Takk fyrir að ferðast „klimatsmart“. Skilaboðin blasa við mér í lestinni á leið inn í Stokkhólm. Við erum nýlent, samkvæmt reiknivél á netinu erum við fjögur búin að losa 1,6 tonn af koltvísýringi út í andrúmsloftið. Sama reiknivél býður mér að kaupa tré á 44 evrur til að kolefnisjafna. Ég ætla að ganga frá því við fyrsta tækifæri.
Börnin eru þreytt eftir ferðalagið. Við kaupum ís í sjoppu við lestarstoppið okkar og setjumst við lítið torg. Börnin una sér vel. Þau dóla sér í rólum og lepja ísinn. Ég hef freistast til að kaupa dísætan kaffidrykk. Á glerumbúðunum er texti sem hvetur neytendur til að lesa sér til um samfélagslega ábyrgð á heimasíðu Starbucks.
Ég held enn á plastinu utan af ís barnanna, óviss um hvort ég eigi að henda því í ruslið eða finna endurvinnslutunnu. Nú rek ég augun í slagorð innan í ís-umbúðunum: True Pleasure for the Future. Þar fyrir neðan er teikning af tré, gróðri og bónda og utan um teikninguna örvar sem eiga að standa fyrir hringrás. Ég get lesið mér til um sjálfbærni-markmið framleiðandans fylgi ég QR-kóðanum á umbúðunum.
Þegar við komum loks á leiðarenda, í fallegt hús rétt utan við miðborgina, þurrkum við ísinn framan úr börnunum og setjum strákinn í hreinan bol. Þótt komið sé fram yfir háttatíma leyfum við krökkunum að leika sér í garðinum. Þvílík paradís. Í skjólinu af lágu eplatré stendur grill. Hér væri notalegt að grilla. Ég finn kolapoka í forstofunni, á honum er grænt merki sem gefur til kynna að pappírinn í umbúðunum komi úr sjálfbærum nytjaskógi. Ég loka augunum. Þótt sólin sé sest er enn yfir tuttugu gráðu hiti.
Dóttir mín kallar til okkar: Sjáið mig! Hún er búin að klifra hátt upp í tré og allt í einu man ég eftir 44 evru skóginum sem ég á sjálfur eftir að gróðursetja og ég hugsa um kolagrill og umbúðir, grænar samgöngur, græna broskalla, græna hringi sem segja okkur að allt sé eins og best verður á kosið og mig grunar að mannkynið sé bara andartaki frá því að uppgötva umhverfisvænstu leiðina til að eyða lífi á jörðinni. Þá allra grænustu.
Athugasemdir