Í Bretlandi er mikil umræða um þessar mundir um „Greedflation“, sem útleggst á íslensku sem græðgisbólga, eða hagnaðardrifin verðbólga.
Þar, líkt og víða annars staðar í heiminum, eru heimili landsins að finna mikið, og í síauknum mæli, fyrir neikvæðum áhrifum verðbólgu á lífskjör sín. Matarkarfan hefur hækkað verulega, orkukostnaður rokið upp úr öllu valdi, eldsneytisverð líka og greiðslubyrði íbúðalána í mörgum tilvikum stökkbreyst. Sama er með allt hitt sem þarf til að lifa af hversdagsleikann. Tilveran er einfaldlega miklu dýrari.
Samkvæmt rannsókn sem Unite, eitt stærsta verkalýðsfélags Bretlands, lét gera jókst framlegð, tekjur að frádregnum breytilegum kostnaði, 350 stærstu fyrirtækja landsins úr 5,7 prósent á fyrri hluta ársins 2019 í 10,7 prósent á fyrri hluta ársins 2022. Gagnrýnin snýr að því að fyrirtækin hafi notað það krísuástand sem skapaðist samhliða heimsfaraldri kórónuveiru til að auka þessa framlegð sína gríðarlega með því að hækka verð til neytenda langt umfram það sem þau hefðu komist upp með í eðlilegu árferði. Og skila ávinningnum svo til eigenda sinna með arðgreiðslum eða endurkaupum á hlutabréfum.
Samandregið er verið að velta því fyrir sér hvort verðbólgan sem heimurinn glímir við nú sé ekki einungis vegna hökts sem átti sér stað í aðfangakeðjum, lækkun vaxta á heimsvísu í kórónuveirufaraldrinum, aukins peningamagns í umferð, sparnaðar þegar fólk gat lítið eytt vegna þess að það var fast heima hjá sér, stríðsreksturs Rússa í Úkraínu og ósjálfbærra launahækkana. Verið er að velta því fyrir sér hvort aukin álagning í verði vöru og þjónustu, fákeppni og jafnvel þögult verðsamráð fyrirtækja gætu skipt þar máli. Jafnvel lykilmáli.
Að ástandið sé kannski frekar fyrirtækjunum og græðgi þeirra að kenna en launakröfum og eyðslu starfsmanna sem vinna hjá þeim.
Tölur segja að fyrirtækin hafi gengið á lagið
Sambærileg umræða hefur látið á sér kræla hérlendis, þótt hún sé ekki jafn áberandi. BHM framkvæmdi greiningu á hagnaði íslenskra einkafyrirtækja og birti niðurstöðu hennar í janúar síðastliðnum. Þar kom fram að samanlagður rekstrarhagnaður fyrirtækja á Íslandi jókst um 60 prósent á árunum 2018 til 2022. Á sama tíma hækkaði verðlag um 20 prósent og launavísitalan um 30 prósent, eða um helming af hagnaðaraukningu fyrirtækja. Samkvæmt miðspá BHM var rekstrarhagnaður á einkamarkaði fyrir afskriftir hjá íslenskum fyrirtækjum 839 milljarðar króna árið 2021 og 885 milljarðar króna í fyrra. Það er mesti rekstrarhagnaður sem raungerst hefur á þessari öld.
Til samanburðar var hann á bilinu 515 til 576 milljarðar króna á árunum 2018 til 2020. Sem hlutfall af landsframleiðslu var rekstrarhagnaður fyrirtækja á einkamarkaði 18 til 20 prósent árin 2018 til 2020, en 24 til 26 prósent á árunum 2021 og 2022. Með öðrum orðum bendir allt til þess að fyrirtækin hafi gengið á lagið.
Friðrik Jónsson, formaður BHM, og Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur bandalagsins, fylgdu þessari greiningu eftir með grein sem birtist í Vísbendingu snemma á þessu ári. Þar sögðu þeir meðal annars að niðurstaða þeirra sýni svart á hvítu að mikill ójöfnuður hafi skapast milli launafólks og fyrirtækjaeigenda í mörgum þeim atvinnugreinum sem krefjist sérfræðiþekkingar á Íslandi. „Þessi mikli munur milli hagnaðaraukningar og launahækkana hefur gert að verkum að hlutdeild fyrirtækjaeigenda í verðmætasköpun hagkerfisins jókst töluvert á tímabilinu 2018 til 2021. Enn á eftir að gefa út framleiðsluuppgjör fyrir árið 2022 en líklegt er að hlutur fyrirtækjaeigenda hafi aukist enn frekar á árinu 2022 í helstu atvinnugreinum.“
Ekki okkur að kenna, segja bankarnir
Atvinnulífið neitar því þó harðlega að það sé vandamálið. Hjá stóru bönkunum þremur sér ekki högg á vatni þegar kemur að hagnaði. Þeir græddu samtals um 148,1 milljarð króna á árunum 2021 og 2022. Stærsta tekjulind bankanna eru hreinar vaxtatekjur, sem byggja á muninum á þeim vöxtum sem bankarnir borga fyrir að fá peninga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum fjármuni. Þessi munur kallast vaxtamunur.
Lengi vel sögðu forsvarsmenn bankanna að sértæk skattlagning á borð við bankaskatt hækkaði þennan vaxtamun. Hagsmunaverðir þeirra klifuðu á því að ef bankaskatturinn myndi lækka þá myndi almenningur fá betri kjör á lánum. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall árið 2020 á var ákveðið að lækka umræddan bankaskatt ríflega. Hann var 2,7 prósent að meðaltali það ár. Á fyrsta ársfjórðungi yfirstandandi árs var hann 2,8 til 3,2 prósent. Vaxtamunurinn hefur því aukist, ekki dregist saman, samhliða því að ríkið lækkaði skatta á banka. Þeir hafa sjálfir hirt ágóðann, ekki skilað honum til neytenda. Þetta hefur skilað því að vaxtatekjur stóru bankanna þriggja hafa aukist um tugi prósenta. Í fyrra jukust þær um 25 milljarða króna, eða 24 prósent.
Þegar bankastjóri Arion banka, þess banka sem hefur skilað stærstu fjárhæðunum til hluthafa sinna á undanförnum árum, var spurður að því í sjónvarpsviðtali nýverið hvernig þeir ætluðu að sýna samfélagslega ábyrgð sagðist hann viss um að „samkeppni muni tryggja bestu fáanlegu kjör“.
Íslensku bankarnir eru að öllu leyti varðir fyrir ytri samkeppni með krónunni, ef undan eru skilin lánaviðskipti til stærstu útflutningsfyrirtækja landsins. Þeir keppa einir um hina viðskiptavinina í þessu örmyntahagkerfi. Rétt upp hönd sem finnur fyrir því að á milli þeirra ríki virk samkeppni í þeim kjörum sem þeir bjóða heimilum landsins.
Ekki okkur að kenna, segir smásalan
Á uppgjörskynningu Haga, stærsta smásölufyrirtækis landsins, sem jók framlegð sína um níu prósent á síðasta rekstrarári og sá hagnað sinn fara úr fjórum í tæpa fimm milljarða króna, sagði forstjóri fyrirtækisins að Hagar hefðu ekki annað val en að hækka smásöluverð í ljósi aðstæðna. „Ef við myndum ekki bregðast við yrðum við fljótt komin í þá stöðu að vera á skjön við lög, við megum ekki selja vörur undir kostnaðarverði og verðhækkanirnar eru bara það miklar að framlegðin hefur ekki undan.“
Í nýlegu samtali við Viðskiptablaðið sagði forstjóri hins smásölurisans, Festis, að rekstrarumhverfi smásölu hefði sjaldan verið jafn krefjandi og nú. „Lengi tekur sjórinn við en tilfinningin er nánast sú að horft sé til stórfyrirtækja á dagvöru- og eldsneytismarkaði sem einhvers konar hít sem geti, án þess að hækka verð, tekið á sig allar þær hækkanir sem hafa borist og berast enn, frá birgjum, ríkinu og vegna nýrra kjarasamninga. Ofan á þær bætast síhækkandi vextir sem fyrirtækin og heimilin í landinu fara ekki varhluta af sem og auknar álögur ríkis á borð við eitt prósent skatt á lögaðila sem fram undan er. Maður spyr sig; í hvers konar samlokugrilli erum við lent?“
Festi jók framlegð sína um tæp tíu prósent í fyrra og hagnaðist um rúmlega fjóra milljarða króna. Árið 2021 var hagnaðurinn fimm milljarðar króna, sem var mesti hagnaður í sögu félagsins og tvöfalt hærri en hann var árinu áður.
Ekki okkur að kenna, segja undirstöðuatvinnuvegir
Það er í raun sama hvar er drepið niður. Allt verð þarf að hækka og það er alltaf einhverjum öðrum að kenna en þeim sem hækkar það. Verðlagsnefnd búvara, sem er að meirihluta skipuð fulltrúum landbúnaðarins og að minnihluta skipuð þeim sem eiga að standa vörð um hag neytenda, hefur hækkað verð á mjólkurvörum samtals um 16 prósent á síðasta rúma ári. Mjólkursamsalan, sem ásamt tengdum fyrirtækjum er eiginlega í einokunarstöðu á þessum markaði, er í eigu fyrirbæris sem heitir Auðhumla. Það skilaði samtals tæplega 1,4 milljarða króna hagnaði á árunum 2021 og 2022. Hagnaður Auðhumlu fyrra árið var met í sögu félagsins. Rekstrartekjur þess í fyrra voru rúmum fjórum milljörðum krónum hærri en árið á undan og jukust um tólf prósent milli ára.
Þá er auðvitað ótalinn methagnaður sjávarútvegs, sem jók hagnað sinn árið 2021 um 124 prósent milli ára upp í 65 milljarða króna, en hefur lítinn sem engan áhuga á að deila honum frekar með eigendum auðlindarinnar sem geirinn nýtir. Frá 2009 og út árið 2021 fór enda 71 prósent alls hagnaðar í vasa eigenda útgerðar en 29 prósent í opinber gjöld.
Að græða aðeins meira í dag en í gær
Harmakvein atvinnulífsforkólfa, á ofurlaunum með kauprétti og kaupauka, um hækkandi álögur, hækkandi kostnað vegna aðfanga, hærri fjármagnskostnað og hinn meinta þrúgandi launakostnað vegna venjulegs starfsfólks, heyrast víða.
Sömu aðilar hafa hins vegar litla samúð með launafólki sem hefur séð greiðslubyrði íbúðalána rúmlega tvöfaldast og kaupmátt dragast saman þrjá ársfjórðunga í röð þegar það biður um fleiri krónur á mánuði til að mæta þessari stöðu.
Við stöndum frammi fyrir verðbólgu á breiðum grunni. Hún hefur verið í kringum tíu prósent mánuðum saman og sýnir engin merki þess að hjaðna hratt. Fram undan eru kjaraviðræður við hópa launafólks sem samþykktu launahækkanir til skamms tíma til að sýna ábyrgð. Nú er að opinberast að þær launahækkanir verða langt frá því að halda í við verðbólgu og raunlaun skjólstæðinga þeirra munu því dragast saman.
Í þeim viðræðum munu þessir tveir hópar, atvinnulífið og launafólkið, mætast og gera upp síðustu ár. Fátt bendir til þess að þar verði mikið hlustað á kveinstafi atvinnulífs sem gekk á lagið í krísuástandi, í skjóli fákeppni og einokunar, bara svo það gæti grætt aðeins meira í dag en í gær.
Auðhumla er samvinnufélag meginþorra kúabænda og dótturfélag hennar er Mjólkursamsalan sem annast deifingu mjólkuvara og markaðsstarf. Eins og fram hefur komið setur verðlagsnefnd búvara lágmarksverð á það hráefni sem hún kaupir af bændum og hámarsverð á stærstu vöruflokkanna sem hún framleiðir. Þess er því vandlega gætt að markaðsstaða mjólkuriðnaðarins sé ekki misnotuð til að skapa óeðlilegan hagnað í greininni, enda er afkoma hans rétt í járnum í tímans rás. Hagnaðartölur sveiflast auðvitað eitthvað milli ára en séu þær skoðaðar síðustu sex ár, 2017-2022, kemur í ljós að hagnaður er að meðaltali um 0,7% af veltu sem er rúmlega 30 milljarðar króna. /Guðm. Þorsteinsson