„Ef það er eitthvað sem er þjóðaríþrótt þá er það golfið,“ segir Arnar Geirsson, kerfis- og skrifstofustjóri hjá Golfsambandi Íslands, í samtali við Heimildina. Rúmlega 23.300 kylfingar eru skráðir á Íslandi. Það eru 6 prósent af þjóðinni, en talsmaður GSÍ gerir ráð fyrir að á fimmta tug þúsunda Íslendinga spili golf í einhverjum mæli. Flestir kylfingar miðað við póstnúmer búa í Garðabæ.
Vantar konur í golf
Golf er aldagömul íþrótt sem á rætur sínar að rekja til Skotlands. Hér áður fyrr var golf gjarnan álitið svokallað hefðarmannasport og vísar það til þess að íþróttin var stíluð inn á efnað fólk í efri stéttum.
Íslenskir kylfingar eru í miklum mæli karlmenn en golfhreyfingin hefur lagt mikið upp úr því að auka þátttöku kvenna undanfarin ár. Af skráðum kylfingum eru 67% þeirra karlar en aðeins 33% konur. Arnar segir það markvisst í stefnu og markaðssetningu golfsambandsins að fá fleiri konur í íþróttina og ná hlutfallinu upp í 40% á næstu árum. Það er meðal annars gert með því að halda sérstök kvennamót og kvennadaga í golfklúbbunum.
„Menn vilja náttúrlega bara hafa jafnt aðgengi og telja að þessi íþrótt henti konum alveg jafn vel og körlum.“ Hann bætir síðar við: „Þannig að það er markmiðið að kynna íþróttina fyrir konum og fá fleiri konur í íþróttina.“ Framkvæmdastjóri Golfklúbbs Kópavogs og Garðabæjar, Agnar Már Jónsson, slær á sama streng og segir halla á konur í golfi. „Það vantar konur í íþróttina, þess vegna leggjum við mikla áherslu á að taka vel á móti konum og vera með virkt og öflugt kvennastarf.“
Kostnaður við föt og golfsett
Eins og almennt gengur og gerist í íþróttum hafa skapast ákveðnir siðir og venjur í kringum golf. Eitt af því sem einkennir kylfinga frá öðrum íþróttaiðkendum er klæðnaðurinn. Kylfingar klæðast yfirleitt fatnaði sérstaklega hönnuðum fyrir golf en misjafnt er hve alvarlega fólk tekur klæðaburðinum.
Fyrir þau sem vilja klæða sig í viðurkenndum golffatnaði frá toppi til táar hleypur kostnaður á tugum eða hundruðum þúsunda. Á Íslandi eru þónokkrar golfbúðir sem selja slík föt. Heimildin bað starfsmann Golfskálans á Höfðabakka að finna fyrir sig flíkur sem hinn hefðbundni kvenkyns kylfingur myndi nota í golfi. Samtals kostar fatnaðurinn á myndunum 87.400 krónur en starfsmaðurinn tók fram að notagildi þessa fatnaðar væri til margra ára.
Auk fatnaðar þarf golfkylfur, tösku undir kylfurnar, tí og bolta. Aðgangur að golfklúbbi kostar líka sitt. Á höfuðborgarsvæðinu eru það að minnsta kosti 100.000 krónur en upphæðin er breytileg eftir klúbbi og aldri kylfings.
Einfalt að byrja
Agnar Már hjá GKG bendir á að hægt sé að spila golf í hefðbundnum fötum og kaupa ódýrt golfsett með notuðum kylfum. „Svo náttúrlega er það árgjaldið í klúbbana, það er í kringum 140 þúsund krónur. Fyrir það ertu að fá ótakmarkað aðgengi að flottustu golfvöllum landsins þannig að ég held að golfíþróttin per se sé ekki þannig að hún kosti hvítuna úr augunum. Þvert á móti, ég held að miðað við aðrar íþróttagreinar þá sé golfíþróttin hreint og beint ódýr.“
Aðspurður hvort golf sé efri stéttar sport segir Agnar Már svo ekki vera. „Sérstaklega ekki hérna á Íslandi. Allir golfklúbbarnir eru með mjög virkt nýliðastarf. Það er mjög einfalt að byrja í golfi. Að vísu er áhuginn svo mikill núna að það er biðlisti í nánast alla golfklúbba á Reykjavíkursvæðinu, en það er tekið mjög vel á móti öllum í golfklúbbunum.“ Agnar Már segir öfluga nýliðafræðslu vera til staðar og nefnir kvennastarf GKG þar sem lengra komnar konur í golfi aðstoða nýjar konur við að taka sín fyrstu skref.
„Ég held að þessi mýta um að golf sé svona efri stéttar íþrótt, að hún heyri sögunni til hérna á Íslandi,“ segir Agnar Már.
Golfsamband Íslands heldur úti tölfræði yfir fjölda kylfinga eftir póstnúmerum. Flestir kylfingar eru í þeim póstnúmerum þar sem aðgengi að golfvöllum er greitt en algengast er að kylfingar búi í Garðabæ. „Það eru fleiri vellir í Garðabæ heldur en fyrir allt Reykjavíkursvæðið,“ segir Agnar Már.
Ferðamenn sækja í vellina
Golfferðir erlendis eru vinsælar hjá sólþyrstum Íslendingum en sérstaða íslensku náttúrunnar heillar líka erlenda kylfinga. Magnús Oddsson, stjórnarformaður Golf Iceland, segist vonast eftir metfjölda af ferðamönnum á golfvöllunum núna. Gróflega áætlað telur Magnús að ferðamenn skili golfklúbbum í kringum 120 milljónir í viðbótartekjum á ári.
Síðustu 14 ár hefur Golf Iceland unnið að því að kynna íslenska golfvelli fyrir erlendum kylfingum og fjölmiðlum. Fyrir heimsfaraldurinn Covid-19 voru 8.000 leiknir hringir á sumrin af erlendum kylfingum. „Svo kom Covid og þá datt þetta eðlilega niður. Síðan sýnist okkur að þetta hafi farið í svona um 9.000 erlenda gesti 2021 og líklega milli 11 og 12 þúsund í fyrrasumar.“
Magnús segir flesta ferðamenn koma frá meginlandi Evrópu. „Ferðaskrifstofur á meginlandinu eru áhugasamar. Síðan dreifist þetta jafnt á milli Bandaríkjamanna, Breta og Norðurlandabúa.“ Golf Iceland hefur markvisst reynt að ná þessum hópum, til dæmis með því að taka þátt í erlendum ferðasýningum og bjóða fjölmiðlafólki frá sérhæfðum fjölmiðlum hingað.
„Annað sem hefur auðvitað hjálpað okkur, eins og allri annarri afþreyingu og ferðamennsku, eru samfélagsmiðlarnir. Það er bara þannig.“
Náttúrufegurð er helsta markaðstæki Íslands. „Við höfum lagt áherslu á, fyrst og fremst, þessa einstæðu velli í íslenskri náttúru. Hér getur þú spilað inni í gömlu eldfjalli í Vestmannaeyjum eða á bökkum Hvítár austur í Kiðjabergi. Eða þú getur verið á ólíkum stöðum eða bara í hrauninu í Garðabænum. Það sem vinsælast er af öllu er miðnætursólin.“ Hann bætir við: „Við erum að selja öðruvísi vöru. Þú ferð ekki í golfferð til Íslands á sömu forsendum og til Spánar eða Flórída.“
„Við erum að selja öðruvísi vöru. Þú ferð ekki í golfferð til Íslands á sömu forsendum og til Spánar eða Flórída.“
Áhrif samfélagsmiðla eru augljós að mati Magnúsar. „Þegar samfélagsmiðlarnir tóku sterkt við sér þá sáum við það mjög að menn voru að senda myndir af sér standandi í miðnætursólinni einhvers staðar. Ég tala nú ekki um þegar þeir stóðu á golfvellinum á Geysi með goshverinn fyrir aftan sig. Svona myndir gjörbreyta öllu og bara ein svona mynd hefur oft dregið ótrúlega að.“
Íslenska ungliðahreyfingin
Ísland stendur framarlega þegar kemur að barna- og unglingastarfi í Evrópu. Agnar Már segir golfklúbbana hafa verið duglega síðustu árin að halda námskeið og að ungt fólk hafi gott aðgengi að völlum. Agnar Már segir GKG hafa lagt mikla áherslu á uppeldisstarfið allt frá stofnun klúbbsins sem átti að minna á íþróttafélag frekar en hefðbundinn golfklúbb. „Við höfum viðhaldið þessu í gegnum þessi 30 ár og fyrir vikið þá hefur barna- og unglingastarfið okkar styrkst alveg rosalega og við erum með 800 krakka hjá okkur núna.“
Sumir foreldrar hafa elt börnin sín í golfið, en það gerði Agnar Már sjálfur. „Strákurinn minn var í golfi og okkur fannst kennslan ekki nógu góð, við færðum hann yfir í GKG og ég færði mig þar af leiðandi líka og endaði svo sem framkvæmdastjóri.“ Þau börn sem ekki koma úr golffjölskyldum hafa virkað sem hvatning fyrir foreldra sína. „Svo þegar þau fylgjast með krökkunum sínum þá kannski fara þau að stíga fyrstu skrefin sín líka.“ Hann bætir við: „Það er ótrúlega gaman að sjá jafnvel þrjá ættliði fara út saman og spila golf.“
Athugasemdir