Það er of mikil verðbólga sem stendur. Á því eru nokkrar skýringar. Seðlabankinn dvelur mest við eina, sem er sú að það sé of mikil eftirspurn í samfélaginu (sem þýðir með öðrum orðum að það sé of mikil kaupgeta hjá almenningi). Kjör þorra launafólks séu of góð.
Til að vinna gegn því hækkar bankinn vexti í gríð og erg, langt umfram aðra vestræna seðlabanka. Verðbólgan lækkar þó ekki, sem bendir til að meðalið sé ekki að virka. Önnur meðul þarf til, sem taka betur mið af mikilvægustu orsökum verðbólgunnar. Hverjar eru þær?
Röng kenning – röng viðbrögð
Helsta orsökin er taumlaus ofvöxtur ferðaþjónustunnar sem kallar á mikla fjárfestingu og gríðarlegan innflutning á vinnuafli, sem kyndir undir verðbólgu. Mikil einkaneysla efnaðri hluta þjóðarinnar er einnig mikilvæg orsök þenslunnar. Þá hafa hagfræðingar BHM einnig bent á að fyrirtækin séu að ganga um of á lagið í verðhækkunum umfram kostnaðarhækkanir, til að auka hagnað eigenda fyrirtækjanna. Þetta endurspeglast í methagnaði sem nú er í þorra fyrirtækja landsins (sjá hér).
Til að bregðast við þessari ofþenslu ræðst seðlabankinn sem sagt á kaupmátt almennings með fordæmalausum vaxtahækkunum, sem miða mest að því að draga niður kaupgetu heimila. Þetta telja hagfræðingar bankans að dugi til að vega gegn verðbólgunni og ágirnd fyrirtækjaeigenda eftir meiri hagnaði (það er það sem vísað er til með tali um að „verðbólguvæntingar séu of miklar“).
Verðbólguhvetjandi ofþenslu ferðaþjónustunnar og ofneyslu efnaðri helmings þjóðarinnar er sem sé mætt með því að lækka kaupmátt almennings (einkum þeirra sem eru með húsnæðisskuldir).
En er það almenningur, tekju- og eignaminni helmingur þjóðarinnar, sem er helsta orsök ofþenslunnar, of mikillar eftirspurnar (neyslu og fjárfestinga)? Er það fólkið sem á erfitt með að ná endum saman sem er að eyða of miklu? Það er einmitt tæpur helmingur launafólks sem er í þeirri stöðu að ná endum illa saman, skv. nýrri könnun Vörðu.
Nei, öðru nær. Það er ferðaþjónustan og efnaðri helmingur þjóðarinnar, m.a. eigendur og stjórnendur fyrirtækja, sem eru helstu orsakavaldar ofþenslunnar og innlends verðbólguþrýstings.
En það er ekki verið að taka á þeim. Stór hluti ferðaþjónustunnar býr meira að segja við skattaafslátt (er í lægra þrepi virðisaukaskatts) umfram fyrirtæki í öðrum atvinnugreinum. Ferðaþjónustan er sem sagt með skattahvata til vaxtar, einmitt þegar hún er að vaxta of hratt! Er eitthvert vit í þessu?
Ríkasta fólkið skuldar almennt minna í húsnæði sínu og finnur heldur ekki fyrir vaxtahækkunum vegna rúmrar kaupgetu sinnar. Markaður fyrir lúxusíbúðir blómstrar en skortur er á ódýru húsnæði fyrir tekjulága. Úrræði Seðlabankans bíta því fyrst og fremst á kjörum þeirra sem minna eiga og lægri tekjur hafa – einmitt á þeim sem eru saklausir af ofþenslunni í samfélaginu.
Seðlabankastjóri veit ósköp vel að þetta er svona og hann segir við fjölmiðla að fyrirtækin ættu líka að sýna hófsemd í verðhækkunum. En það er ekki verið að gera neitt til að hemja þá gróðasókn fyrirtækjanna. Kristileg tilmæli um hófsemd hafa lítið vægi þegar gróðasókn þeirra ríku er annars vegar.
Seðlabankinn magnar upp húsnæðisvandann og óréttlætið
Aðrar afleiðingar ofþenslu ferðaþjónustunnar og ríka fólksins eru t.d. gríðarleg aukning á innflutningi vinnuafls. Það hjálpar svo til við að eyðileggja húsnæðismarkaðinn fyrir almenningi, með skorti íbúða og gríðarlegum verðhækkunum. Óhóflegar vaxtahækkanir Seðlabankans draga nú orðið að auki úr framleiðslu nýrra íbúða. Vítahringur á húsnæðismarkaði magnast þar með og staðan mun halda áfram að versna. Það bitnar mest á þeim tekjulægri og yngri kynslóðinni.
Húsnæðisstuðningur stjórnvalda er alltof lítill og beinist ekki sérstaklega að þeim sem búa við mest íþyngjandi húsnæðiskostnað, heldur fer hann hlutfallslega mest til tekjuhærri hópanna í formi skattfrjáls séreignasparnaðar sem nota má til að greiða niður húsnæðisskuldir. Vaxtabótakerfið sem áður gagnaðist mest lægri og milli tekjuhópum hefur verið eyðilagt af stjórnvöldum á síðustu 10 árum (sjá hér og hér). Meira að segja Alþjóðabankinn hefur orð á að styðja þurfi betur við þá sem verst standa í þessum aðstæðum (sjá hér).
Seðlabankastjórinn Ásgeir Jónsson viðurkennir ógöngurnar í húsnæðismálunum í nýlegu blaðaviðtali og kallar þær „þversögn á íbúðamarkaði“ (sjá hér)! En þetta endurspeglar einfaldlega ranga kenningu Seðlabankans um orsakir vandans og þar af leiðandi röng viðbrögð. Seðlabankastjóri sýnir þó engin merki um að breytinga sé að vænta á stefnunni, en hann kennir ríkisstjórninni um aðgerðaleysi.
Bankinn og ríkisstjórnin eru að hengja láglaunafólk og þá eignaminni fyrir þá eignameiri og hærra launuðu – og einnig fyrir eigendur ferðaþjónustufyrirtækja og annarra fyrirtækja sem búa nú við methagnað. Þetta er eins öfugsnúið og óréttlátt og frekast má vera.
Spurningin er hvort Seðlabankinn ætli að genga enn lengra á þessu feigðarflani sínu í næstu vaxtaákvörðun?
Verkalýðshreyfingin þarf að knýja fram lagfæringar strax
Stjórnvöld hafa ekki sýnt nein markverð merki um að tekið verði á þessum vanda eins og þarf (sbr. nýja fjármálaáætlun þeirra til næstu ára). Það á bæði við um aðgerðir til að tryggja nægilegt framboð ódýrs íbúðarhúsnæðis og þá enduruppbyggingu á kerfi húsnæðisstuðnings sem brýn þörf er á.
Atvinnurekendur sem eru ekki beittir neinu afgerandi aðhaldi frá Seðlabanka eða ríkisstjórn kynda undir verðbólgubálinu til að auka hagnað fyrirtækjaeigenda, langt umfram kostnaðartilefni.
Verkalýðshreyfingin verður að draga réttan lærdóm af reynslu síðustu kjarasamninga og þeirri stöðu sem upp er komin. Hreyfingin þarf að sameinast öll á vettvangi ASÍ í kröfugerð á stjórnvöld með meginfókus á verulega aukinn og lagfærðan húsnæðisstuðning og ríflega raunhækkun barnabóta, auk annarra mála.
Næstu kjarasamningar, sem verða á forræði helstu félaga, þurfa að tryggja stærri hlut launafólks af verðmætasköpuninni og hægja á gróðasókn fyrirtækjaeigenda. Hlutur launafólks er nú kominn undir langtíma meðaltal, þrátt fyrir að hagvöxtur sé mjög mikill. Kaupmáttur launafólks mun halda áfram að minnka á næstu mánuðum.
Þá verða næstu samningar að innihalda alvöru verðtryggingar, t.d. líkt og rauðu strikin í þjóðarsáttarsamningnum 1990. Ekki er hægt að veita fyrirtækjunum aftur frítt spil til að taka kaupmáttinn niður strax eftir undirritun samninga, með gróðadrifnum verðhækkunum, eins og gerðist í vetur. Rauð strik eða annað form verðtryggingar launa mun veita fyrirtækjunum mikilvægt aðhald gegn óeðlilegum verðhækkunum og auka stöðugleika í hagkerfinu.
Snúa þarf af þeirri braut að hagstjórn og skattheimta í landinu, bæði á vettvangi Seðlabanka og ríkisstjórnar, miðist um of við að tryggja og bæta hag fyrirtækjaeigenda og þeirra eignameiri í samfélaginu.
Setja þarf lægri og milli tekjuhópa og þá eignaminni í forgang á ný. Þeir ríku þurfa ekki hóflausa umhyggju og meðaumkun stjórnvalda. Þeir bjarga sér sjálfir.
Höfundur er prófessor emeritus við HÍ og starfar sem sérfræðingur hjá Eflingu-stéttarfélagi.
Það er athyglisvert að aðrar Evrópuþjóðir, sem voru með svipaða verðbólgu og við, voru mun hófsamari í hækkun vaxta. Þar hefur verðbólgan þó lækkað mikið. Það er eins og viðbrögð seðlabankans byggist á sjálfvirkni þar sem aðeins ein breyta ræður ferðinni.
Annars tek ég undir góða greiningu Stefáns Ólafssonar og vona að seðlabankastjóri og ríkisstjórnin lesi hana og íhugi.