Þessi grein birtist fyrir rúmlega 10 mánuðum.

Bíómyndir fyrir barnamálaráðuneyti

Nokkr­ar bestu mynd­irn­ar á kvik­mynda­há­tíð­inni í Karlovy Vary, sem fram fór í byrj­un mán­að­ar­ins, áttu það sam­merkt að fjalla um börn – þótt þær væru alls ekki fyr­ir börn.

Bíómyndir fyrir barnamálaráðuneyti

Nauðgun og glatað sakleysi, börn í hakkavél dómstóla og gulu pressunnar, börn sem eru fangar fjölskyldutráma og alkóhólisma foreldranna, eða fórnarlömb eineltis og vanhæfra kennara eða skólastjórnenda. Þetta eru málefni sem þarf að ræða, en er erfitt að ræða í barnvænum myndum – þótt það sé sannarlega ekki ómögulegt, og þetta markar nokkrar athyglisverðustu myndir ársins til þessa.

Tékkneska myndin Viðkvæm manneskja (Citlivý člověk) virðist gerast í einhvers konar hliðarveröld við það Tékkland sem varð, allavega eru vísanir í kommúnismann í myndinni of nýlegar til að passa við framtíðarmynd – því í nálægri framtíð verður það langt liðið frá kommúnismanum að hann verður fortíð sögubókanna, ekki ljóslifandi fortíð aðalpersónanna eins og hér. Þetta er Tékkland þar sem mótorhjólabandítar að hætti Mad Max ríða um héruð og inn í þetta fléttast svo fjölskylda Elíasar (Jaroslav Cuhra), móðirin sem þeir glata og pabbinn, leikarinn sem er sífellt að vitna í heimsbókmenntirnar og drekka görótta drykki og gretta sig eftir á, sem og afinn sem fellur frá.

Stikla - Viðkvæm manneskja

Líklegast er aðalsaga myndarinnar, dimm og drungaleg sem hún er, samt einhver einkennilegur flótti frá erfiðum heimilisaðstæðum. Drungalegt ævintýri sem er samt ískyggilega raunsætt um sumt. Myndin er byggð á skáldsögu Jáchym Topol, sem kemur úr einni frægustu listafjölskyldu Tékklands, en bróðir hans, Filip, var söngvari og píanóleikari einnar frægustu andspyrnusveitar áttunnar og níunnar, Psí vojáci (sem þýðir Stríðshundarnir og er sótt í bókina Little Big Man, sem seinna var kvikmynduð með Dustin Hoffman) og spilaði á píanó þangað til blæddi úr hnúunum – og vitaskuld dó hann ungur, aðeins 48 ára. Pabbi þeirra var helsti Shakespeare-þýðandi Tékka og afinn virt tilraunaskáld og bæði Filip, bróðir Jáchyms, og foreldrarnir dóu á árunum fimm áður en bókin kom út og því er auðvelt að ímynda sér söguna sem einhverja útfærslu á fjölskyldutráma listhneigðrar fjölskyldu. Svo er auðvitað frægasta lag Stríðshundanna spilað undir eftirminnilegustu senu myndarinnar. Myndin treystir þó um of á hristar myndavélar og sérviskulega heimssýn, hún nær aldrei alveg að fanga mann almennilega – en eftirminnilegasta persónan er þó alltaf hinn barnungi Elías sem ekkert segir en horfir bara, barnið í bakgrunninum að skrásetja brjálæði foreldranna.

Glatað sakleysi strákastelpunnar

Belgíska myndin Hann bráðnar (Het smelt) hefst í ansi grámóskulegum nútíma. Þar hittum við fyrir Evu, fámála og óframfærna konu um þrítugt. Hún virðist nánast ástfangin af eigin einveru, af eigin harmi. Hún hrekur fólk frá sér, stundum á ósanngjarnan hátt, og maður er ekkert æstur að eyða næstu klukkutímum í félagsskap hennar. En svo spólar myndin tuttugu ár aftur í tímann, til aldamótanna síðustu, og þar kynnumst við allt annarri Evu, lífsglaðri og úrræðagóðri tólf ára strákastelpu, og manni verður hugsað til þess að leikstýran Veerle Baetens var einmitt verðlaunuð fyrir að leika Línu Langsokk í belgískum söngleik, en þetta er fyrsta leikstjórnarverkefni þessarar virtu belgísku leikkonu. Og hún kann greinilega að leiðbeina ungum leikurum, því Rosa Merchant, sem leikur hina ungu Evu, var valin besta leikkonan á kvikmyndahátíðinni á Sundance, enda algjört náttúruafl á hvíta tjaldinu. Og myndin lifnar við þegar við ferðumst til aldamótanna – og eyðir blessunarlega mestum tímanum þar, í æsku þar sem hvolpavitið er að kvikna, þar sem vináttan er brotgjörn og foreldrarnir erfiðir.

Stikla - Hann bráðnar

En það virðist þó óþarfi að hafa áhyggjur af Evu, þetta virkar eins og klár, lífsglöð og ráðagóð stelpa sem muni alltaf spjara sig. Nema það er einhver svakaleg skekkja á milli nútíma-Evu, sem dúkkar reglulega upp, og fortíðar-Evu, og því verður helsta ráðgáta myndarinnar þessi: hvað gerðist eiginlega þarna á milli? Hvernig glataði Eva nútímans lífsgleði og ákveðni hinnar ungu Evu? Við því fáum við svör í mögnuðu lokaatriði – og um leið fáum við svar við gátunni einkennilegu sem er eins og hálfgert leiðarstef myndarinnar. 

Barn fyrir dómi

Þá er komið að franskri sigurmyndinni frá Cannes, Krufning á falli (Anatomie d'une chute). Þetta er í grunninn réttardrama, eiginmaður rithöfundarins Söndru (sem hin magnaða Sandra Hüller úr Toni Erdmann leikur) finnst látinn fyrir utan heimili þeirra í Frönsku ölpunum. Eftir hátt fall, samanber titilinn. Það er Daniel, sonur þeirra, sem finnur föður sinn og í kjölfarið upphefjast mikil réttarhöld yfir móðurinni – en mönnum greinir á hvort þetta hafi verið sjálfsmorð eða hvort honum hafi verið ýtt.

Snobb Frakka fyrir eigin tungu kemur líka skýrt fram í myndinni. Sandra – sem er þýsk og altalandi á þýsku og ensku, en stirð þegar kemur að frönskunni, er nánast neydd til að tala frönsku í réttarhöldunum og ekki er boðið að fyrra bragði upp á túlk – þótt hún bregði fyrir sig enskunni, afsakandi, fyrir erfiðustu spurningarnar.

Bæði voru þau hjónin rithöfundar og því er athyglisvert þegar réttarhöldin snúast nánast upp í mjög barnalega bókmenntafræði af því tagi þar sem nánast samasemmerki er sett á milli höfundar og þeirra persóna sem hann skapar, og öllu þessu smjattar slúðurpressan á. Um leið eru athyglisverð samtöl Söndru og lögfræðingsins Vincents, þar sem hann er í rauninni að koma henni í skilning um hvernig lögfræðin er einfaldlega annað skáldskaparform en skáldsagan.

Merkilegast er þó að réttarhöldin eru ekki lokuð og barnungum syninum er í engu hlíft, en hann er vel að merkja nánast blindur sökum vanrækslu föðurins og þarf að heyra hljóðupptökur af rifrildum foreldranna og lendir í hakkavél afskaplega ófyrirleitins réttarkerfis. En merkilegt nokk vex stráksi við þessa raun og verður eiginleg hetja myndarinnar þegar á líður.

Stikla - Krufning á falli

Við áhorfið minntist maður ósjaldan skáldsögunnar Hordubal eftir Karel Čapek, þar sem fyrri hluti bókar lýsir lífi titilpersónunnar Hordubal og seinni hlutinn rannsókn á láti hans; og mórall sögunnar er einfaldur – þeir komust kannski að sannleikanum um dauða hans en munu ávallt vera órafjarri sannleikanum um líf hans. Það sama á við um þessi réttarhöld, óháð því hvort þau komast að sannleikanum um dauða eiginmannsins, þá er augljóst að allt sem þarna fer fram er skrumskæling á lífi allra sem við sögu koma. 

En um leið eru þau líka réttarhöld yfir hjónabandi, fjölskyldu og tveimur einstaklingum, óháð því hvort glæpur hafi verið framinn – og myndin sjálf réttarhöld yfir slíku kerfi. Kerfi sem getur ekki einu sinni varið saklaus börn.

Leitin að skrímslinu

Og loks að bestu mynd hátíðarinnar í Karlovy Vary, myndar sem fékk handritsverðlaunin í Cannes, Skrímsli (Kaibutsu) eftir Hirokazu Kore-eda. Hann vann gullpálmann á Cannes fyrir Shoplifters, gerði í kjölfarið tvær myndir erlendis sem nutu takmarkaðrar hylli, en er nú aftur kominn á heimavöll í Japan.

Þetta er líklega eina myndin af þessum fjórum sem er beinlínis við hæfi barna, en um leið sú flóknasta. Sem dæmi um það er stærsta spurning myndarinnar, hver sé skrímslið og þar koma margir til greina, en um leið er skrímslið líka heitið á saklausum barnaleik.

Myndin er sögð í þremur hlutum, þar sem sama tímalínan er sögð frá ólíkum sjónarhornum – það ólíkum að þetta er alls ekki endurtekningasamt. Fyrst hittum við fyrir móður sem fréttir að kennari sonar hennar sé að leggja soninn í einelti, svo fáum við kennara sem er ofurseldur valdi kvartgjarnra foreldra og skólamálayfirvalda, sem ólíkt honum eru ekki stödd í kennslustofunni sjálfri, og loks sjáum við tvo unga drengi reyna að verja vináttu sína fyrir ágangi umheimsins, einelti og skilningssljóum foreldrum. 

Á endanum er hugmyndin um skrímsli svo í raun afbyggð, skrímsli er oftast einföldun sem við sækjum í þegar heimurinn verður aðeins of flókinn og grimmur og okkur vantar einfaldan óvin, skrímsli eru oftast bara manneskjur sem eru að berjast við að brotna ekki og skilja ekki alltaf hvert annað almennilega.

Stikla - Skrímsli

En galdurinn er að í meðförum Kore-eda birtist okkur flókinn en um leið litríkur heimur, hann er manneskjulegastur allra leikstjóra án þess þó að verða nokkurn tíma væminn, persónur hans þurfa að ganga í gegnum alvöru eldraunir til að fá sína lausn og það þurfa áhorfendur líka að gera.

Sem speglar um leið allar þessar myndir, ákall þeirra er kannski helst það að við sem samfélög (í fleirtölu, enda myndirnar frá fjórum mismunandi löndum) og við sem einstaklingar (hvort sem er foreldrar, kennarar, ráðamenn eða bara sem borgarar) þurfum að átta okkur á því hve erfið og flókin vandamál bernskunnar eru, hvort sem það tengist skólakerfinu, heimilunum eða öðru. Jafnvel svo flókin og ósýnileg hinum fullorðnu að þau virðast oft óleysanleg. En um leið sjáum við hversu mikilvægt er að leysa þessi mál þegar við sjáum hvernig þau fylgja okkur annars fram á fullorðinsár – og margir munu vafalaust ekki síst sjá eigin bernsku í einhverjum þessara mynda, þannig að við getum reynt að nýta þær bæði til að vinna úr eigin bernskutráma og eins til þess að koma í veg fyrir bernskutrámu næstu kynslóðar.

Kjósa
3
Hvernig finnst þér þessi grein? Skráðu þig inn til að kjósa.

Athugasemdir

Skráðu þig inn til að skrifa athugasemd eða kjósa.
Allar athugasemdir eru ábyrgð á þeirra sem þær skrifa. Heimildin áskilur sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi og óviðeigandi athugasemdir. Hægt er að láta vita af athugasemdum með því að smella á Tilkynna.

Mest lesið

Fékk ekki að segja bless við eiginmann sinn
1
Fréttir

Fékk ekki að segja bless við eig­in­mann sinn

Sara Sig­ur­björg Guð­munds­dótt­ir, eig­in­kona Precious Fel­ix Tani­mola sem var send­ur úr landi til Níg­er­íu í nótt, seg­ist ekki hafa feng­ið að kveðja hann: „Sím­inn var tek­inn af hon­um og ég fékk ekki að segja bless.“ Precious flúði til Ís­lands frá Úkraínu vegna stríðs­ins. Hon­um hafði ári áð­ur ver­ið boð­ið að spila þar fót­bolta með úkraínsku fé­lagsliði.
Katrín eini matvælaráðherra VG sem tekur ekki afstöðu gegn gjafakvótanum í laxeldinu
5
FréttirLaxeldi

Katrín eini mat­væla­ráð­herra VG sem tek­ur ekki af­stöðu gegn gjafa­kvót­an­um í lax­eld­inu

Bæði Bjarkey Gunn­ars­dótt­ir og Svandís Svavars­dótt­ir hafa lýst því yf­ir að þær vilji tíma­binda rekstr­ar­leyf­in í sjókvía­eld­inu. Eini mat­væla­ráð­herra VG á síð­asta og yf­ir­stand­andi kjör­tíma­bili sem ekki hef­ur gert slíkt hið sama er Katrín Jak­obs­dótt­ir for­setafram­bjóð­andi. Hún vann tals­vert að frum­varp­inu, fund­aði með hag­að­il­um um það og lét breyta ein­staka grein­um þess.
Halda Blessing á lífi svo lengi sem hún er í íslenskri lögsögu
6
Fréttir

Halda Bless­ing á lífi svo lengi sem hún er í ís­lenskri lög­sögu

Brott­vís­un þriggja kvenna var mót­mælt í Leifs­stöð í gær­kvöldi. Ein þeirra, Bless­ing, er lífs­hættu­lega veik og þol­andi man­sals. Í lækn­is­vott­orði frá sér­fræð­ingi á Land­spít­al­an­um er skrif­að að það sé lífs­nauð­syn­legt fyr­ir hana að hafa greið­an að­gang að bráða­þjón­ustu sér­hæfðra kvenna­deilda á sjúkra­húsi. „Þannig er ljóst að brott­vís­un mun stefna lífi sjúk­lings­ins í al­var­lega hættu komi hún til fram­kvæmd­ar á nú­ver­andi tíma­marki.“
Domino's-þjóðin Íslendingar
8
Skýring

Dom­ino's-þjóð­in Ís­lend­ing­ar

Guð­fað­ir og stofn­andi Dom­ino´s á Ís­landi, Birg­ir Bielt­vedt, hef­ur enn og aft­ur selt hluta­bréf í fyr­ir­tæk­inu og er út­gerð­ar­kon­an Guð­björg Matth­ías­dótt­ir nú orð­inn stærsti hlut­haf­inn. Birg­ir er rauði þráð­ur­inn í æv­in­týra­legri sögu pitsu­fyr­ir­tæk­is­ins á Ís­landi sem hef­ur kom­ið sér í ein­staka mark­aðs­stöðu á skyndi­bita­mark­að­in­um á Ís­landi.

Mest lesið

Mest lesið í vikunni

Fékk ekki að segja bless við eiginmann sinn
2
Fréttir

Fékk ekki að segja bless við eig­in­mann sinn

Sara Sig­ur­björg Guð­munds­dótt­ir, eig­in­kona Precious Fel­ix Tani­mola sem var send­ur úr landi til Níg­er­íu í nótt, seg­ist ekki hafa feng­ið að kveðja hann: „Sím­inn var tek­inn af hon­um og ég fékk ekki að segja bless.“ Precious flúði til Ís­lands frá Úkraínu vegna stríðs­ins. Hon­um hafði ári áð­ur ver­ið boð­ið að spila þar fót­bolta með úkraínsku fé­lagsliði.
Samsæriskenningar um forsetaframbjóðendur
4
FréttirForsetakosningar 2024

Sam­særis­kenn­ing­ar um for­setafram­bjóð­end­ur

Sam­særis­kenn­ing­ar um fram­bjóð­end­ur til for­seta Ís­lands hafa lát­ið á sér kræla, sér­stak­lega hvað varð­ar tengsl við Al­þjóða­efna­hags­ráð­ið og meint­ar fyr­ir­ætlan­ir þess um heims­yf­ir­ráð. Stjórn­mála­sál­fræð­ing­ur seg­ir kenn­ing­arn­ar ekki eiga við rök að styðj­ast þótt vissu­lega sitji valda­mik­ið fólk í ráð­inu.
Skuldir á hvern íbúa í Garðabæ og Hafnarfirði nálgast tvær milljónir króna
8
Greining

Skuld­ir á hvern íbúa í Garða­bæ og Hafnar­firði nálg­ast tvær millj­ón­ir króna

Mik­ið er skegg­rætt um fjár­hags­stöðu sveit­ar­fé­laga á höf­uð­borg­ar­svæð­inu. Þeg­ar horft er á skulda­stöðu þess hluta rekst­urs þeirra sem er fjár­magn­að­ur með skatt­tekj­um er stað­an skást í Kópa­vogi og Reykja­vík en versn­ar hrað­ast í Garða­bæ og á Seltjarn­ar­nesi, þar sem veltu­fé frá rekstri var nei­kvætt í fyrra. Hafn­ar­fjörð­ur er eina sveit­ar­fé­lag­ið á höf­uð­borg­ar­svæð­inu sem var með veltu­fjár­hlut­fall, sem seg­ir til um getu sveit­ar­fé­lags til að borga skuld­ir sín­ar, um­fram það sem æski­legt er. Heim­ild­in rýndi í árs­reikn­inga sveit­ar­fé­lag­anna.

Mest lesið í mánuðinum

Skólastjórinn hættir eftir áralanga óánægju foreldra
1
Fréttir

Skóla­stjór­inn hætt­ir eft­ir ára­langa óánægju for­eldra

Móð­ir á Kirkju­bæj­arklaustri ætl­ar að flytja með börn­in sín úr bæn­um þar sem hún tel­ur ástand­ið í Kirkju­bæj­ar­skóla óvið­un­andi. Son­ur henn­ar hef­ur lít­ið mætt í skól­ann í á ann­að ár eft­ir at­vik í skól­an­um sem for­eldr­arn­ir kærðu til lög­reglu. Mál­ið var lát­ið nið­ur falla. Skóla­stjór­inn er nú á för­um en sveit­ar­stjór­inn seg­ir það „eng­um ein­um að kenna þeg­ar tveir deila“.
Rúlletta Róberts og vitnisburðir starfsfólks: „Þetta er bara rosalega mikið álag“
2
ÚttektRóbert Wessman, Alvogen og Alvotech

Rúll­etta Ró­berts og vitn­is­burð­ir starfs­fólks: „Þetta er bara rosa­lega mik­ið álag“

Starfs­menn Al­votech lýsa vinnu­álag­inu sem ómann­eskju­legu og hafa leit­að til stétt­ar­fé­laga út af ógreiddri yf­ir­vinnu og fleiri mál­um. Vinnu­að­stæð­urn­ar hafa ver­ið svona út af því að Al­votech hef­ur unn­ið að því að fá mark­aðs­leyfi fyr­ir sam­heita­lyf Humira í Banda­ríkj­un­um. Fyr­ir­tæk­ið hef­ur veðj­að öllu á þetta lyf en sala á því hef­ur dreg­ist sam­an og sam­heita­lyfj­um þess hef­ur alls ekki geng­ið eins vel í Banda­ríkj­un­um og reikn­að var með.
Fékk ekki að segja bless við eiginmann sinn
5
Fréttir

Fékk ekki að segja bless við eig­in­mann sinn

Sara Sig­ur­björg Guð­munds­dótt­ir, eig­in­kona Precious Fel­ix Tani­mola sem var send­ur úr landi til Níg­er­íu í nótt, seg­ist ekki hafa feng­ið að kveðja hann: „Sím­inn var tek­inn af hon­um og ég fékk ekki að segja bless.“ Precious flúði til Ís­lands frá Úkraínu vegna stríðs­ins. Hon­um hafði ári áð­ur ver­ið boð­ið að spila þar fót­bolta með úkraínsku fé­lagsliði.
Ákveðið að saksækja þrjá í Lindsor-málinu rúmum 15 árum síðar
8
Skýring

Ákveð­ið að sak­sækja þrjá í Lindsor-mál­inu rúm­um 15 ár­um síð­ar

Sama dag og Geir H. Haar­de flutti ræðu til þjóð­ar­inn­ar þar sem hann bað guð um að blessa Ís­land veitti Kaupþing af­l­ands­fé­lagi lán sem not­að var til að kaupa verð­lít­il skulda­bréf af starfs­mönn­um og vild­ar­við­skipta­vini bank­ans. Nú, 15 og hálfu ári eft­ir að lán­ið var veitt, stend­ur til að sak­sækja þrjá ein­stak­linga í Lúx­em­borg vegna þess.

Mest lesið í mánuðinum

Nýtt efni

Mest lesið undanfarið ár