„Fram hafa komið upplýsingar frá opinberum aðilum og í fjölmiðlum, að málefni heimilislausra verði að taka fastari tökum,“ segir í bókun Samfylkingarinnar á síðasta fundi bæjarráðs í Hafnarfirði.
Þar kom fram að Samfylkingin hefði ítrekað lagt fram tillögur í málaflokknum sem byggja á álitsgerði og samantekt sérfræðinga á höfuðborgarsvæðinu en þeim vísað frá af hálfu meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og því borið við að málið sé í vinnslu annars staðar. Þannig hefur meirihlutinn hafnað því að bærinn taki pólitíska forystu í málaflokknum meðal sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, utan Reykjavíkur sem eitt á svæðinu rekur neyðarskýli fyrir heimilislausa með flóknar þjónustuþarfir.
„Á sama tíma fást ekki svör við fyrirspurnum fulltrúa Samfylkingarinnar í Fjölskylduráði, sbr. fundargerð ráðsins frá 27.júní, við sjálfsögðum spurningum um málið, sem lúta að verklagi og vinnubrögðum í málaflokknum. Ekki hefur tekist að fá svör við ákveðnum lykilatriðum. Þessir þöggunartilburðir meirihlutaflokkanna eru til vansa og lítilsvirðing við málaflokkinn, sem er þjónusta við fólk í fjölþættum vanda. Samfylkingin mun fylgja þessu máli eftir og ganga eftir svörum og efndum í málaflokknum,“ segir í bókuninni.
Heimildin greindi frá því 9. júní síðastliðinn að heimilislausum karlmanni með lögheimili í Hafnarfirði var ítrekað vísað frá neyðarskýli í Reykjavík að kröfu Hafnarfjarðarbæjar og svipti hann sig lífi í kjölfarið. Síðan þá hefur verið tekist á um málefni heimilislausra meðal bæjarfulltrúa í Hafnarfirði.
Á fundi bæjarráðs bókaði meirihlutinn efnislega það sama og hefur komið fram áður; að fjallað hefur verið um málefni heimilislausra í fjölskylduráði, að farið var af stað með samstarfsverkefni sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu að frumkvæði Hafnarfjarðarbæjar og að fjölskylduráð hafi falið sviðsstjóra fjölskyldu- og barnamálasviðs að hefja samtal við sviðsstjóra aðildarsveitarfélagana um niðurstöður skýrslu starfshóps um málefni heimilislausra. Þetta samtal sé hafið og verði á dagskrá á fundi Sambands sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðisins í júlí.
Fjölskylduráð er það ráð sem fer með málefni heimilislausra. Á fundi fjölskylduráðs þann 12. júní, þremur dögum eftir að fréttir birtust af andláti mannsins, óskaði ráðið eftir að lagðar væru fram verklagsreglur um aðengi að neyðarskýlunum. Hugmyndin var að við að sjá verklagsreglurnar gætu fulltrúar ráðsins frekar áttað sig á því hvernig það gat gerst að heimilislausum manni var vísað frá neyðarskýlinu að kröfu Hafnarfjarðarbæjar. Ekkert nýtt var hins vegar að finna í minnisblaði sem lagt var fram vegna málefna heimilislausra á næsta fundi fjölskylduráðs sem var haldinn 27. júní sem gat varpað ljósi á það.
Fulltrúar Samfylkingarinnar í fjölskylduráði lögðu þá fram eftirfarandi fyrirspurn:
1. Hvenær stendur til að leggja fram þær verklagsreglur, sem fjölskylduráð óskaði eftir að yrðu lagðar fram á fundi sínum þann 12. júní?
2. Hefur verið stuðst við það vinnulag að óska eftir því að starfsfólk gistiskýlanna upplýsi Hafnarfjarðarbæ um það ef einstaklingur leitar til þeirra þrjá daga í röð frá því samningur við Reykjavíkurborg um aðgengi einstaklinga með lögheimili í Hafnarfirði að gistiskýlum var undirritaður í júní 2017?
a. Eru önnur sveitarfélög, sem eru með samninga við Reykjavíkurborg um aðgengi að gistiskýlum, með sömu vinnureglu?
b. Stendur til að endurskoða þessa vinnureglu Hafnarfjarðarbæjar?
3. Af hvaða ástæðum hafnar Hafnarfjarðarbær einstaklingum um gistingu í gistiskýlum á vegum Reykjavíkurborgar? Hvaða aðstæður þurfa að vera fyrir hendi svo Hafnarfjarðarbær neiti einstaklingi um húsaskjól í gistiskýlum á vegum Reykjavíkurborgar?
4. Í minnisblaði sem lagt er fram undir málinu í dag segir að engum einstaklingi hafi verið vísað frá gistiskýlum á vegum Reykjavíkurborgar án þess að önnur úrræði hafi staðið þeim til boða.
a. Hvaða önnur úrræði standa einstaklingum með lögheimili í Hafnarfirði til boða þegar þeim er hafnað um gistingu í gistiskýlum á vegum Reykjavíkurborgar?
Athugasemdir