Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata spurði matvælaráðherra Svandísi Svavarsdóttur hvort að hún ætlaði að leyfa hvalveiðar í sumar í ljósi nýrrar eftirlitsskýrslu frá Matvælastofnun.
Í fyrirspurn sinni sagði Andrés Ingi að í ljósi þess að af þeim 148 hvölum sem drepnir voru síðasta sumar hefði fjórðungur verið drepinn með fleiri en einum skutli og fjórðungur hvalanna þurft að þola pyntingar í dauðastríðinu, væri „bara hægt að draga einn lærdóm af þessari niðurstöðu“.
„[Þ]ess vegna vil ég spyrja ráðherra: Ætlar ráðherra nokkuð að leyfa hvalveiðar í sumar?“ sagði Andrés Ingi.
Andrés gagnrýndi einnig skort á rannsóknum um lífríki og vistfræði hafsins. Hann sagði hvali hafa verið hafða fyrir rangri sök þegar veiðar á þeim hefðu verið réttlættar.
„Þeir voru sakaðir um afrán, að þeir væru að éta þorskinn sem mannfólkið ætti, þegar raunin er sú og vísindamenn hafa leitt í ljós að hvalir stunda einhverja mestu garðyrkju jarðarkúlunnar, með því að færa næringarefni á milli laga í sjónum og viðhalda þannig ótal vistkerfum,“ sagði Andrés og bætti við að það hefði verið reiknað út að „þjónustuna“ sem hvert stórhveli veitir við kolefnisföngun mætti meta á þrjár milljónir bandaríkjadala, þannig að nú væri „fólk farið að tala um að jafnvel stappi nærri vistmorði að halda hvalveiðum áfram“.
„Það er vandkvæðum háð að afturkalla leyfi“
Svandís tók undir að skortur væri á þekkingu um vistkerfi. „Það er þá staðreynd sem fyrir liggur og það er það að þekking okkar er engan veginn fullnægjandi að því er varðar lífríki og vistkerfi hafsins og við höfum lagt áherslu á það, þessi ríkisstjórn og ég í embætti matvælaráðherra, að auka fjármuni til hafrannsókna, ekki bara til að kanna betur vistkerfisgrunninn heldur líka til að vera betur á vaktinni varðandi loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á lífríki sjávar,“ sagði Svandís.
Um skýrslu MAST sagði Svandís að niðurstöðurnar væru sláandi: „Það er að veiðarnar séu ekki í samræmi við markmið laga um velferð dýra.”
En það er ekki einfalt verk að afturkalla gildandi leyfi, samkvæmt ráðherra. „Það er vandkvæðum háð að afturkalla leyfi sem nú er í gildi en það vakna sannarlega ýmsar spurningar um það hvort þær aðferðir sem beitt er við þessar veiðar og samræmast tæpast lögum um dýravelferð gerir það ekki að verkum að við séum stöndum frammi fyrir því að endurskoða það hvort þessi atvinnugrein tilheyri ekki fortíð frekar en framtíð,“ sagði Svandís.
Andrés Ingi mat svar ráðherra svo að áform um endurnýjun leyfisins hlytu að vera í lausu lofti. Hann endurtók spurningu sína til ráðherra og sagði: „Hún er skýr. Hún snýst ekkert um vandkvæði í framtíðinni. Hún snýst ekkert um breiðan grunn. Hún snýst um það að fjórðungur hvala sem voru veiddir á síðasta ári voru pyntaðir. Varúðarreglan segir okkur að hér þurfi að taka í handbremsuna. Mun ráðherra sjá til þess að hvalveiðar fari ekki fram á þessu ári?“
Svandís sagði ákvarðanir sínar byggja á lagagrundvelli. „Eins og kom fram í mínu fyrra svari þá er það svo að mínar ákvarðanir þurfa auðvitað að byggja á lagagrunni og sá grundvöllur er ekki fyrir hendi að því er mín þekking, eða [...] þekkingin í ráðuneytinu leggur til grundvallar og upplýsir mig um.“
„Hins vegar vil ég segja það að þessar veiðar hafa verið stundaðar um langan tíma en samfélagið okkar hefur breyst, gildin um það hvað okkur finnst í lagi og hvað okkur finnst ekki í lagi hafa sem betur fer líka breyst og það er svo sannarlega kominn tími til þess að við ræðum það á grundvelli staðreynda hvort okkur finnist ásættanlegt að stunda atvinnugrein af þessu tagi miðað við þau gildi sem við viljum vera þekkt fyrir á alþjóðavettvangi,“ sagði Svandís.
Athugasemdir (2)