Viðmiðunarverð á bensíni í júní er það sama og það var í maí, eða 307,9 krónur á lítrann, samkvæmt upplýsingum úr nýrri bensínvakt Heimildarinnar, en upplýsingarnar voru teknar saman um miðjan mánuðinn.
Líklegt innkaupaverð á bensíni, sem tekur einkum mið af stöðu heimsmarkaðsverðs olíu og gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal, hækkar ögn á milli mánaða og fer upp í 96,87 krónur.
Hlutur olíufélaga af hverjum seldum bensínlítra lækkar ögn á móti, niður í 55,13 krónur á lítrann, sem samsvarar 17,9 prósentum af verði bensínlítrans. Inni í þeirri tölu er bæði kostnaður olíufélaga við flutninga og tryggingar og sú álagning sem lögð er á bensínlítrann af hálfu olíufélaganna.
Ríkið tekur til sín 155,89 krónur af hverjum seldum lítra af bensíni í virðisaukaskatt, almennt bensíngjald, sérstakt bensíngjald og kolefnisgjald. Það fara því rúm 50,6 prósent af því sem neytendinn greiðir
Lítrinn síðast undir 300 krónum að jafnaði í apríl 2022
Viðmiðunarverðið á bensíni hefur verið yfir 300 krónum á hvern lítra allt frá því í maí í fyrra. Hæst fór það í júní og júlí á síðasta ári, en þá var bensínverðið um og yfir 340 krónur á hvern lítra. Það hefur farið hægt lækkandi undanfarna mánuði.
Á meðan dýrtíðin við dælurnar var sem mest síðasta sumar lækkaði hlutur olíufélaganna af hverjum seldum bensínlítra töluvert, eða niður í allt að 10,2 prósent í maí í fyrra. Það sem af er þessu ári hefur hlutur olíufélaganna hins vegar oftast verið hátt í eða yfir 20 prósent, samkvæmt bensínvakt Heimildarinnar.
Allt að 33,3 króna munur á bensínlítranum
Nokkru getur munað um það hvar bensín er keypt. Samkvæmt upplýsingum af vefnum bensinverd.is er allt að 33,3 króna munur á almennu útsöluverði á einum lítra á bensíni í dag, en vert er að taka fram að Costco, sem býður meðlimum sínum upp á ódýrasta bensínið, er ekki með í þeim samanburði.
Þar sem bensínið er ódýrast hjá olíufélögunum á höfuðborgarsvæðinu kostar það 283,6 krónur á líter en þar sem það er dýrast er verðið á einum lítra 316,9 krónur. Minni verðmunur er á díseldropanum. Á höfuðborgarsvæðinu kostar ódýrasti líterinn 287,6 krónur en sá dýrasti 311,2 krónur.
Athugasemdir