Vefur Íslendingabókar er lokaður á meðan rannsókn á mögulegum öryggisbresti stendur yfir. Ábending utan úr bæ barst Íslenskri erfðagreiningu (ÍE) á dögunum um mögulegan öryggisbrest og tekin var ákvörðun um að loka fyrir aðgang að vefnum á meðan að gengið er úr skugga um að allt sé í lagi. Þetta segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, samskipta- upplýsingafulltrúi ÍE, í samtali við Heimildina.
„Það er ekki alveg sjálfsagt að reka ættfræðigrunn sem er opinn fólki til skemmtunar og reksturinn er háður ströngum skilyrðum. Við fengum ábendingu um að það gæti verið ákveðinn öryggisbrestur og ákváðum að loka fyrir aðgang á meðan við værum að ganga úr skugga um að allt væri í lagi. Sú athugun er enn þá í gangi. Við eigum von á því að opna vefinn aftur innan skamms, í síðasta lagi á mánudaginn en það gæti orðið fyrr,“ segir Þóra Kristín.
Hún segir að það sé ekki vitað á þessari stundu hvort að öryggisbrestur hafi verið til staðar. „Við erum að vanda okkur og reynum að ganga úr skugga um að það sé ekkert í gangi sem ekki eigi að vera.“
Notendur vilja komast aftur í ættfræðigrúskið
Á heimasíðu ÍE segir að notendur Íslendingabókar telji um 200 þúsund og að vefurinn fái um 100 þúsund heimsóknir mánaðarlega. Þar segir einnig að notendur Íslendingabókar verji um 12 þúsund klukkustundum á hverjum mánuði í ættfræðigrúsk á síðunni.
„Við vitum að það er mjög stór hópur fólks sem notar íslendingabók daglega, þar af margir eldri Íslendingar sem eru mjög uggandi meðan vefurinn er ekki opinn,“ segir Þóra Kristín spurð um hvort ÍE hafi fengið einhver viðbrögð frá fólki við lokuninni. „Þetta er vinsælasti tölvuleikur eldri kynslóðarinnar og fólki finnst það vera mjög mikil skerðing á sínum lífsgæðum að það sé ekki opið. Við erum stolt af þessu og stolt af Íslendingabók.“
Nú hefur lokunin varað í það minnsta í sólarhring og því ekki hjá því komist að spyrja um hvort það geti verið að vefurinn hafi lokað fyrir fullt og allt. „Ég tel ekki að málið sá á því stigi að við þurfum að hafa áhyggjur af því,“ segir Þóra Kristín um slíkar áhyggjur.
Ljóst er að notendur Íslendingabókar eru á öllum aldri og lokun vefsins hittir fólk misvel fyrir. Sumir notendur hafa til að mynda komið gremju sinni í garð lokunarinnar til skila á Twitter. „Hleypið mér aftur inn!“ ritar til dæmis Lóa Björk Björnsdóttir, útvarpskona á Rás 1 í færslu á Twitter.
Athugasemdir