Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir Alþingi ekki getað farið inn í sumarið án þess að bregðast við því neyðarástandi sem ríkir í efnahagsmálum.
„Það er allt í rugli, það vissum við,“ sagði Sigmundur Davíð í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag. Sagði hann ástandið í efnahagsmálum og á vinnumarkaði algjörlega óviðunandi. „Er ekki rétt að nota þann skamma tíma sem eftir er af þessu þingi til að einbeita sér að þeim málum, að efnahagsástandinu, að vinnumarkaðnum, að verðbólgunni, að stöðunni á húsnæðismarkaði. Þarf ekki að nota allan þennan tíma til einbeita sér að því að koma hér á einhverjum lausnum því við getum ekki farið inn í sumarið til að bregðast við þessu ástandi?“
Fyrirspurninni beindi hann að Katrínu Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanni Vinstri grænna. „Ég myndi telja aðkallandi að þingið einbeitti sér að þessu og ráðherrarnir líka þó að þeir þurfi þá kannski að halda einhverja næturfundi sem er fullt tilefni til. Þeir geta pantað pizzur eða svið eða hvað annað á kostnað skattgreiðenda og enginn mun kvarta yfir því, ef að lausnirnar koma. En lausnirnar þurfa að koma núna. Við getum ekki farið inn í sumarið í þessu fullkomna óvissuástandi. Og við getum ekki látið þessa fáu daga sem eftir eru af þinginu líða án þess að brugðist sé við þessu neyðarástandi á öllum þessum sviðum,“ sagði Sigmundur. „Nú þurfum við alvöru hugmyndir og aðgerðir sem við getum afgreitt.“
„Við erum að gera það sem þarf“
Katrín sagði Sigmund Davíð líta framhjá því sem hefur verið gert, verið sé að gera eða standi til að gera. „Við erum að vinna samkvæmt fjárlögum ársins í ár sem samkvæmt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum styðja við verðbólgumarkmið, styðja við aðgerðir Seðlabankans. Við erum að vinna að því hvernig við getum aukið enn aðhald á komandi árum út frá ábendingum sama aðila þannig að við erum að gera það sem þarf. “
Forsætisráðherra sagði það óþarfi að panta pitsur á kostnað skattgreiðenda. „Þess þarf ekki. Við erum einfaldlega að gera það sem þarf til að styðja við það verkefni Seðlabankans sem er að ná niður verðbólgunni.“ Þá sagðist hún ekki ætla að fara „í þann leik sem hefur verið ansi mikið leikinn að undanförnu að benda á einstaka sökudólga vegna ástandsins“.

„Staðreyndin er sú að hér á Íslandi eru gríðarlega mikil efnahagsumsvif. Hér er lítið atvinnuleysi. Hér er mikill hagvöxtur, spáð meiri hagvexti en áður var spáð og við sjáum verðbólguna birtast þannig. Það er ekki sama staða hér og víða í nágrannalöndum okkar þar sem við sjáum vaxandi atvinnuleysi, samdrátt og háa verðbólgu,“ sagði Katrín. Staðan til að takast á við efnahagsástandið er í raun og veru góð að mati forsætisráðherra, sem benti á nýjustu verðbólgumælingu því til stuðnings. Verðbólga mælist nú 9,5 prósent en var komin yfir tíu prósent í febrúar. „Án þess að hrósa einhverju happi, ég held að það sé ekki tímabært en ég hef trú á því að verðbólgan fari niður og þetta sé skýrt merki um það,“ sagði forsætisráðherra.
Eins og forsætisráðherra annars lands
Sigmundur Davíð sagði Katrínu tala eins og hún væri forsætisráðherra einhvers allt annars lands. „Er engin von til þess að þessi ríkisstjórn átti sig á ástandinu og taki þátt í því að ná tökum á því? Ég er ekki einu sinni að biðja hana um að leiða það, bara að taka þátt og hætta að vera í einhverjum ímynduðum veruleika,“ sagði Sigmundur Davíð.
„Ég er forsætisráðherra í landi þar sem hefur verið byggt upp; þar sem hefur verið byggt upp í heilbrigðiskerfinu og ráðist í fjárfestingar í því sem ekki var ráðist í í tíð fyrri ríkisstjórna,“ svaraði Katrín.
„Hins vegar höfum við sagt að mögulega þurfi að beita meira aðhaldi á komandi árum til þess að ráða bug á verðbólgunni. Að halda því fram að ég geri lítið úr þeim vanda er auðvitað alrangt. Þetta er risastórt verkefni sem kallar auðvitað á samstillt átak allra, ekki bara ríkisstjórnarinnar þótt vissulega hafi hún hlutverki að gegna,“ bætti forsætisráðherra við.
Athugasemdir (1)