Árið 2021 tók Sorpa við 4,5 milljónum kílóa af dýrahræjum til förgunar. Það er umtalsvert meira en árið 2020 þegar kílóin voru í kringum 1,4 milljónir. Í fyrra voru þau rétt undir einni milljón.
Öll dýrahræ (sláturúrgangur eins og það er kallað) sem bárust Sorpu til förgunar til ársins 2021 voru urðuð en það ár hóf fyrirtækið að senda hluta þeirra til kjötmjölsverksmiðjunnar Orkugerðarinnar við Selfoss. Langstærstur hluti var þó urðaður í Álfsnesi. Í fyrra voru ríflega 40 prósent af öllum dýrahræjum flutt í Orkugerðina. Það þýðir að um 560 þúsund kíló, 560 tonn, voru urðuð.
Í skriflegum svörum Sorpu við fyrirspurn Heimildarinnar um urðun dýrahræja segir að ferlið sé þannig að útbúnar séu sérstakar holur á athafnasvæðinu í Álfsnesi og um leið og farmurinn frá búunum hefur verið losaður eru gröfur notaðar til að setja jarðveg yfir úrganginn „til að sporna við óþarfa lyktarmengun og að farfugl komist í efnið“.
Um helmingur allra dýrahræja sem bárust Sorpu árið 2021, eða 2.300 tonn, kom frá kjúklingabúum. Reikna má með að langstærsti hlutinn séu varphænur sem drepnar eru um 16–18 mánaða aldurinn eða þegar varp mætir ekki lengur framleiðslukröfum. Í fyrra bárust Sorpu um 470 tonn af dýraleifum frá kjúklingabúum.
Á síðustu árum hefur Sorpa tekið við dýrahræjum frá sex rekstraraðilum sem stunda alifuglarækt. Fleiri bú eru starfrækt en hræ þaðan fara annað í förgun. Um 200 þúsund varphænur eru á hverjum tíma í þessum búum samanlagt og áform eru uppi um að stækka sum þeirra.
Hræin hökkuð og soðin til mjölgerðar
Verksmiðjan Orkugerðin hét áður Förgun. Fyrirtækið hefur starfsleyfi Umhverfisstofnunar til framleiðslu á kjötmjöli og fitu úr dýraleifum. Í Orkugerðinni er tekið við framleiðsluleyfum, líkt og það er kallað í starfsleyfinu, frá sláturhúsum og kjötvinnslum og er vinnsluferlinu lýst þannig: Hráefnið er hakkað niður þegar það kemur til vinnslu og er sótthreinsað í sjóðurum. Eftir verður blanda af fitu og mjöli sem skilin er að í pressu. Fitan fer í kjölfarið í þar til gerða skilvindu og á upphitaða birgðageyma. Mjölið fer í mölun og þaðan í síló. Síðan er því pakkað í sekki.
Athugasemdir