Fyrsti fundur starfshóps um kynjajafnrétti innan knattspyrnuhreyfingarinnar fór fram 14. júní síðastliðinn. Stjórn Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna hafði óskað eftir að slíkur starfshópur yrði stofnaður. Hópurinn var skipaður af KSÍ, í virku samtali við forsætisráðuneytið, sem tilnefnir fulltrúa í hópinn.
Anna Þorsteinsdóttir, forseti Hagsmunasamtaka knattspyrnukvenna, segir vinnu hópsins fara hægt af stað en á fyrsta fundi voru línurnar lagðar. „Umræðan fór út í það hvernig starfshópurinn mun skila árangri, þannig að þetta verði ekki enn einn starfshópurinn sem skilar ekki árangri,“ segir hún í samtali við Heimildina.
Auk Önnu skipa eftirtaldir fulltrúar hópinn:
-
Tinna Hrund Hlynsdóttir, formaður
-
Halldór Breiðfjörð Jóhannsson
-
Haukur Hinriksson
-
Klara Bjartmarz
-
Fulltrúi Sambands íslenskra sveitarfélaga
-
Fulltrúi frá forsætisráðuneytinu
-
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks Toppfótbolta
„Ég bind alveg vonir við þetta. Það sem er kannski öðruvísi við þennan starfshóp er að við fáum ráðuneytið inn og Samband íslenskra sveitarfélaga. Við erum að fá tengingu meira við hið opinbera sem ég held að sé mjög mikilvægt því starfshópar innan KSÍ eru oft bara innan hreyfingarinnar og þetta er aðeins stærra en það. Ég er vongóð um að þetta muni skila árangri en til að vera alveg heiðarleg þá þarf að passa það.“

Glöggt er gests augað
Anna lítur á veru sína í starfshópnum fyrst og fremst til að gæta hagsmuna knattspyrnukvenna. „Við þurfum að ganga lengra.“ Að hennar mati á starfshópurinn að setja saman stífa aðgerðaáætlun sem mun skila raunverulegum árangri. „Aðgerðaáætlun í þrepum en ekki greiningu á jafnréttinu,“ segir Anna.
Í vinnu sinni mun starfshópurinn hafa til hliðsjónar skýrslu starfshóps KSÍ, Heildarendurskoðun á knattspyrnu kvenna, og eftirfylgni þeirra aðgerða sem ekki hafa komið til framkvæmda. Það liggur fyrir hvað þarf að gera, næsta skref er að framkvæma, segir Anna.
Sjálf vill Anna gjarnan fá gesti á næstu fundi starfshópsins sem eru sérfræðingar í jafnréttismálum en eru óháðir knattspyrnuhreyfingunni. „Glöggt er gests augað,“ segir Anna.
Breytingar sem þurfa að koma fram eru breytingar á menningu og viðhorfi innan knattspyrnuhreyfingarinnar að mati Önnu. „Fólk þarf að horfast í augu við sín eigin viðhorf sem getur verið erfitt.“
Þá þarf að skerpa á því hver ber í raun og veru ábyrgð á jafnrétti innan íþróttahreyfingarinnar. „Það eru allir að reyna en það vantar skýrari sýn á það hvernig þetta er gert, það er frekar vísað á aðra,“ segir Anna. Hún vonar að það breytist með þátttöku Sambands íslenskra sveitarfélaga í starfshópnum sem muni í kjölfarið taka virkari þátt í mótun jafnréttisstefnu innan knattspyrnuhreyfingarinnar. Sem dæmi nefnir hún að gera megi frekari kröfur til styrkþega sveitarfélaganna þegar kemur að kynjajafnrétti. „Erum við bara blindandi að gefa styrki án þess að gerðar séu kröfur?“
Íslenskur Toppfótbolti tekur þátt í vinnunni
Birgir Jóhannsson, framkvæmdastjóri Íslensks Toppfótbolta, hagsmunasamtaka knattspyrnufélaga í efstu deildum, á sæti í starfshópnum. Samtökin voru harðlega gagnrýnd fyrir ójafnrétti og kynjahalla í aðdraganda Íslandsmótsins í sumar. Gagnrýnin sneri ekki síst að auglýsingu fyrir Bestu deild kvenna og karla. Auglýsingin er 1 mínúta og 49 sekúndur að lengd en konur sjást aðeins í 20 sekúndur. Hún endurspeglar þann veruleika sem íslenskar fótboltakonur mæta trekk í trekk þar sem karlarnir eru í aðalhlutverki en þær í aukahlutverki. Heimildin ræddi við fótboltakonur í Bestu deildinni í kjölfarið og sögðu þær umgjörðina í kringum kvennafótbolta of veika og kynjahlutfallið í nýrri auglýsingu Bestu deildar lélegt.
Anna segir að umræðan í upphafi Íslandsmótsins hafi haft sýnileg áhrif, kannski ekki mikil, en einhver. „Það sem hefur kannski helst breyst er að það eru fleiri að tjá sig opinberlega og við erum að fá fleiri ábendingar. Það setur pressu á alla að standa sig.“
Kerfisbreytingin sem þarf að verða hefur hins vegar ekki enn átt sér stað.
„Ekki á þessu sumri en við munum nota veturinn til að reyna að koma í veg fyrir að sömu mistök verði gerð aftur. Baráttan er ekki búin. En það eru fleiri meðvitaðir og fleiri sem þora að segja eitthvað,“ segir Anna.
Næsti fundur starfshópsins er áætlaður í ágúst en ekki liggur fyrir hvenær hann mun skila niðurstöðu. Anna hefur trú á framhaldinu. „En ég veit að það er margt sem þarf að gera svo við náum endanlegum, viðvarandi árangri.“
Athugasemdir