Kolfinna Íris Rúnarsdóttir er 22 ára Ísfirðingur, búsett á höfuðborgarsvæðinu. Hún skráði sig í Reykjavíkurmaraþonið og hleypur til styrktar Parkinsonsamtökunum. Afi hennar, Karl Geirmundsson, lést af völdum taugasjúkdómsins fyrr á árinu, 83 ára að aldri. Hann var tónlistarmaður frá Ísafirði og stundaði hestamennsku af miklu kappi í mörg ár.
Sjálf var Kolfinna Íris mikið í íþróttum sem barn. „Ég flutti 16 ára til Noregs í skíðamenntaskóla. Eftir að ég kom heim hætti ég í skíðum og fór að gera allskonar annað. Þá fór ég í cross-fit og byrjaði aftur í fótbolta en svo langaði mig að prófa að hlaupa og er búin að vera að gera það í allt sumar. Ég hljóp hálfmaraþonið í fyrra og langaði að spreyta mig á maraþoninu núna í ár.“
Hálfmaraþonið á síðasta ári gekk ágætlega að sögn Kolfinnu Írisar sem komst í mark, en ákvörðunin um að taka þátt var tekin með stuttum fyrirvara. Núna gengur undirbúningur fyrir heila maraþonið vel og ákvörðunin tekin með lengri fyrirvara. „Maður þarf að gefa sér tíma til að fara út og hlaupa. Það er alltaf gaman og ekkert mál, sérstaklega þegar það er sól.“
Alvöru meining
Aðspurð hvers vegna hún skráði sig í hlaupið segir Kolfinna Íris: „Mér finnst gaman að ögra mér og ná nýjum markmiðum. Svo langaði mig líka að prufa að hlaupa fyrir einhver samtök því ég hafði aldrei gert það áður. Þá datt mér ekkert annað í hug en að hlaupa fyrir Parkinsonsamtökin þar sem afi minn kvaddi okkur fyrr á árinu eftir að hafa verið að berjast við þann taugasjúkdóm. Þá var einhvern veginn kominn alvöru meining og markmið að hlaupa fyrir, því að það stendur manni nærri.“ Hún segist ánægð að geta styrkt samtökin svo hægt sé að veita þeim sem á þurfa þjónustu.
Kolfinna Íris skráði sig í hlaupið þann 24. júlí og var markmiðið að safna 100.000 krónum fyrir Parkinsonsamtökin. Strax eftir fyrsta daginn var hún búin að safna 80.000 krónum og sólarhring seinna var markmiðinu náð. „Ég er mjög ánægð. Þetta er mikil hvatning og gerir mig spenntari að klára hlaupið. Það var ekki komið mikið í Parkinson samtökin fyrir, þannig að ég á einn þriðja af öllu sem er komið þangað inn sem var gaman að sjá.“
Hvað tímamarkmið varðar ætlar Kolfinna Íris að reyna að hlaupa 42,2 kílómetra á undir 4 klukkustundum og korteri þó að hún setji ekki pressu á sjálfa sig. Fjölskylda og vinir fylgjast með úr fjarlægð og einhverjir verða við endalínuna að fagna með henni.
Athugasemdir