Landsréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjaness yfir karlmanni á fertugsaldri sem er til rannsóknar hjá lögreglu vegna gruns um að hafa veitt eiginkonu sinni lífshættulega áverka. Maðurinn mun sæta gæsluvarðhaldi til 15. júní. Málið er með alvarlegri heimilisofbeldismálum sem lögreglan á Suðurnesjum hefur komið að.
Í lok febrúar barst lögreglu tilkynning um heimilisofbeldi. Sá sem hafði samband var umræddur karlmaður sem sagðist „hafa verið að slást við konu sína sem hefði síðan hlaupið nakin út“.
Lögregla fann konuna skömmu síðar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. „Í samtali við lögreglu bar brotaþoli um ítrekað, endurtekið og ætlað stórfellt ofbeldi af hálfu varnaraðila í sinn garð, bæði andlegu, líkamlegu og kynferðislegu, sem hafi staðið yfir í nokkur ár. Þá kvað hún varnaraðila m.a. hafa beitt sig bæði andlegu líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi liðna nótt og þann 16. febrúar sl.“
„lífshættulegir og gátu eingöngu komið til við kynferðisofbeldi ásamt alvarlegri líkamsárás“
Í kjölfar skoðunar á spítalanum var hún flutt á Landspítalann í Reykjavík til að framkvæma aðgerð á henni vegna alvarlegra innvortis verkja. Samkvæmt sérfræðingum sem framkvæmdu bráðaaðgerð á konunni voru áverkar hennar „lífshættulegir og gátu eingöngu komið til við kynferðisofbeldi ásamt alvarlegri líkamsárás“.
Þann 19. maí gaf héraðssaksóknari út ákæru á hendur manninum þar sem honum er gefið að sök nauðgun, stórfelld líkamsárás og stórfellt brot í nánu sambandi gagnvart eiginkonu sinni með því að hafa á tímabilinu júlí 2019 til febrúar 2023 „á sérstaklega sársaukafullan, meiðandi og alvarlegan hátt ógnað lífi hennar, heilsu og velferð með andlegu, líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi, hótunum og nauðung.“
Maðurinn neitar sök og segist vera fórnarlamb í málinu.
Athugasemdir