Sáttin sem Íslandsbanki undirgengst við Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands verður birt á mánudag. Ekki er enn búið að skrifa undir hana og hefur stjórn bankans fram á morgun til að gera það. Hluti af sáttinni er birting á upplýsingum um hver nákvæmlega brot Íslandsbanka voru. Það verður gert á mánudag, samkvæmt upplýsingum Heimildarinnar.
Fulltrúar Seðlabankans hafa ekki viljað tjá sig um málið; hvorki þegar það var til rannsóknar né núna, þegar ljóst er að málinu er við það að ljúka. „Þegar bankinn hefur afhent Seðlabankanum undirritaða sátt þá verður hún birt eins venja er. Í sáttinni koma fram málsatvik og niðurstaða málsins,“ sagði í skriflegu svari Seðlabankans til Heimildarinnar nú í morgun.
Í tilkynningu Íslandsbanka um sektina í gær segir að bankinn hafi í raun sjálfur verið, í meginatriðum, búinn að komast að sömu niðurstöðu og Seðlabankinn um hvaða brot hefðu verið framin. Bankinn gjaldfærði þó aðeins 300 milljónir vegna yfirvofandi sektar, sem endurspeglar að einhverju leyti mat bankans á hversu alvarlega brotin væru litin. Sektin er því 860 milljónum krónum hærri en stjórnendur bankans gerðu ráð fyrir.
Það er þó langt frá þeirri hámarkssekt sem fjármálaeftirliti Seðlabankans er heimilt að leggja á Íslandsbanka. Sektarfjárhæðir mega nema allt að tíu prósent af heildarveltu samkvæmt síðasta samþykkta ársreikningi. Í tilfelli Íslandsbanka eru það hátt í sex milljarðar króna.
Athugasemdir (1)