Þó fimm þúsund ára aldursmunur skilji á milli mynda þeir sólúr sömu stærðar út frá tiltekinni miðju í Somerset á Englandi og á Rangárvöllum á Íslandi. Í Somerset var stikað til sólseturs og sólrisu á árstíðaskiptum á Gaelí- sku sólúri, en á Íslandi líkt og víða annars staðar í Evrópu var stikað til sólseturs og sólrisu á sólstöðum. Því merkja þessir staðir sömu hugmynd á sjónhring: Glastonbury/Bergþórshvoll; -Avebury/Stöng; -Stonehenge/ Goðasteinn; og Bristol/Skálholt.
Um alla Evrópu mynda afstöður elstu mannvirkja, sögustaða, og áberandi svipir í landslagi 216.000 feta sólúr eða heimsmynd. Upphafleg miðja þeirra var sennilega mótstaður ættbálka, þingstaður og/eða grafreitir. Vegalengdir þaðan að endimörkum heimsmyndar í allar áttir var 108.000 fet, eða um 33 km. Ástæður fyrir þessari ákveðnu vegalengd eru óljósar, en ljóst er að frá upphafi sögu var mikil helgi á sólstöðu-áttum, við 108.000 feta endimörk þeirra eru jafnan mikil mannvirki (bækur PH, 2022).
Stefna tekin frá Suðureyjum eða Írlandi norðvestur til sólseturs á sumarsólstöðu í júní og júlí með góðum byr í segl, lá Ísland fyrir stafni að lokinni um 6 daga siglingu. Má því ætla að fyrir heiðna menn hafi verið tiltölulega auðvelt að sigla til Íslands frá Suðureyjum og Írlandi samkvæmt sólúri.
Ari fróði sagði að Ísland varð albyggt frá Noregi á sex tigum vetra, frá 870 til 930 er Alþingi var sett á Þingvöllum. Ekki er talið að byggð hafi verið á Íslandi fyrir þann tíma, utan írskra einsetumanna, sem hingað til hefur ekki verið talin búseta í eiginlegum skilningi. Fyrstu kynslóðir landnema kynntust rittækni „nógu snemma til að skrá niður munnlegar sögur frumbyggjana” (Pr. Gísli Sigurðsson 2013) um hvernig best væri að taka landið til ábúðar í samræmi við lög og guði.
Hvað er merkilegt við menningararf Íslendinga?
Enn geta þeir lesið 800 ára gamla texta og ekki verða þeir sakaðir um að hafa lagt hendur í skaut. Í liðlega öld hafa rannsóknir eflst, risið hafa sérhæfðar stofnanir, afköstin eru gríðarleg og ótaldar ritgerðir og bækur hafa verið skrifaðar um landnámið.
Um miðja síðustu öld skrifaði enskur sagnfræðingur W.P. Ker: „Öll saga Íslands er eitt kraftaverk. Hópur siðlausra manna yfirgefur Noreg vegna þess að stjórnvöld þar voru orðin siðuð og íhlutunarsöm; þeir setjast að á Íslandi því þeir vilja halda því sem haldið verður af ósiðbættri fortíð sinni, hinu forna frjálsræði. Það má búast við hreinu stjórnleysi. En þegar í stað taka þeir að gera sér þjóðfélagslegan sáttmála og smíða sér lög á greindarlegan hátt: Nýlendufulltrúi var sendur aftur til föðurlandsins til að semja skýrslu. Þessir menn hefðu getað sokkið í tómt strit og fáfræði í baráttunni við erfiða náttúru nýs fósturlands, þeir hefðu getað orðið drumbar án sögu, án ljóðs. En íslensku landnemarnir höfðu á brott með sér vitið úr Noregi, þeir rituðu sögu konunganna og ævintýri goðanna. Landnám Íslands lýtur út eins og ofsafengin útrás reiðra höfðingja, burt frá reglu yfir í skuggalegt, vægðarlaust land hins villta vesturs. En sannleikurinn er sá að þessir uppreisnarmenn og þjóðveldi þeirra voru betur agaðir, gerðu sér betur grein fyrir markmiðum sínum og voru gagnrýnni á afrek sín en nokkurt annað samfélag síðan Aþenu leið.” W.P. Ker, 1958 (E.P 1979).
Þróun rannsókna Einars Pálssonar kalla á tilgátu. Því svo virðist sem landnám hafi farið fram með formlegum hætti í margar aldir fyrir landnám á Íslandi. Samræmi er í afmörkuðu landi um elstu minjar í landmælingu, tölvísi, sólargangi um alla Evrópu með einungis um 3% fráviki þegar mest lætur. Afmarkað landnám í heiðnum sið er líkt og afmörkuð hönnun kirkjubygginga, þær voru byggðar með formlegum hætti yfir helgihald rómönsku kirkjunnar, þá var byggt yfir kirkjuskip, kór og helgasta reit hússins, altarið. Inngangur sneri í vestur og altari í austur, kirkjugestir snúa að altarinu á meðan á helgihaldi stendur. Vesturáttin táknar sólsetur, myrkur og dauða en austur áttin sólarupprás, ljós og upprisu.
Heimsmynd í heiðnum sið var einnig reist samkvæmt höfuðáttum og fjórum sólstöðuáttum, sólsetri og sólarupprás. Á megin hnitum hennar voru iðulega reistar kirkjur. Trúskiptin fækkaði guðum í einn og son hans og helgihald var fært inn í kirkjur. Sjóndeildarhringur heimsmyndar var klukka sem var skilin eftir utandyra, fæðing Krists frelsaði mannkyn frá oki tímans.
Bændur hafa hagað tilveru sinni eftir sólargangi frá upphafi akuryrkju. Í ljósi þess að heimsmyndir víða um heim voru stikaðar 360 stadiums að þvermáli (sjá neðst) sem samsvaraði 216.000 fetum, með miðju svæði sem var 36.000 fet að þvermáli, er freistandi að halda fram tilgátu um að landnám hafi farið fram samkvæmt sið sem forn menning þekkti.
Sólúr landnema stikað sem tiltekið margfeldi af vé miðju
Ályktanir fá stuðning í fornum textum:
Í fornu grísku kvæði um mælingu á stærð veraldar segir: „Stærð veraldar er ákveðið margfeldi tenings” (Eratosthenes Reference library; Oxford reference). Í lagabálkum Aðalsteins konungs sem ríkti yfir Englandi á landnámsöld segir að heilagt vé konungs skuli stikað frá miðju: 3 mílur, 3 furlongs, 9 ekrur, 9 fet, 9 lófa og 9 byggkorn, sem jafngilda um 18.000 feta geisla með 36.000 feta þvermáli, sem aftur jafngildir þvermáli sjóndeildarhrings sex feta manns á sléttu yfirborði jarðar. Sama landmæling: 36.000 x 36.000 feta ferningaður hringur, um 11 x 11 km hefur fundist sem miðja heimsmyndar Ketils hængs, og í öllum heimsmyndum Evrópu (bækur PH, 2022). Af þessu má ætla að landnám hafi farið fram með reglubundnum hætti í þúsundir ára fyrir landnám Íslands. Samkvæmt rannsóknum sem fjallað er um hér var heimsmynd landnema á Íslandi 6 x vé konungs; 36.000 x 6 = 216.000 fet sem jafngilda 360 stadiums (sjá neðar). Með stöðugri notkun kynslóða og munnlegri geymd urðu hnit ólúrsins heilagir staðir og híbýli goða – sögustaðir á sjóndeildarhring.
Í Vínlandspúnktum sínum ‘69 sagði skáldið einnig að „íslensk fornfræði hljóta að verða Íslendingum mýstík á mismunandi háu stigi meðan þeir rekja fræði sín innan í lokuðu kafseli eða geimfari sem snýst í hringi fyrir utan heiminn og verði aðeins mystísk að þau séu stunduð án tengsla við evrópsk miðaldafræði sem þau eru ekki aðeins órjúfanlega bundin, heldur ósundurskillega samkolka og ekki of djúpt í árinni tekið þó sagt sé að ekkert verði skilið en alt misskilið í íslenzkum fræðum fornum ef það er ekki skoðað í tengslum við miðaldir Evrópu. Á þetta ekki aðeins við um bókmenntir vorar, heldur einnig sögu.” H.K.L., 69.
Hvað er svona merkilegt við stærð veraldar?
Það er ekki vitað hvenær í sögunni talan 360 varð tala stærðar veraldar, eða fjöldi gráða ummáls jarðar. Árþúsundið fyrir okkar tímatal jukust siglingar um Kyrrahaf og Miðjarðarhaf og siglingafræði efldist. Í hafnarborgum jukust menntir og margir reyndu að reikna út stærð veraldar.
Þekking og minjar mynda óslitna slóð hugmynda frá hámenningu Austurlanda nær norðvestur til sólseturs á sumarsólstöðu, skáhallt yfir Evrópu og alla leið þangað sem slóðin endar í Thule þar sem sól sest ekki. Vandinn er sá að við einfaldlega trúum ekki að forn menning hafi búið yfir slíkri reiknikunnáttu. Munnleg geymd flytur ekki bókfest sannindi. Við leiðum saman ártöl og berum saman hugmyndir.
Ekki er ósennilegt að Grikkinn Pýþeas frá Marseille hafi siglt um Norður Atlantshaf á 4. öld f.Kr., og hugsanlega fundið Ísland sem hann nefndi Thule. Liðlega öld skildi að Grikkjana Pýþeas og bókavörð bókasafns Alexandríu, Erastothenes (276 f.Kr. - 194 f.Kr.) sem reiknaði út ummál jarðar með furðu mikilli nákvæmni á 3. öld f.Kr. Megin stef hans í landmælingum eru kunnugleg: Gráðuhalli sólargeisla í tveim borgum á sama tíma; vegalengdin á milli þeirra; mælieiningin 600 feta stadion; fet; og talan 360: 360 600 feta stadium Erasto- thenesar jafngilda 216,000 fetum.
Höfundur er myndlistarmaður. Tilvitnanir eru úr bókum Einars Pálssonar og Péturs Halldórssonar. Þar má lesa um þessar fornu hugmyndir.
Athugasemdir (2)