Ég fór á sportbar í Reykjavík um daginn til að setja eitthvað djúpsteikt í andlitið á mér og horfa á fótbolta. Ég valdi mér borð nálægt útvegg og þar starði á mig maður á meðan ég var að setjast, augljóslega að velta því fyrir sér af hverju ég þyrfti endilega að setjast innan við þremur metrum frá honum. Hann var á að giska nær sjötugu en sextugu og var búinn að tylla sér svo kyrfilega í hornsætið að hann var í línu við skáliggjandi samskeyti bekkjanna. Geðvonskuna lagði af honum þannig að ég lét hann eiga sig og spurði tvo Svía hver staðan væri í leiknum í stað þess að yrða á þennan sykurpúða.
Best að gefa honum nafn, því að Fúll á Móti er ekki þjált.
Steinn á Móti, kannski. Svona úr því að andlitið var gráleitt og hart.
Næsta gesti varð á í messunni. Köllum hann Olgeir. Með bjór í annarri og skjálfta í hinni bað hann kurteislega um að fá að tylla sér í sætið við hlið Steins „ef það væri í lagi“ og Steini sagði að svo væri ef hann myndi nú drífa sig að setjast af því að hann „kærði sig ekki um“ að láta „hella yfir sig úr glasinu“. Þess ber að geta að engin hætta var á að neitt helltist yfir neinn. Áður en leiknum var lokið var Steini búinn að biðja Olla þrisvar að hafa ekki bjórinn „svona nálægt borðbrúninni“ af því að hann „kærði sig ekki um“ að láta „hella yfir sig úr glasinu“. Hljóðstyrkurinn jókst í hvert sinn. Eins ófyndnir og brandarar eru þegar þeir eru endurteknir er yfirgangur þrettánfalt verri þá þrítekinn er.
Og liðið hans Steina var meira að segja að vinna.
Hver djöfullinn gekk að honum?
Kannski er ég ósanngjarn. Verðum við ekki öll viðskotaill þegar við viljum ekki hafa einhvern nálægt okkur en okkur hugkvæmist ekki nokkur einasta gild ástæða fyrir því að vísa honum í burtu? Steinn vill ekki láta kalla sig dóna þannig að hann leyfir Olla að vera en hugsar honum þegjandi þörfina. Hann langar að segja honum að fara heim til sín. En hann má það ekki. Þannig að hann býr til einhverja tóma tjöru til að tuða yfir.
Sem færir okkur yfir að Reykjanesbæ.
Ásmundur Friðriks hefur nýverið tekið á sig þá byrði sannsögla mannsins að „bergmála“ það sem honum hefur verið sagt í Reykjanesbæ um að útlendingar leiki þar lausum hala og valdi ýmsum óskunda. Mér þykir miður, sem íbúi þessa sveitarfélags, að hafa ekki verið inntur eftir hryllingssögum af kynnum mínum af útlendingum á svæðinu því ég hefði kvartað sáran undan því að þeir hafi fjölmennt í bumbuboltann þar suður frá og látið mig (mann sem er allt að helmingi eldri en þeir flestir) þurfa að hlaupa mun hraðar og hafa meira fyrir hlutunum en áður. Harðsperrurnar jafna sig jú ekki af sjálfsdáðum.
Eða ... jú, reyndar gera þær það.
Heimildin fór í 9. tölublaði sínu í saumana á tröllasögum Ásmundar og annarra um ótta íbúa á svæðinu við örlítið öðruvísi útlítandi fólk og niðurstaðan er sú að ekkert er upp á „þetta fólk“ að klaga annað en að vera til, taka strætó og fara í sund. Og verslanir og svona. Já, og að horfa á hús. Einn íbúi átti tilvitnun sem ég mun muna þar til ég hrekk upp af:
„Kannski er þetta ekkert vont fólk en maður er ekki sjálfur úti á götu að glápa á hús annarra.“
Hér er kannski best að ég játi það í eitt skipti fyrir öll að ég horfi oft og mörgum sinnum á hús annarra. Girnist þau jafnvel, sama hvað boðorðin hafa um það að segja. En enginn fer að halda því fram í fúlustu alvöru að ef þessi nágranni minn sæi mitt aríska smetti gaumgæfa útveggi heimilis hans myndi gefa sér að ég hefði eitthvað misjafnt í hyggju eins og að „banka upp á og athuga með vinnu“.
Hér vil ég staldra aðeins við af því að ég veit hvert umræðan leiðir út frá þessum stað. Sá sem les þetta kallar svona fólk réttilega rasista fyrir að tortryggja útlendinga að ástæðulausu og þeir sem eru sama sinnis og Ásmundur og félagar taka því þannig að verið sé að kalla þá Hitler. Erum við ekki löngu búin að fá leið á þeim leðjuslag? Er ekki einmitt vandamálið hér að rétt eins og á Twitter slengir Ásmundur fram einhverju rugli sem er til þess fallið að æsa þá sem eiga erfitt með breytingar og við sem óttumst ekki fólk eftir litaprufum eða lingúistík gefum okkur að „Í ALLRI HELVÍTIS KEFLAVÍK FYRIRFINNIST EKKI ÓRASÍSK HVÍT MANNESKJA!“?
Meðan ég man, þá er Reykjanesbær ekki bara Keflavík.
Líka Njarðvík og Ásbrú.
(Hafnir held ég líka.)
(Samt ekki Vogar.)
En, alla vega ...
Ekki misskilja mig. Auðvitað eigum við að kalla hlutina réttum nöfnum og það sem Ásmundur segir er margt viðurstyggilega rasískt. „Ertu að segja að ég sé rasisti?“ spyr hann mig kannski og ég svara með tilvitnun í hann sjálfan:
„Til dæmis í götu sem ég bý rétt hjá, þar koma hópar karlmanna dökkir á brá og brún og ganga þar um og það hræðir fólk.“
Ásmundur les eigin orð og þagnar.
Eða þá að hann kallar mig „rasista umræðunnar“ eða „rasista bókmenntafræðinnar“ eða einhvern djöfulann.
Ásmundur kann ekki að meta að vera kallaður þetta. En ef það felst ekki rasismi í því að tala um að eðlilegt sé að hræðast það athæfi karlmanna að vera „dökkir á brá og brún“ og „ganga um“ þá þýðir orðið rasismi andskotann ekkert. Já, Ásmundur er rasisti og líka nafnlausi íbúinn sem segir við Heimildina: „Það er ekki beint líkamleg ógn [af útlendingunum] en mér er ekki sama að það sé stöðug strolla fram hjá húsinu mínu þegar ég er í vinnunni til að sækja sér allt þetta fría stöff í Rauða krossinum sem þau þurfa.“
Eftir Heimaeyjargosið fengu Vestmannaeyingar líka frítt stöff.
Meira að segja fríar bátsferðir.
Munurinn er sá að þeir voru OKKAR FÓLK!
Já, þetta er rasismi.
En getum við komist út úr því argaþrasi hvort við köllum kynþáttaflokkun fólks réttu hugtaki? Hægt er að vera rasisti án þess að vera alfarið vond manneskja. Hægt er meira að segja að vera rasisti án þess að segja nokkurn tímann styggðarorð við nokkra manneskju. Sá sem þetta les gæti alveg þekkt manneskju sem hann elskar út af lífinu en talar aldrei við hana um fjölmenningu eða Útlendingastofnun af því að hún er haldin þessari ranghugmynd.
Það er það eina sem rasismi er. Ranghugmynd sem fólk þarf hjálp við að sigrast á. Fyrsta skrefið er að viðurkenna vandann. Hætta að fara undan í flæmingi. Ert þú rasisti? Heimurinn hrynur ekki þótt þú viðurkennir að fólk af öðrum uppruna veki hjá þér skelfingu. Það er geðhreinsandi og gott að gangast við sannleikanum. Ekki festast samt á fyrsta skrefi. Næsta þar á eftir er að leggja rasisma þinn í hendur guðs, hvernig sem þú skilgreinir hann/hana/hán. Ef þú meðhöndlar það ekki sem vandamál heldur sem gilda pólitíska skoðun að vera hræddur við fólk án þess að vita neitt um það mun rasismi þinn brjótast út í ókurteisi, mismunun eða atkvæðum handa loddurum eins og Ásmundi Friðriks.
„Ætlar þú að falla fyrir þessu kjaftæði bensínmethafans alræmda?“
Ásmundur veit líka alveg að húsnæðisskortur á Suðurnesjum stafar ekki af fjölda útlendinga heldur af stöðnun húsnæðisuppbyggingar af völdum markaðsvæðingar – fyrirbæris sem auðvaldssleikjur eins og hann fá aldrei leið á að láta yfir okkur hin ganga. Með annarri höndinni klappar hann kapítalistunum á kinn og með hinni reynir hann að etja eignalausu fólki saman svo að ekki myndist samstaða um raunverulegar breytingar í þágu almennings.
Ætlar þú að falla fyrir þessu kjaftæði bensínmethafans alræmda?
Ekki ætlast til þess að samfélagið útiloki fólk á grundvelli uppruna svo að þú getir haldið áfram að vökva rasismann þinn eins og orkídeu. Þú ert ekki vond manneskja og ég er ekki betri en þú. Ég skal vinna í mínum persónuleikabrestum á meðan þú vinnur í þínum og enginn þarf að kalla neinn óhjálplegum, merkingarlausum orðum eins og „góður“ eða „vondur“ nokkurn tíma aftur.
Höfundur er bókmenntafræðingur og þýðandi.
En ég þurfti að útskýra fyrir ungafólkinu ámóta hvað væri að gerast. Það borgar sig ekki að fara í feluleik með sjúkdóma.
Fyrstu einkenni Alzhimer var þegar Mamma hætti að geta hlustað á Rás 1 og skilja. Og fór að hlusta á Útvarp"Alzhimer" því þar var sögð sama sagan dag eftir dag.
Ég ynnilega samhryggist þér með konuna sem þú elskar. Taktu utan um hana.