé sveitarfélagið þeirrar skoðunar að almenningssamgöngur til Akraness séu ekki raunhæfur valkostur eins og stendur svarar Haraldur:
„Við fórum illa út úr gjaldskrárbreytingum í fyrra og án þess að eiga tölur um það þá segir mér svo hugur að við höfum gefið eftir í farþegafjölda. Það var furðulegur gjörningur hvað leggurinn Akranes til Reykjavíkur hækkaði mikið í verði. Svo höfum við verið að glíma við að fá vagninn neðar í borgina, svo fólk geti komist á Háskólann og miðborgina. Það þarf að skipta svo ofarlega í borginni og þess vegna er tilgreindur þessi punktur að almenningssamgöngur frá Akranesi falli vel að öðrum samgöngum innan borgarinnar. Við erum eiginlega meira upptekin af honum heldur en keyrslunni inn í borgina og erum í ágætu samtali við Vegagerðina um það. Þar fyrir utan höfum við verið að þrýsta á að fá grænorku vagna á þennan legg og mér skilst að það verði skilyrði í næsta útboði.“
„Sem einhvers konar hluta af almenningssamgöngukerfinu á suðvesturhorninu, þá sjáum við ferju alveg eins og vagn sem hluta af því“
Allar umbætur á almenningssamgöngum milli Akraness og Reykjavíkur eru því mikilvægar fyrir íbúa á báðum stöðum, en hanga líka saman við ferðaþjónustuna, sem Haraldur vonast til að verði vaxtarbroddur á næstu misserum og árum á Akranesi.
„Já, það er mjög stór hópur ferðamanna sem í raun er bara gangandi í miðborg Reykjavíkur og hefur ekki annan valkost en að grípa svona ferju eða strætisvagn. Ef við værum með ferju sem tæki 30 mínútur eða strætisvagn sem tæki 45 mínútur í förum á milli þá er þetta í raun og ein og sama miðborgin, það er svo stutt á milli. Sem einhvers konar hluta af almenningssamgöngukerfinu á suðvesturhorninu, þá sjáum við ferju alveg eins og vagn sem hluta af því.“
Athugasemdir (1)