Tilvera lífs á jörðinni er einstætt í veröldinni og hefur þrátt fyrir þróaðar rannsóknir á himingeimnum ekki fundist annars staðar og ekki er vitað með vissu hvernig það varð til. Til þess að geta þrifist hér á jörðinni þurfa lífverur bæði á efni og orku að halda, og orkan kemur frá sólinni. Lífverur jarðarinnar urðu til fyrir mörgum miljónum ára og greindust í fjölmargar tegundir, mismunandi þróaðar. Mannkynið varð þar fremst í flokki, en heili mannsins þróaðist gegn um milljónir ára og tók maðurinn sér nafnið „hinn viti borni maður“ (homo sapiens). Ótti mannsins við náttúruhamfarir hafði mikil áhrif á líf hans og hegðun, en orsakir þeirra kenndi hann almættinu og við þeim taldi hann engum vörnum við komið. Margar náttúruhamfarir tengjast lofthjúpnum og veðurfarinu og ekki var talinn möguleiki að breyta því.
Það er ekki fyrr en á síðari árum að komið hefur í ljós, að maðurinn hefur áhrif á hitastig jarðar með gjörðum sínum. Það eru vissar gastegundir, svonefndar gróðurhúsalofttegundir, (aðallega koltvísýrlingur (CO2) og metan (CH4)), sem koma í veg fyrir endurkast sólarljóss frá jörðinni út í geiminn og valda með því hækkun hitastigs á yfirborði hennar (hlýnun jarðar).
Þessi hlýnun getur haft í för með sér stórfelldar náttúruhamfarir, sem talið er að geti tortímt öllu lífi á jörðinni. Á áttunda áratug tuttugustu aldarinnar var staðfest að hækkandi hitastig á yfirborði Jarðar væri af völdum ört vaxandi magns af koldíoxíði í lofthjúp hennar.
Hagsmunaaðilar, svo sem olíu-, gas- og kolaframleiðendur og stóriðjufyrirtæki í heiminum voru talin valda mikilli losun gróðurhúsalofttegunda út í andrúmsloftið og bera ábyrgð á afleiðingum þess. Viðkomandi hagsmunaaðilar, ekki síst alþjóðleg olíufélög, héldu allt fram yfir aldamót 2000 uppi harðri baráttu gegn niðurstöðum vísindamanna með kröfu um afgerandi vísindalega sönnun um hættuna af gróðurhúsalofttegundunum.
Sú sönnun er nú talin fengin og rætt er um skaðabætur af hendi fyrrnefndra hagsmunaaðila. Einnig snýst umræðan um hvernig megi snúa þróun hækkandi hitastigs við. Markmiðið er að árið 2050 hafi hitinn ekki hækkað meira en um 2,0°C frá því sem hann var fyrir iðnbyltingu og helst ekki um meira en 1,5°C. Kveðið er á um þetta í Parísarsamkomulaginu frá árinu 2015, sem nær öll ríki heims hafa staðfest.
Unnið er að mörgum og margvíslegum áætlunum um hvernig þessu markmiði verði náð. Helst er litið til tveggja aðalsviða, þ.e. aðlögunar og forvarna. Margar aðgerðir eru þekktar og þegar hafnar, aðrar eru enn í þróun. Erfiðasti hluti til lausnar loftslagsvandanum er hvernig og hver skuli framkvæma og fjármagna það sem gera þarf. Þar reynir á aðalvandamálið í eðli mannsins, sem sennilega stuðlaði að þróun og framgangi hans í upphafi, en það er eigingirnin. Mannkynssagan, með öllum sínum upplýsingum um stirt samlíf einstaklinga og þjóða með hatrömmum og mannfrekum styrjöldum virðist ekki gefa góðar vonir um farsæla lausn. Helst virðist þó að óttinn við hið óþekkta sé helsta vonin.
Tilmæli IEA um að flýta orkuskiptum
Árið 2020 komu tilmæli frá Alþjóðaorkumálastofnuninni IEA ( International Energy Agency ) til þjóða heims um að nýta það sérstaka ástand sem myndast í orkuframleiðslu, iðnaði, samgöngum og atvinnulífinu í heiminum á tímum Covid-19 heimsfaraldursins, til þess að flýta framkvæmd orkuskipta, sem þá voru komin alvarlega til umræðu.
Af því tilefni ritaði ég grein sem birtist í Kjarnanum 2.júní það sama ár, sem ég nefndi „Hlutverk vetnis í orku- og loftslagsmálum framtíðarinnar“. Ég reyndi þar að gera málefninu nokkur skil eins og það stóð á þeim tíma. Þar kom fram að aðalástæða þess að skipta þyrfti um orkugjafa voru þær, að rannsóknir höfðu sýnt fram á að aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu jókst hratt og mikið. Samkvæmt rannsóknunum hækkaði hitastig jarðarinnar í réttu hlutfalli við aukningu koldíoxíðsins, sem vísindamenn töldu að gæti haft mjög skaðleg áhrif á allt líf á jörðinni.
Nú eru liðin þrjú ár og rétt að athuga hvernig þessum málum hefur reitt af í millitíðinni. 2020 lá fyrir að leggja ætti höfuðáherslu á nýtingu vetnis sem geymslu-, flutnings- og dreifingamöguleikar fyrir raforku. Einnig möguleikann á því að nýta vetni sem grænt eldsneyti bæði eitt sér eða í samböndum með endurnýtingu á koldíoxíði (PtL- power to liquid -aðferðin ). Aðilar á öllum þessum sviðum hafa tekið hraustlega við sér og hafið skoðun á þessum möguleikum, sérstaklega hvað varðar loftslagsbreytingarnar.
Loftslagsbreytingar af mannavöldum
Loftslagsbreytingar og hlýnun Jarðar af mannavöldum hefur ekki verið þekkt mjög lengi. Andrúmsloftið og veðráttan voru alveg fram á nítjándu öld talin hrein náttúrufyrirbæri og ef þar fór eitthvað úrskeiðis var það nefnt náttúruhamfarir, svipað og eldgos o.þ.u.l. Það voru þá æðri máttarvöld sem því réðu en ekki maðurinn. enda var mannkynið skapað af æðri máttarvöldum.
Mannkynið – og raunar allar lífverur – hljóta annars að skoðast sem sérstakt fyrirbæri í alheimnum. Og þar var hinn viti borni maður talinn fremstur. Engum datt þó í hug að rekja breytingar á veðurfari til mannlegrar íhlutunar. Veraldarsagan skýrði frá margs konar hitabreytingum sem stóðu oft um margra alda skeið og skýringa á þeim var oftast leitað til annarra hamfara, t.d. eldgosa.
Á Íslandi er vel þekkt hið milda veðurfar landnámstímans þegar landið var skógi klætt milli fjalls og fjöru. Litla ísöldin milli 1300 og 1800 var oftast rakin til mikillar gosvirkni í Evrópu. Það er fyrst þegar fer að líða á 19. öldina, sem vísindamenn fara að hugsa um hvort og þá hvernig mannkynið geti mögulega haft áhrif á veðráttuna.
Loftslagsbreytingar eru langtímabreytingar á loftslagi og veðurfari heimsins. Það tók nærri eina öld rannsókna og upplýsinga til þess að sannfæra meirihluta vísindasamfélagsins um að mannleg hegðun gæti breytt veðurfari jarðarinnar og valdið náttúruhamförum.
Það var fyrst um 1880 að tilraunir bentu til þess að manngert koldíoxíð (CO2) og aðrar gastegundir gætu haft þessi áhrif, en því var þá mætt meira af forvitni en áhyggjum. En frá seinni hluta síðustu aldar hafa aðgerðir af mannavöldum verið miðpunkturinn í umræðum um breytingu loftslagsins, aðallega brennsla á jarðefnaeldsneyti svo sem kolum, olíu og gasi.
Brennsla jarðefnaeldsneytis myndar svonefnd gróðurhúsagös, sem blandast í lofthjúpinn sem umlykur jörðina. Þau hafa þann eiginleika að halda að henni sólarhitanum og hækka þannig hitastigið á henni. Gróðurhúsagösin sem valda loftslagsbreytingum eru aðallega koldíoxíð (CO2) og metan (CH4). Þau koma t.d. frá notkum bensíns við akstur bifreiða eða brennslu kola við húshitun. Nýting lands og skóga hefur einnig myndun koldíoxíðs í för með. Þá er urðun lífræns úrgangs ein aðalorsök myndunar metans. Orkunotkun og -vinnsla, iðnaður, flutningar, mannvirkjagerð, landbúnaður og landnýting eru meginuppspretta útblásturs þessara gastegunda.
Hækkandi hiti er bara byrjunin
Útblástur gróðurhúsalofttegundanna heldur áfram að aukast. Þannig er Jörðin nú um 1,1 °C heitari nú en hún var í lok nítjándu aldar (annar áratugur 21 aldarinnar, 2011-2020, slær svo öll met). Margir telja að loftslagsbreytingar birtist aðallega sem hærra hitastig. Hitastigið er samt aðeins byrjunin á sögunni.
Á jörðinni eru mismunandi svæði og getur breyting á einu svæði hennar haft áhrif á öll hin. Afleiðingar loftslagsbreytinganna eru m.a. aukin veðurhæð, þurrkar og vatnsskortur, skógareldar, bráðnun jökla, fleiri og öflugri hvirfilvindar og fellibyljir og minnkandi, líffræðilegur fjölbreytileiki.
Loftslagsbreytingar geta haft áhrif á heilsu okkar, öryggi, vinnu og getu til að afla fæðu. Sum okkar eru þegar viðkvæmari gagnvart áhrifum loftslagsins en önnur, svo sem fólk sem lifir á smáeyjum eða í þróunarlöndum. Aðstæður svo sem hækkun yfirborðs og vaxandi ágangur sjávar eru farnar að valda því að jafnvel heilu byggðarlögin verða að flytja um set og vaxandi þurrkar hafa víða leitt til hungursneyðar. Gert er ráð fyrir því að svonefndu „loftslagsflóttafólki“ muni fjölga í framtíðinni.
Aðgerðir kosta sitt - en aðgerðaleysið verður enn dýrara
Í mörgum skýrslum Sameinuðu þjóðanna hafa vísindamenn og ráðgjafar stjórnvalda komist að þeirri niðurstöðu að með því að takmarka hækkun á meðalhitastigi jarðar við allt að 1,5°C gæti það hjálpað til að forðast verstu loftslagsáhrifin og viðhalda lífvænlegu loftslagi.
Nýlegar spár benda hins vegar til 2,8°C hitastigshækkunar við lok þessarar aldar ef ekkert verður að gert. Útstreymið sem orsakar loftslagsbreytingar kemur frá öllum heimshornum og hefur áhrif á alla jarðarbúa, en sum lönd losa verulega miklu meira en önnur. Þau lönd sem menga minnst gefa frá sér um 3 prósent af heildarlosuninni en þau 10 lönd sem losa mest bera ábyrgð á um 68 prósentum hennar. Allir verða að taka þátt í aðgerðum gegn loftslagsbreytingunum, en fólk og ríki sem bera mesta ábyrgð á vandamálinu eiga að vera fyrst til að grípa til aðgerða.
Margar lausnir og aðgerðir gegn loftslagsbreytingum geta haft efnahagslegar umbætur í för með sér og aukið velsæld og verndað umhverfið um leið. Ýmsar meginreglur og samningar eru hafðar að leiðarljósi, svo sem sjálfbær þróunarmarkmið, meginreglur Sameinuðu þjóðanna, ráðstefnur um loftslagsbreytingar og Parísarsamningurinn.
Aðgerðum gegn og vegna loftslagsbreytinga má í grófum dráttum skipta í þrjá meginflokka: Minnkun losunar gróðurhúsalofttegunda, aðlögun að loftslagsbreytingum og fjármögnun nauðsynlegra umbóta. Loftslagsaðgerðir krefjast verulegra fjárfestinga bæði opinberra aðila og fyrirtækja. En aðgerðarleysi er og verður miklu kostnaðarsamara. Eitt mikilvægt skref fyrir iðnríkin væri að standa við skuldbindingar sínar og verja 100 milljörðum Bandaríkjadala á ári til að gera þróunarríkjum mögulegt að aðlaga sig yfirstandandi breytingum og færast í átt að grænna hagkerfi.
Saga loftslagsbreytinga af mannavöldum og viðbrögð við þeim
Í byrjun nítjándu aldar kom stærð- og eðlisfræðingurinn Joseph Fourier fram með þá kenningu að orkan frá sólinni næði jafnvægi með því að hún færi aftur til baka sem útgeislun frá yfirborði jarðarinnar. Hluti orkunnar yrði þó eftir í andrúmsloftinu og héldi jörðinni heitri. Hann ímyndaði sér að jörðin væri umvafin lofthjúp, andrúmslofti, sem hagaði sér líkt og gler í gróðurhúsi. Orkan færi í gegn um glerið og hitaði upp gróðurhúsið. Og því meira gróðurhúsaloft sem væri fyrir hendi, því meiri orka safnaðist fyrir í andrúmsloftinu.
Um miðja nítjándu öldina fóru vísindamenn að skoða hvaða efni lofthjúpsins gætu haft áhrif á hlýnun hans. Með einföldum aðferðum á rannsóknarstofu tókst að sýna fram á að rakt loft og loft með háu koldíoxiðhlutfalli tækju best við varma frá sólargeislum.
Á þessum tíma var hlýnun jarðar fjarlæg flestum og jafnvel velkomin. Um 1930 fullyrti breski efnafræðingurinn Guy Stewart Callendar, að kolefnismengun hefði hlýnandi áhrif á andrúmsloftið og kenndi iðnbyltingu Bandaríkjanna og annarra iðnríkja um. Við mælingar og athuganir á loftslagshitastigi síðastliðinna áratuga kom í ljós, að meðaltalið hafði stigið óeðlilega hratt frá upphafi iðnbyltingar á síðari hluta nítjándu aldar, og var þá oft miðað við árið 1880.
Um miðja tuttugustu öld voru flestir vísindamenn svo komnir á þá skoðun að koldíoxíðið í andrúmsloftinu hefði mest áhrif til hlýnunar andrúmsloftsins. Málið vandaðist aftur á móti, þegar hagsmunaaðilar fóru að skoða þetta.
Menn sáu fljótt hverjir það væru, sem losuðu mest af koldíoxíði út í andrúmsloftið. Tenging koldíoxíðmagnsins við hlýnun Jarðar lá nokkuð ljós fyrir, en afleiðingarnar fyrir íbúa jarðarinnar síður. Og losunaraðilarnir voru að sjálfsögðu framleiðendur jarðefnaeldsneytis, þ.e.a.s. olíu, kola og gass, og svo neytendur þessara orkugjafa.
Stærstu neytendurnir voru hinir ýmsu og ólíku geirar iðnaðar. Má þar sérstaklega nefna orkuframleiðslu, samgöngu- og flutningageirann og byggingariðnað. Þessir aðilar fóru að kanna sína stöðu og kröfðust frekari og öruggari upplýsinga og sannana fyrir orsökum þessarar óheillaþróunar. Á mynd 1 má svo sjá hvernig ferill CO2 magns andrúmsloftsins fer að hækka í lok nítjándu aldar og stígur hratt þegar líður á tuttugustu öldina.
Þáttur Bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA í rannsóknum á loftslagsbreytingum
Loftbólur sem varðveist hafa í ís um árþúsunda skeið gera okkur kleift að horfa langt aftur í tímann og sjá hvernig andrúmsloftið og loftslagið var þegar þær mynduðust. Þær segja okkur að hlutur CO2 nú er hærri en hann hefur nokkru sinnum verið s.l. 400.000 ár. Á ísaldarskeiðum var magn CO2 í andrúmsloftinu um 200 hlutar af milljón ( ppm ) og á hlýindaskeiðunum milli þeirra var það um 280 ppm (sjá línuritið mynd 2)
Árið 2013 fór CO2 magnið yfir 400 ppm í fyrsta skipti í sögunni. Núverandi stöðug hækkun CO2 sýnir mjög nána tengingu við brennslu á jarðefnaeldsneyti og má nokkuð gera ráð fyrir að u.þ.b. 60% af losuninni frá henni verði eftir í andrúmsloftinu. Þannig að í dag stöndum við á mörkum nýs jarðfræðitímabils, mjög ólíku því sem forfeður okkar þekktu. Ef brennsla jarðefnaeldsneytis heldur áfram með sama hætti og áður og mannkynið notar upp alla varasjóði náttúrunnar næstu aldir, mun CO2 magnið hækka allt upp í 1,500 ppm. Andrúmsloftið mun þá ekki snúa aftur til þess sem þekkt var fyrir iðnbyltingu okkar tíma fyrr en eftir tugi þúsund ára.
Bandaríska geimferðastofnunin, NASA (National Aeronautics and Space Administration), er leiðandi í rannsóknum á loftslagsbreytingum jarðarinnar. Stofnunin var sett á laggirnar árið 1958. Þar sem henni var aðallega ætlað að þróa tækni til rannsókna á himingeimnum lék hún í byrjun ekki stórt hlutverk á sviði jarðvísinda. Á áttunda áratug 20. aldar var NASA aftur á móti gefin fyrirmæli um að stunda mest rannsóknir í þágu þjóðarinnar. Það innihélt m.a. rannsóknir á orkuafköstum og nýtingu, mengun, minnkun á ósonmagni og loftslagsbreytingum.
Árið 1976 fékk NASA fyrirmæli um að hefja rannsóknir á ósonlagi jarðarinnar og hafði þar með flutt sig í átt að jarðvísindum. Til þess að gera sér betur grein fyrir stöðu Jarðarinnar hvað loftslag varðaði, var athyglinni beint að mælingum og rannsóknum á aðstæðum á þeim tveimur hnöttum í sólkerfi okkar, sem mestu líkindin hafa með jörðu. Voru þetta Venus og Mars.
Í ljós kom að aðstæður voru afar ólíkar á þessum þrem hnöttum, Venus, Mars og jörðu. T.d. var koldíoxíðmagnið í lofthjúpnum á Venus um 150.000 sinnum hærra en á Jörðinni en lítil vatnsgufa og yfirborðshiti hærri en í bráðnu blýi. Vatnsgufan dregur úr áhrifum sólarljóssins og kælir loftið en koldíoxíð eykur hitamyndunina þar sem það kemur í veg fyrir endurkast sólarljóssins út frá jörðinni.
Mars er með loftþrýsting, sem er aðeins 1% af því sem er á Jörðinni og ekkert yfirborðsvatn. Hér stóðu vísindamenn NASA frammi fyrir ósvöruðum spurningum. Hvers vegna voru þessar reikistjörnur svona ólíkar, þó að þær ættu svipaðan uppruna? Hvernig gat yfirborð Mars hafa verið nægilega hlýtt til að vera vott, þó það væri nú frosinn gaddur? Þessar spurningar og margar fleiri eru tengdar loftslaginu, loftslagsefnafræðinni og lífinu á Jörðinni.
Þáttur olíuiðnaðarins í þróun loftslagsmála
Stærstu hagsmunaaðilarnir hvað varðaði orsakir loftslagshlýnunarinnar og framtíðarsýn á þessum árum milli 1970 og 1980 voru stórfyrirtæki í olíuiðnaðinum og þau hófu sínar eigin rannsóknir. Niðurstöðum þeirra rannsókna var haldið leyndum og út alla tuttugustu öldina neitaði olíuiðnaðurinn að viðurkenna að sannað væri að koldíoxíð og iðnframleiðsla væru orsakir hins hraða vaxtar koldíoxíðs og hækkandi hitastigs í andrúmsloftinu.
Í áratugi reyndu ýmsir í olíuiðnaðinum að sannfæra almenning um að orsakasamband milli notkunar jarðefnaeldsneytis og hlýnunar jarðar væri ekki fyrir hendi, þar sem spárit í notkun fyrir jarðarhlýnunina væru of ónákvæm. En vísindamenn utan iðnaðarins sýndu fram á að sérfræðingar hjá ExxonMobil, einu af þessum fyrirtækjum, höfðu sín innanhúss spárit, sem reyndust í samræmi við þau gögn, sem óháðir aðilar frá menntastofnunum og stjórnvöldum höfðu lagt fram. Þar voru þeir í mótsögn við það sem þeir vildu sannfæra almenning um. Árið 2015 fundu rannsóknablaðamenn innanhúss rannsóknarskýrslu Exxon oil , sem sýndi fram á að fyrirtækið hafði vitað allt frá 1977, að jarðefnaeldsneyti fyrirtækisins gæti leitt til hlýnunar Jarðar með „ alvarlegum umhverfisáhrifum fyrir árið 2050“. (sjá mynd 4 ).
Saga loftslagsbreytinga síðari ára
Í byrjun áttunda áratugs tuttugustu aldar varð mikil hækkun á hitastigi Jarðarinnar og margir sérfræðingar hafa bent á að árið 1988 hafi orðið vatnaskil hvað varðar hlýnun jarðar. Það sumar var það heitasta, sem mælt hafði verið. Vísindamenn sem vöruðu við loftslagsbreytingunum fundu nú fyrir meiri áhuga fjölmiðla og almennings.
Ári síðar, 1989, var milliríkjanefnd um loftslagsbreytingar (Intergovernmental Panel on Climate Change, IPCC) stofnað af Sameinuðu þjóðunum (SÞ), til þess að setja fram vísindalega sýn á loftslagsbreytingar og stjórnmálaleg og hagfræðileg áhrif þeirra. Loftslagshlýnunin var metin sem raunveruleg náttúruvá og vísindamenn komu fram með mögulegar afleiðingar hennar. Þar á meðal var aukin hætta á miklum hitabylgjum og aukinni tíðni hvirfilvinda vegna hækkunar á yfirborði sjávar. Aðrar rannsóknir bentu til þess að bráðnun risajökla á pólsvæðunum myndu auka sjávarhæð um 28 - 98 cm fram til ársins 2100, sem gæti nægt til að færa margar borgir á austurstönd Bandaríkjanna á kaf.
Stjórnvöld víða um heim hófu samræður um hvernig mætti draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda, til þess að koma Í veg fyrir verstu mögulegu afleiðingarnar. Árið 1997 var Kyoto samkomulagið undirritað af fulltrúum nær allra ríkja Sameinuðu þjóðanna. Bill Clinton, forseti Bandaríkjanna var þeirra á meðal. Samkomulagið kvað á um að lækka bæri útblástur sex gróðurhúsagastegunda í 41 iðnríki ( þar á meðal öllum 27 aðildarríkjum Evrópusambandsins og EFTA-ríkjunum, Bandaríkjunum, Kanada og Ástralíu) um 5,2% frá því sem hann var árið 1990, á tímabilinu 2008-2012.
Arftaki Clintons, George W. Bush, tilkynnti árið 2001, að Bandaríkin hygðust ekki uppfylla skilyrði Kyoto-samkomulagsins, þar sem það væri „meingallað í grundvallaratriðum“ og hélt því fram að það myndi skaða efnahagslíf Bandaríkjanna. Sama ár sendi IPCC frá sér þriðju skýrsluna um loftslagsbreytingarnar, þar sem fram kom að loftslagshlýnunin, sem ætti sér fáar ef nokkrar hliðstæður, hefði „mjög sennilega skaðleg áhrif til framtíðar“.
Fimm árum síðar kom Al Gore, þáverandi forsetaframbjóðandi Demókrata, inn á hættuna af hlýnun jarðar, bæði í ræðum sínum og í kvikmyndinni „Óþægilegur sannleikur“ (An Inconvenient Truth) og kynningum á henni. Fyrir þá mynd fékk Gore svo friðarverðlaun Nóbels árið 2007, sem hann deildi með milliríkjanefndinni um loftslagsbreytingar, IPCC.
Meðal þeirra sem á þessum tíma létu í ljós efasemdir um hlýnun jarðar og þátt mannsins í henni var þá framtíðar-forseti Bandaríkjanna, Donald Trump. Síðla árs 2012 fullyrti Trump á Twitter-síðu sinni að „Kenningin um hlýnun jarðar [hafi verið] búin til af og fyrir Kínverjana, til þess að gera framleiðsluvörur Bandaríkjanna ósamkeppnishæfar“.
Parísarsamkomulagið
Bandaríkin, með Barack Obama sem forseta, skrifuðu svo undir annan tímamótasamning, Parísarsamkomulagið, árið 2015. Í þeim formlega samningi skuldbundu 197 ríki sig til að setja sér takmörk um minnkun eigin útblásturs á gróðurhúsalofttegundum og skýra svo frá árangri sínum og niðurstöðum.
Meginatriði Parísarsamkomulagsins var yfirlýsing um að koma skyldi í veg fyrir að hlýnunin yrði umfram 2°C frá meðahitastigi fyrir iðnbyltingu. Margir sérfræðingar álíta að tvær gráður séu hættumörkin, þar sem meiri aukning myndi auka áhættuna á hættulegum hitabylgjum, hvirfilstormum og hækkun sjávaryfirborðs svo mjög, að það stefndi framtíð alls mannkyns í hættu.
Kosning Donald Trump til forseta Bandaríkjanna 2016 varð til þess að Bandaríkin drógu sig út úr Parísarsamkomulaginu. Trump vísaði til hinna „þungbæru takmarkana“ í samkomulaginu og lýsti því yfir að hann „gæti ekki með góðri samvisku stutt samkomulag sem refsaði Bandaríkjunum“.
Þetta sama ár sýndu óháðar rannsóknir NASA og NOAA (National Oceanic and Atmospheric Administration; Hafrannsókna- og veðurstofa Bandaríkjanna) að yfirborðshiti jarðarinnar árið 2016 væri sá hæsti síðan mælingar hófust um 1880. Síðan sendi IPCC frá sér skýrslu, sem staðfesti að skjótra og víðtækra aðgerða væri þörf til þess að takmarka hlýnun Jarðar við 1,5 °C og afstýra verstu óafturkallanlegu afleiðingunum fyrir heimsbyggðina.
Joe Biden, núverandi Bandaríkjaforseti, undirritaði svo tilskipun á fyrsta degi forsetatíðar sinnar í janúar 2021, um að Bandaríkin skyldu gerast aðilar að Parísarsamkomulaginu á ný, og var það formlega staðfest 19.febrúar sama ár.
Greta Thunberg og loftslagsverkföll unga fólksins
Í ágúst 2018 hóf sænski táningurinn og loftslagsaðgerðarsinninn Greta Thunberg mótmælastöðu framan við Sænska þinghúsið undir merkinu: „Skólaverkfall fyrir loftslagið“. Þessi mótmæli undu fljótlega upp á sig og ollu á endanum miklu moldviðri um allan heim. Í nóvember þetta sama ár fóru um 17.000 skólabörn og -ungmenni í 24 löndum í loftslagsverkfall og þeim átti enn eftir að fjölga mjög og fóru fram víða um heim, meðal annars undir merkjum skólasamtakanna Fridays for Future.
Hún tók svo þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (United Nations Climate Summit) í New York í ágúst 2019. Í ávarpi sínu hjá Sameinuðu þjóðunum í september 2019 talaði hún til stjórnenda heimsins: „Þið hafið stolið draumum mínum og barndómi mínum með innantómum orðum ykkar … Við erum stödd í byrjun fjöldaútrýmingar og allt, sem þið getið talað um eru peningar og ævintýri !“
Thunberg hefur ávarpað fjölda loftslagsráðstefna og tekið þátt í loftslagsmótmælum víða um heim, en þó aldrei flogið á vettvang, þar sem það gengur gegn sannfæringu hennar. Hún hefur verið orðuð við friðarverðlaun Nóbels og hlotið fjölda viðurkenninga. Þar má nefna titilinn „Náttúruverndarhetja ársins“ í ungmennaflokki árið 2016, Samviskusendiherra Amnesty International (ásamt Fridays for Future), umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs (sem hún afþakkaði), auk þess sem bandaríska tímaritið Time útnefndi hana sem Manneskju ársins 2019.
Síðasta matskýrsla IPCC
Nýjasta matsskýrsla IPCC (nr. 6) á þessu ári kemur inn á stöðu loftslagsmálanna í dag. Þar kemur fram að framkvæmdir manna, og þá aðallega útstreymi gróðurhúsalofttegunda sem þeim fylgir, hafa nú þegar ótvírætt valdið hlýnun loftslagsins um allt að 1,1°C frá meðalhitastigi fyrir iðnbyltingu. Þetta má ráða af samanburði á meðalhita áranna 1850 -1900 annars vegar og meðalhitanum 2011-2020 hins vegar. Og rannsóknum á aukningu útblásturs á öllu tímabilinu að auki.
Heildarmagn á útblæstri gróðurhúsalofttegunda hefur nefnilega ótvírætt haldið áfram að aukast með sögulegri og viðvarandi ósjálfbærri orkunotkun, ósjálfbærri nýtingu lands og breytinga á því, sívaxandi neyslu og framleiðslu og flutningum á þeirri framleiðslu og fólki landa og heimsálfa á milli.
Yfirborðshiti jarðar var 1,09 °C hærri 2011-2020 en 1850-1906. Yfirborðshitinn hefur hækkað hraðar frá 1970 heldur en á sérhverju 50 ára tímabili síðustu 2000 árin. Víðfeðm og hröð breyting hefur orðið í andrúmsloftinu, höfunum, íssvæðunum og lífhvolfinu ( e: atmosphere, ocean, cryosphere and biosphere ). Það er klárt að loftslagsbreytingar af mannavöldum hafa þegar haft áhrif á öfgar í veðri og loftslagi í öllum heimshlutum. Því er hröð og víðfeðm umbreyting á öllum sviðum og kerfum nauðsynleg til að ná jafnmikilli lækkun á hitastigi og tryggja lífvænlega og sjálfbæra framtíð fyrir alla.
Aðgengilegar, afkastamiklar og ódýrar leiðir til forvarna og aðlögunar eru þegar fyrir hendi, mismunandi þó eftir ólíkum kerfum og svæðum. Til að takmarka hlýnun af mannavöldum þarf að ná CO2-útblæstri niður í núll, “núll nettó-útstreymi” ( net zero CO2 emission ). Magn uppsafnaðs kolefnis þar til núll-útstreymi er náð og hraði minnkunar á losun gróðurhúsalofttegunda á þessum áratug mun að mestu ráða því hvort hægt verður að takmarka hlýnunina við 1,5°C eða 2°C.
Orkukerfið „núllCO2“ kallar á eftifarandi: Verulega minnkun á notkun jarðefnaeldsneytis, mikla og skilvirka kolefnisföngun og -geymslu ( carbon capture and storage, CCS ) og og kolefnishlutlausa raforkuframleiðslu.
Stórt framlag til minnkunar á útstreymi og kostnaði minni en US$ 20 á tonn CO2 – jafngildi er vonast til að fáist frá sólar- eða vind- raforku, bættri afkastagetu og lækkun metan útblásturs. Stóraukin og skilvirkari nýting vind- og sólarorku til rafmagnsframleiðslu er lykilatriði ef minnka á losun gróðurhúsalofttegunda, og einnig er brýnt að minnka losun metans eins og kostur er.
Til eru ýmsir vænlegir möguleikar til aðlögunar að yfirvofandi hlýnun og afleiðinga hennar, meðal annars með því að auka þanþol innviða. Þar má nefna áreiðanleg(ri) orkuver og leiðir til að auka afköst og skilvirkni jafnt nýrra vatnsorkuvera sem þeirra sem þegar standa.
Aukin fjölbreytni í sjálfbærri orkuframleiðslu ( sólar-, vind- og í minna mæli vatnsorka ) og bætt stjórnun eftirspurnar (orkugeymsla, verðstýring, aukin orkuafköst o.fl. ) geta aukið orkuöryggi og minnkað þannig veikleika gagnvart afleiðingum loftslagsbreytinga.
Styðja þarf og fjármagna þróunarverkefni sem stuðlað geta að framgangi, útbreiðslu og nýtingu nýrrar, skilvirkrar og umfram allt umhverfisvænnar tækni sem vinnur gegn loftslagsbreytingum og/eða gagnast við aðlögun að þeim.
Framkvæmd loftslagsaðgerða er á valdi stjórnvalda á hverjum stað, í gegn um vel útfærða stjórn og stjórnsýslu, lög og reglur, utanumhald stofnana og greitt aðgengi að nauðsynlegu fjármagni og tækni.
Öflug fjármögnun, fyrsta flokks tækni og skilvirk og samhæfð alþjóðasamvinna á öllum sviðum – vísindarannsókna, stefnumótunar og markmiðasetningar, fjármögnunar o.s.frv. – eru grundvallarforsendur þess að hægt sé að grípa grípa til skjótra aðgerða gegn loftslagsbreytingum.
Ef ná skal settum, alþjóðlegum markmiðum í loftslagsmálum verða fjárveitingar til hvorutveggja aðlögunaraðgerða og forvarna að aukast margfalt. Það er vissulega fyrir hendi nægjanlegt fjármagn til að loka fjármögnunargötunum á heimsvísu – vandamálið er hins vegar að fá það fjármagn. Það vandamál þarf að leysa.
Höfundur er fyrrverandi tæknilegur framkvæmdastjóri Sementsverksmiðju ríkisins.
Athugasemdir (1)