Embætti ríkislögreglustjóra mun kaupa 120 rafbyssur fyrir 54 milljónir króna samkvæmt áætluðu kostnaðarmati sem liggur fyrir um viðskiptin. Um er að ræða fyrstu kaup á rafbyssum fyrir lögregluna hér á landi og gætu viðskiptin svo orðið meiri í kjölfarið. Þetta kemur fram í svörum frá starfandi forstjóra Ríkiskaupa, Söru Lind Guðbergsdóttur, við spurningum Heimildarinnar um kaup íslenska ríkisins á rafbyssunum. „Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef er áætlað kostnaðarmat 54 milljónir króna án vsk og áætlað magn í fyrstu kaupum 120 eintök,“ segir í svari hennar í tölvupósti.
Ríkiskaup gerðu markaðskönnun á Evrópska efnahagssvæðinu meðal áhugasamra söluaðila á rafbyssum. Niðurstaðan úr þeirri könnun var að einungis eitt fyrirtæki hefði áhuga á að selja löggunni þessi vopn. Þetta er íslenska fyrirtækið Landstjarnan ehf., sem er með umboð fyrir Axon-rafbyssur sem og aðrar vörur frá fyrirtækinu.
Athugasemdir