Hugmyndin um djúpleik (e. deep play) snýst um að það sem lagt er að veði í leiknum er svo stórt og mikið að enginn með réttu ráði vill taka þátt í honum. Hægt er að ímynda sé rússneska rúllettu með skammbyssu þar sem tveir aðilar hafa lagt peninga undir. Annaðhvort vinnurðu fullt af pening eða þú deyrð.
Enski heimspekingurinn Jeremy Bentham (1748–1832) setti hugmyndina um djúpleikinn fram í neðanmálsgrein í bók árið 1871.
Bentham tók dæmi af manni sem á 1.000 pund og leggur 500 undir í veðmáli við annan mann. Ef maðurinn tapar minnkar auðlegð hans um helming en ef hann vinnur eykst hún bara um þriðjung. Ef veðmálið er upp á 1.000 pund þá stendur maðurinn frammi fyrir því að tapa öllu sem hann á eða verða tvöfalt ríkari. Hamingja mannsins mun minnka stórkostlega ef hann tapar en hún mun ekki tvöfaldast ef hann vinnur.
Djúpleikurinn er því einfaldlega ekki áhættunnar eða ómaksins virði, samkvæmt Bentham.
„Að búa til merkingu í lífinu er helsta markmið og skilyrði mannlegrar tilveru.“
Fyrir rúmum 50 árum notaði mannfræðingurinn Clifford Geertz þessa hugmynd Benthams til að fjalla um hanaat á Balí. Geertz sagði einfaldlega að þó að greining Benthams væri rökrétt þá tæki fólk sannarlega þátt í slíkum leikjum. Hann vildi reyna að svara af hverju.
Á Balí þjálfa eigendur hananna þá upp í að vera góðir í að berjast við aðra hana og verða fuglarnir að eins konar táknum fyrir eigendur sína. Hanarnir búa á heimilum eigendanna og eru aldir á góðu fæði sem á að gera þá sterka. Svo veðja eigendur hananna og áhorfendur peningum á það hvaða hani vinnur í einstaka ötum. Beittir sporar eru festir á fætur hananna, rautt chili er sett upp í endaþarm þeirra til að gera þá æsta og svo hjakkast þeir hvor á öðrum þar til annar þeirra drepst.
Stóra peningalega veðmálið er alltaf á milli eigenda hananna tveggja á meðan áhorfendurnir veðja lægri upphæðum sín á milli. Stærsta veðmálið snýst hins vegar um virðingarstöðu eigenda hananna sem berjast.
Hanaatið var bannað á Balí en fólk ákvað samt að brjóta lögin til að stunda það. Að mati Geertz öðlaðist hanaatið þá djúpu merkingu sem það hefur í samfélaginu vegna þess táknræna mikilvægis sem það hefur í menningunni og lífinu á eynni. Þannig sé einfaldlega ekki bara hægt að vega þennan leik og meta út frá hlutlægum og rökréttum mælikvörðum eins og þeim sem Jeremy Bentham taldi vera undir þegar hann sagði að þátttaka í slíkum leik væri órökrétt. Geertz segir í greininni: „Að búa til merkingu í lífinu er helsta markmið og skilyrði mannlegrar tilveru.“
Hanatið er djúpleikur, samkvæmt Geertz, af því að það snýst ekki bara um krónur og aura eins og grunnleikir (e. shallow games) gera. Þess vegna er ekki hægt að notast bara við skilning Jeremy Benthams til að reyna að skilja slíka leiki: ,,Í djúpleikjum, þar sem miklir peningar eru í húfi, er miklu meira að veði en efnahagsleg gæði: Nefnilega, sæmd, heiður, reisn, virðing. Í einu orði sagt, þó það sé mjög hlaðið orð á Balí: Samfélagsstaða.“
Hægt er að líta á hvalveiðar Kristjáns Loftssonar út frá þessum hugmyndum um djúpleikinn. Einhver gæti sagt að djúpleikur Kristjáns við hvalina sé bæði órökréttur og óæskilegur og þar af leiðandi óskiljanlegur. Jeremy Bentham hefði örugglega sagt Kristjáni að hætta þessu bara.
Fyrirtækið sem Kristján stýrir tapar peningum á hvalveiðunum – 3 milljörðum á áratug; Ísland er gagnrýnt harkalega í alþjóðasamfélaginu fyrir að leyfa hvalveiðar; dýraverndunarsinnar benda á að veiðarnar séu ómannúðlegar þar sem dauðastríð hvalanna er svo langt og að lífið sé murkað úr þeim hægt; íslensk ferðaþjónustufyrirtæki eru að reyna að byggja upp hvalaskoðun sem atvinnugrein á sama tíma og hvalir eru drepnir og svo framvegis. Þegar hvalveiðunum er stillt upp með þessum hætti virðast þær vera órökréttar og óskynsamlegar. Rökin sem mæla gegn hvalveiðum eru meðal annars efnahagsleg, stjórnmálaleg, dýraverndunarleg og ferðamannaleg.
Ef þessi leið er farin virðist það sem Kristján Loftsson er að gera vera í einu orði sagt galið. En Kristján getur gert það sem hann gerir vegna þess að hann og Birna systir hans eiga meirihluta í fyrirtækinu sem ákveður hvort það veiðir hvali. Birna vill líka veiða hvali. Fyrirtæki þeirra getur því veitt hvali með þeirra vilja svo lengi sem íslensk stjórnvöld leyfa þeim að gera það – Hvalur hf. hefur leyfi til að veiða langreyðar út sumarið.
Líklegra er hins vegar að hægt sé að byrja að skilja hvað Kristjáni gengur til með því að horfa á hvalveiðarnar með augum Clifford Geertz. Kristján er að vinna á öðru sviði en því rökrétta og skynsamlega. Til að skilja hvalveiðar Kristjáns er nærtækara að leita skýringa í mannfræðinni en hagfræðinni.
Ingibjörg Björnsdóttir, eftirlifandi eiginkona nánasta viðskiptafélaga Kristjáns til áratuga, sagði einu sinni um hann að veiðarnar á langreyðunum væru áhugamál hans: „Hann er fæddur og alinn upp í Hvalnum. Þetta var, og er, hans hjartans áhugamál.“ Eiginmaður Ingibjargar, Árni Vilhjálmsson, hugsaði frekar eins og Jeremy Bentham af því hann taldi að hvalveiðarnar þyrftu að vera arðbærar til að vera réttlætanlegar, sagði hún.
„Þetta er bara eins og sjá má í Alaska þegar þeir koma með hvalinn að landi, þá er allt þorpið mætt á svæðið.“
Rétt eins og hanaatið á Balí er ekki vinna þeirra sem eiga hanana heldur tómstundaiðja og ástríða, þá er hvalaat Kristjáns Loftssonar á Íslandi það líka. Ef hvalveiðar væru eina starf Kristjáns væri hann löngu orðinn gjaldþrota þar sem hann tapar peningum á þeim. Kristján er stóreignamaður sem stundar arðbærar fjárfestingar í fyrirtækjum til að ná sér í peninga sem hann svo tapar á þessu áhugamáli sínu. Hvalveiðarnar eru fyrir Kristján svona eins og frístundamálun var fyrir Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands.
Kristján er því ekki eins og bóndi sem leggur net fyrir laxfiska til að drýgja tekjurnar og eiga betur fyrir daglegum graut sínum. Hann er nær því að vera eins og sportveiðimaður sem borgar hátt verð fyrir að fá að kasta flugu fyrir lax af því hann elskar það, þrátt fyrir að það sé galið út frá fjárhagslegum hagsmunum.
Þegar Kristján fékk loksins að veiða langreyðar aftur árið 2006, eftir 20 ára hvalveiðibann, talaði hann eins og maður sem fagnar nýfengnu frelsi eftir ánauð. „Þetta er stund sem ég hef beðið eftir lengi,“ sagði hann þegar fyrsti hvalurinn kom á land. Og augnablikið var ekki bara stórt fyrir Kristján heldur líka fyrir samfélagið: „Þetta er bara eins og sjá má í Alaska þegar þeir koma með hvalinn að landi, þá er allt þorpið mætt á svæðið. Hér eru það gamlir hvalmenn að skoða, þannig að það er ekkert öðruvísi.“
Eftir að hafa lesið grein Clifford Geetrz um hanaatið á Balí líður mér eins og ég hafi loksins náð að skilja Kristján Loftsson.
Þarna stóð Kristján eins og eigandi sigurvegarans í hanaati og upplifði sæmd og heiður; hann hafði loksins fengið að gera það aftur sem hann elskar og þorpsbúar glöddust með honum. Því eins og Geertz segir um hanaatið á Balí þá „elskar sérhver þjóð sína eigin tegund af ofbeldi“. Rómverjarnir voru með skylmingaþrælana, Spánverjarnir með sitt nautaat og brútalítet Færeyinga og Íslendinga birtist í hvalveiðunum.
Þessar tilfinningar Kristjáns snérust væntanlega ekki á nokkurn hátt um peninga. Hann er fyrst og fremst hvalveiðimaður en ekki fjárfestir. Svona hefur Kristjáni líklega liðið í hvert skipti sem langreyður hefur verið færð til hafnar síðastliðin ár. Eftir sumarið í ár fær Kristján kannski aldrei aftur að upplifa hvernig líf hvalveiðimannsins öðlast þannig merkingu.
Athugasemdir (1)