Kristján Loftsson, Ahab skipstjóri okkar Íslendinga, er holdgervingur freka karlsins. Þótt heimsbyggðin hafi fyrir löngu snúið baki við hvalveiðum eru engin teikn á lofti um að Kristján hyggist láta af þráhyggju sinni fremur en Ahab af áráttukenndu tilkalli sínu til Moby Dick. Í nýrri skýrslu Matvælastofnunar er dregin upp svo dökk mynd af blóðugri tómstundaiðju broddborgarans, að aðrar verðlaunaveiðar virðast jafnsakleysislegt áhugamál og keila í samanburði. Ekkert fær þó dregið úr eldmóði Kristjáns Loftssonar.
En getur verið að það sé lítill Kristján Loftsson í okkur öllum?
Dómur sögunnar
Á síðasta ári sektaði dómari við héraðsdóm í Bretlandi tólf umhverfisverndarsinna fyrir að stöðva umferð á hraðbraut í Lundúnum. Í dómsúrskurði sínum lýsti dómarinn óvænt yfir aðdáun á tólfmenningunum. Hann sagði þau „innblástur“ og að málflutningur þeirra hefði sannfært hann um að leggja meira af mörkum til baráttunnar gegn loftslagsbreytingum. En sem dómari væri hann í erfiðri stöðu. Hann ætti ekki annarra kosta völ en að dæma það rangt að lögum sem mörgum þótti siðferðilega rétt.
Það eru þó ekki aðeins dómarar sem fella dóma.
Súffragetturnar, Rósa Parks, Nelson Mandela. Öll voru þau sek í augum laganna. Dómur sögunnar er þó annar. Því glópska fortíðar er engu betri þótt hún hafi verið studd laganna bókstaf.
Senn heyrum við sögunni til. Hver verður dómur framtíðarinnar yfir okkur? Ekki er ólíklegt að tólfmenningarnir sem dómarinn sektaði hljóti uppreist æru í sömu andrá og við hin verðum dæmd siðferðilegir smáglæpamenn fyrir að fylla á bílinn og bóka flug til Tene, fullmeðvituð um skaðann sem gjörðir okkar valda. Þótt erfitt verði að sanna ásetning munu staðreyndir málsins þó blasa við: Freki karlinn í okkur var einfaldlega ekki til í að gefa upp á bátinn þægindi, lúxus og áhugamál fyrir býflugnastofna, astmasjúklinga og áframhaldandi líf á jörðinni. Ekki frekar en forfeður okkar voru til í að gefa upp á bátinn baðmull og sykur í von um að uppræta þrælahald.
En nokkrum sinnum með hverri kynslóð á sér stað viðhorfsbreyting jafnsamstillt og hópdans.
Rúmlega 120 lögfræðingar í Bretlandi hafa skrifað undir yfirlýsingu þess efnis að þeir muni ekki lögsækja loftslagsmótmælendur eða starfa fyrir olíufélög. Og fleiri taka afstöðu með mótmælendum. Innanríkisráðherra Bretlands, Suella Braverman, gagnrýndi nýverið bresku lögregluna fyrir að vera of hliðholl málstað umhverfisverndarsinna. Sagði hún slíkt grafa undan trausti almennings í garð lögreglunnar.
Áhugamál betri borgara
Dansinn dunar. Dómurum, lögfræðingum og lögreglu í Bretlandi er ljóst hvernig sagan mun dæma málstað umhverfisverndarsinna. Það er þvert á móti Suella Braverman sem dansar úr takti er æ fleiri skipa sínum innri freka karli að halda sig á mottunni.
„Hvalveiðar eru ekki einkamál Kristjáns Loftssonar og skósveina hans í ríkisstjórn.“
Hvalveiðar Kristjáns Loftssonar eru löglegar. En þótt þær séu löglegar þýðir það ekki að þær séu praktískar, rökréttar, hagkvæmar eða siðlegar.
Tími er kominn til að freki karlinn leggi skutulinn á hilluna og klæði sig í dansskóna eins og veröldin gerði árið 1986 með alþjóðlegu hvalveiðibanni. Úrval annarra áhugamála stendur til boða betri borgurum eins og Kristjáni: Gönguskíði, fjallaklifur, vínrækt, geimtúrismi.
Hvalveiðar eru ekki einkamál Kristjáns Loftssonar og skósveina hans í ríkisstjórn. Sagan er miskunnarlaus. Það verður ekki aðeins freki karlinn sem dæmdur verður fyrir drápsíþróttina hvalveiðar. Við verðum öll sakborningar.
Athugasemdir (1)