Snemma vors blómstra kirsuberjatrén í Japan. Eftir þessu er beðið með eftirvæntingu. Sérfræðingar setja fram spár um nákvæmlega hvenær trén verði í blóma, og hve lengi – viku eða tvær. Á meðan beinast augu almennings að laufi þessa fíngerða trés. Fólk safnast saman, fagnar, skemmtir sér. Ferðamenn streyma að. Heimspressan fylgist með.
Um daginn rakst ég á frétt þar sem fram kom að iðnaður tengdur blómatíma kirsuberjatrésins í Japan ylti því sem samsvarar fimm milljörðum Bandaríkjadala.
Ótrúlegt. Því þótt kirsuberjatréð sé eitt af undrum veraldar þá eru þau undur svo óteljandi mörg og merkileg. Fæst þeirra bera þó sama verðmiða og kirsuberjatréð, einfaldlega út af því að við tökum ekki eftir þeim, ólíkt japönsku þjóðinni sem velur að vaka yfir sínum fölbleika vorboða.
„Ég get valið að beina athygli minni að einhverju í nærumhverfi mínu af japanskri eftirvæntingu, nákvæmni, næmi.“
Fimm milljarðar dollara – um leið og ég fór að reikna þessar fjárhæðir yfir í íslenskar krónur áttaði ég mig á að önnur eins verðmæti eru mér innan seilingar. Því ég get valið að beina athygli minni að einhverju í nærumhverfi mínu af japanskri eftirvæntingu, nákvæmni, næmi.
Horfa. Spá. Bíða.
Ég ætla að kalla þessa nálgun milljarða dollara módelið. Það er alveg sáraeinfalt og það virkar. Ég þarf ekki annað en að líta út um eldhúsgluggann til að fá það staðfest:
Nú er vor í Reykjavík. Reynitréð í garðinum er að grænka. Það virtist ekki ætla að gerast, í marga mánuði var tréð líkast sviknu loforði, en svo gerðist það einhvern veginn allt í einu og ég verðlegg það á fimm milljarða dollara.
„Hvað sem hver segir / er fegurðin ekki skraut / heldur kjarni lífsins“ – þannig orti Sigurður Pálsson og ég held að þetta sé satt og mér dettur ekki í hug betri aðferð til að nálgast þennan kjarna en einmitt svona: að veita því sem verður á vegi manns athygli, nálgast það eins og kirsuberjatré, hvort tveggja af eftirvæntingu og þolinmæði, horfa brosandi út um eldhúsgluggann, út á lífið – bíða þess einmitt þannig að veröldin blómstri.
Athugasemdir