Þriðjungur sitjandi alþingismanna eru annað hvort náskyldir eða mægðir fólki sem setið hefur á alþingi, ýmist sem aðal- eða varamenn. Þá er enn fleiri þingmenn tengdir fólki sem hefur stýrt sveitarfélögum eða leitt framboð í sveitarstjórnarkosningum. Þó eru þeir til sem telja að betra væri ef slík tengsl væru ekki til staðar, þar á meðal Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins.
Gunnar Helgi Kristinsson stjórnmálafræðiprófessor hefur rannsakað elítur og valdakerfi í íslensku samfélagi og meðal annars kannaði hann ættartengsl íslenskra þingmanna á árabilinu 1990 til 2020. Hans niðurstaða er að um þriðjungur þingmanna hafi á þessu tímabili haft ættartengsl við fyrrverandi þingmenn.
„Íslenska kerfið hefur viss einkenni sem ættu að ýta undir ættartengsl, og þau koma vissulega fyrir hér, en ég myndi ekki halda að þau væru megin áhrifaþáttur á framabrautir í stjórnmálum hér á landi,“ segir Gunnar Helgi og bendir á að svipuð mynstur megi greina í öðrum starfsgreinum eða þjóðfélagshópum, innan íþróttahreyfingarinnar eða í listalífi til að mynda.
Kominn af bændum og verkafólki
Guðmundur Ingi er fæddur 1955, sonur Andreu Guðmundsdóttur húsmóður og Kristins Jónssonar, verkstjóra. Guðmundur nam við trésmíðadeild Iðnskólans auk þess sem hann var í skrifstofunámi, vefsíðugerð og myndvinnslu í Nýja tölvu- og viðskiptaskólanum. Hann vann í lögreglunni á Suðurnesjum og svo við verslunarstörf. Guðmundur lenti í alvarlegu bílslysi árið 1993 og varð við það öryrki. Síðan þá tók hann þátt í ýmsum félagsstörfum, meðal annars sat hann í stjórn Sjálfsbjargar.
„Móðurafi minn og -amma bjuggu í Drangavík á Ströndum, nyrsta bæ á Íslandi. Pabbi er svo frá Vorsabæ í Austur-Landeyjum. Ég er því kominn af bændum og verkafólki,“ segir Guðmundur í samtali við Heimildina.
Guðmundur segir að pólitík hafi lítt eða ekki verið rædd á heimilinu í hans uppvexti. „Pabbi var nú sjálfstæðismaður, það fór ekki á milli mála, en hann var alls ekki pólitískur.“ Sjálfur segist Guðmundur ekki hafa haft áhuga á pólitík. „Ég forðaðist það allt algjörlega. Ég varð eiginlega ekki pólitískur fyrr en eftirí fyrsta umferðarslysið sem ég lenti í, ég hef lent í þremur og kalla mig heppnasta mann á Íslandi fyrir vikið. Þá lenti ég í kerfinu og áttaði mig á hvað það er ótrúlega vitlaust.“
„Ég þoli hvorki vinstri né hægri eða miðjumoð“
Guðmundur vísar hér til þess að árið 1993 slasaðist hann illa í bílslysi sem olli því að hann varð öryrki og gat ekki snúið aftur út á vinnumarkað. Í framhaldinu hóf hann þátttöku í félagsstarfi, sat í trúnaðarráði VR, í stjórn Sjálfsbjargar og starfaði innan Öryrkjabandalagsins. „Þá byrjaði baráttan. Ég ætlaði samt aldrei að verða pólitíkus, blessaður vertu, Inga [Sæland] þurfti að biðja mig þrisvar og ég sagði á endanum já af því ég hélt það yrði ekkert af þessu. En sem betur fer varð það.“
Segir mikinn kost að hafa ekki komið nálægt pólitík
Spurður hvort hann telji að þessi bakgrunnur hans, það er að hafa engin afskipti haft af pólitík og lítt um hana hugsað á yngri árum, vera honum hamlandi í starfi heldur Guðmundur nú ekki. „Það er mikill kostur. Mér finnst ég vegna þessa vera frjáls í hugsun, ég er ekki bundinn af neinum kreddum. Ég þoli hvorki vinstri né hægri eða miðjumoð. Ég fer ekki eftir neinum línum. Ég fór inn á Alþingi til að berjast fyrir þau sem verst hafa það og það er það sem ég einblíni á.“
„Ég held að við værum betur komin ef þingmenn hefðu ekki verið þátttakendur í pólitískri hringiðu frá unga aldri“
Að sama skapi telur Guðmundur að það sé mikill ókostur að á þingi sé töluverður hluti þingmanna sem nánast taki þingsæti sín í arf, séu að segja má fæddir inn í stjórnmálin, og hafi fyrirframgefnar hugmyndir um pólitík. „Því miður. Þeir sem hafa kannski aldrei dýft hendi í kalt vatn og vita ekkert hvernig það er að alast upp við fátækt átta sig ekkert á hvað aðrir eru að glíma við. Þeir geta aldrei sett sig í spor venjulegs fólks. Ég hef það á tilfinningunni að meðan að fjórflokkurinn er við völd muni ekkert breytast. Ég held að við værum betur komin ef þingmenn hefðu ekki verið þátttakendur í pólitískri hringiðu frá unga aldri.“
Athugasemdir