„Þetta var erfiður vetur,“ sagði vinkonan við mig. „Já, ég er alveg sammála,“ svaraði ég þar sem við stóðum fyrir framan húsið hennar. Hennar grasspilda er eins og mín, örlítið villt, falleg og afslöppuð. „Fíflunum hefur fjölgað mikið, ég hef aldrei séð svona marga,“ sagði hún. „Já, það er, það er reyndar alveg rétt,“ svaraði ég örlítið hikandi, og leit út undan mér á fíflana eins og þeir gætu móðgast ef þeir sæju mig líta í áttina að þeim.
Ég hugsaði með mér hvort ég hefði getað hjálpað henni við að fækka fíflunum, eins og ég hafði loksins náð að gera tímanlega í ár, enda er ég öldruð móðir í fæðingarorlofi, eins og læknirinn orðaði það. Við kunnum nefnilega að hreinsa til í garðinum okkar með allri lífsreynslunni sem árunum fylgja.
„Þegar fíflunum fjölgar í kringum þig er best að stinga þá bara upp.“
Vorverkin hafa setið á hakanum hjá mér síðustu ár á meðan ég var upptekin við að byggja líf mitt aftur upp úr smá brunarústum, þið vitið, svona brunarústum mannlegrar upplifunar. Loksins í ár fann ég það á mér, á réttum tíma, hvenær best væri að taka á fíflunum og stinga þá upp með rótum, svo grasið fengi að vaxa og gróa eftir erfiða veturinn. Það er mikið þakklæti sem finnst við að vera komin úr rústabjörgun í viðhaldsvinnu. Grasið þarf líka að verða nógu sterkt fyrir litla barnið mitt sem fær að ganga berfætt á því í sumar og æfa sig í að taka fyrstu skrefin.
Svo er að muna að fyrirgefa fíflunum, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra, þeir dafna bara í því umhverfi sem þeim líður best í. Og sums staðar eru þeir jafnvel hin mesta prýði.
Við sjáum það eflaust líka að þegar fíflunum fjölgar í kringum þig er best að stinga þá bara upp.
Athugasemdir (1)