Heimildin spurði lífeyrissjóðina sem eru meðal 20 stærstu hluthafa Vátryggingafélags Íslands hvernig þeir höfðu kosið um kaupin á Fossum á hluthafafundi tryggingafélagsins. Af þeim sem svöruðu voru sex sem sögðust hafa greitt atkvæði með kaupum VÍS á Fossum. Þetta eru Frjálsi lífeyrissjóðurinn, Lífeyrissjóður verslunarmanna, Stapi, Birta, Brú og Lífeyrissjóður starfsmanna Reykjavíkurborgar.
Þrír sögðust hafa greitt atkvæði á móti kaupunum, Gildi, Lífsverk og Almenni lífeyrissjóðurinn.
Stærsti hluthafinn meðal lífeyrissjóða, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, svaraði ekki spurningum blaðsins.
Of háttt verð og skortur á upplýsingum
Fyrir hluthafafundinn lá fyrir að lífeyrissjóðurinn Gildi myndi að óbreyttu ekki styðja tillöguna um kaupin á Fossum. Þetta kom fram í máli Davíðs Rúdólfssonar, forstöðumanns eignastýringar Gildis, fyrir hluthafafundinnn. Davíð staðfestir að Gildi hafi greitt atkvæði gegn tillögunni. Sjóðurinn taldi að verðmatið á Fossum, um 4,2 milljarðar króna, væri of hátt.
Lífsverk sagði líka nei. Forstöðumaður eignastýringar sjóðsins, Guðrún Inga Ingólfsdóttir, segir sjóðurinn hafi talið verðmatið á félaginu of hátt og framtíðaráætlanir hefðu mátt vera skýrari: „Lífsverk lífeyrissjóður greiddi atkvæði gegn kaupum Vátryggingafélags Íslands hf. (VÍS) á Fossum fjárfestingabanka hf. (Fossar). Það er mat lífeyrissjóðsins að verðið sem VÍS greiddi fyrir Fossa væri of hátt. Upplýsingagjöf til hluthafa VÍS hefði mátt vera meiri og framkvæmd framtíðaráætlunar skýrari.“
Gunnar Baldvinsson, framkvæmdastjóri Almenna lífeyrissjóðsins, greiddi líka atkvæði gegn kaupunum vegna þess að upplýsingagjöf um viðskiptin hafi ekki verið nægilega góð. „Almenni lífeyrissjóðurinn greiddi atkvæði gegn tillögu um kaup á Fossum. Það var mat okkar að sjóðurinn hafi ekki fengið nægar upplýsingar um forsendur við verðmat Fossa.“
Rökstuðningur stærstu sjóðanna sem svöruðu og sögðu já
Frjálsi lífeyrissjóðurinn, sem er þriðji stærsti hluthafi VÍS meðal lífeyrissjóða, greiddi atkvæði með tillögunni. Þetta kemur fram í svörum Arnaldar Loftssonar, framkvæmdastjóra sjóðsins, í svörum til Heimildarinnar. „Frjálsi lífeyrissjóðurinn kaus með tillögum stjórnar VÍS á hluthafafundi félagsins 14. júní 2023.“ Sjóðurinn á 8,96 prósent í VÍS.
Í svari við spurningunni af hverju Frjálsi kaus með tillögunni segir Arnaldur: „Sjóðurinn styður vegferð stjórnar VÍS og telur mikilvægt að félagið grípi þau tækifæri sem bjóðast á markaði.“
„Sjóðurinn hefur trú á að stjórn sameinaðs félags ásamt öflugu stjórnendateymi geti náð þeim markmiðum sem hafa verið sett til framtíðar.“
Arnaldur segir enn frekar að Frjálsi telji að sú lausn að VÍS kaupi fjárfestingarbanka, í staðinn fyrir að félagið stofni slíkan banka sjálft, sé betri kostur. „Sjóðurinn telur að með því að sameina öfluga innviði félaganna og miðað við sterka stöðu VÍS og öfluga tengingu Fossa við fjármálamarkaði, verði til félag sem getur skilað auknu virði til hluthafa horft til framtíðaráætlana sameinaðs félags. Þessi leið sé ákjósanlegur kostur í samanburði við stofnun nýs fjárfestingarbanka frá grunni m.t.t. kostnaðar, tíma og áhættu. Sjóðurinn hefur trú á að stjórn sameinaðs félags ásamt öflugu stjórnendateymi geti náð þeim markmiðum sem hafa verið sett til framtíðar.“
Lífeyrissjóður verslunarmanna, sem á 6,70 prósent í VÍS sagði sömuleiðis já. „Lífeyrissjóður verzlunarmanna greiddi atkvæði með tillögunni,“ segir Arne Vagn Olsen, forstöðumaður eignastýringar sjóðsins í svari sínu.
Arne segir að það hafi verið mat stjórnenda að kaupin á Fossum muni hafa jákvæð áhrif á eignarhlut lífeyrissjóðsins til lengri tíma litið. „Það var niðurstaða Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, að undangenginni ítarlegri rýni, að sameining félaganna væri líkleg til að auka virði VÍS og þar með hafa jákvæð áhrif á eignarhlut sjóðsins í félaginu til lengri tíma litið.“
„Það er mat sjóðsins að miðað við fyrirliggjandi forsendur eru kaupin arðbær fjárfestingakostur.“
Stapi, Birta og Brú sögðu allir já
Lífeyrissjóðirnir Stapi, Birta og Brú greiddu allir atkvæði með kaupunum. Þessir sjóðir eiga allir minni hlut en 5 prósent í VÍS.
Í svari Jóhanns Steinars Jóhannssonar, framkvæmdastjóra Stapa, segir að sjóðurinn hafi trú á viðskiptunum og að þau auki virði VÍS. „Stapi samþykkti tillögu stjórnar VÍS um hækkun hlutafjár til efnda á greiðslu kaupsamnings um hlutafé í Fossum á hluthafafundi í gær. Það er mat sjóðsins að miðað við fyrirliggjandi forsendur eru kaupin arðbær fjárfestingakostur óháð samlegðarmöguleikum og tækifærum sem felast í tímasetningu þess að útvíkka starfsemi félagsins með starfsleyfi fjárfestingabanka á þessum tíma. Samlegð af samrekstri félaganna til framtíðar og nýting tækifæra á markaði ætti að skila hluthöfum aukinni arðsemi af eignarhlut sínum í VÍS, sbr. kynningu stjórnar um hækkun langtímaarðsemismarkmiðs úr 1,5 kr. á hlut í 2,5 kr. á hlut.“
Birta greiddi líka atkvæði með tillögunni segir Ólafur Sigurðsson framkvæmdastjóri þess sjóðs. „Birta greiddi atkvæði með þeim tillögum sem lagðar voru fram í gær [miðvikudaginn 14. júní]. Samkvæmt eigendastefnu Birtu fellur eignarhlutur sjóðsins í VÍS ekki undir meiriháttar hagsmunagæslu eins og hún er skilgreind í 4. mgr. 1. gr. gildandi eigendastefnu. Hluturinn er um 0,2% af eignum Birtu og 3,7% af hlutafé VÍS. Þegar hagsmunir Birtu teljast vera minniháttar, tekur afstaða okkar mið af því að sjóðurinn getur auðveldlega komið sér út úr aðstæðum telji stjórn og starfsfólk það þjóna hagsmunum Birtu best. Við ákvörðun á fundinum var einnig horft til þess að Birta hefur áður samþykkt sambærilega breytingu á tilgangi tryggingafélags á markaði þegar breytingar voru gerðar á tilgangi og starfsemi TM í byrjun árs 2020.“
Loks segir Gerður Guðjónsdóttir, framkvæmdastjóri Brúar, lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga að sjóðurinn hafi trúa á að viðskiptin skili sjóðnum auknu virði. Þess vega sagði hann já við tillögunni. „Á síðasta aðalfundi VÍS kaus sjóðurinn sitjandi stjórn en hlutverk stjórnarinnar er að tryggja að félagið sé rekið á heilbrigðan og eðlilegan hátt með hagsmuni hagaðila að leiðarljósi en jafnframt sér stjórnin um þá stefnumótun sem nauðsynleg er til að ná settum markmiðum. Það er trú okkar að við kaup VÍS á Fossum skapist tækifæri sem skila sjóðnum sem hluthafa auknu virði.“
Brú greiddi einnig atkvæði með kaupunum fyrir hönd Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar.
Athugasemdir (1)