„Vegna umfjöllunar fjölmiðla um þann dóm sem ég hlaut í nóvember í fyrra tel ég rétt að leiðrétta og útskýra betur þau ummæli sem ég hef látið frá mér falla varðandi það mál.“
Þetta segir Kristján Einar Sigurbjörnsson, eða Kleini eins og hann er stundum kallaður, á Instagram-síðu sinni í dag.
Kristján Einar var dæmdur í tæplega fjögurra ára skilorðsbundið fangelsi fyrir rán og tilraun til ráns í fyrra á Spáni. Hann sat í gæsluvarðhaldi í átta mánuði og játaði sök á endanum og kom til Íslands. Heimildin greindi frá því í morgun að þær sögur sem hann sagði við heimkomuna um brot sín og afplánun hefðu ekki alveg gengið upp miðað við dóminn í máli hans.
Greindi ekki rétt frá öllum þáttum málsins
Kristján Einar segir í færslu sinni að þegar hann komst loksins aftur heim til Íslands eftir átta mánaða dvöl í gæsluvarðhaldi á Spáni hafi hann upplifað gríðarlega utanaðkomandi pressu að segja sögu sína, ekki síst frá fjölmiðlum.
„Ég var á slæmum stað og taldi mig ekki tilbúinn til að ræða mín mál eða opna mig um mistök mín. Engu að síður tók ég ákvörðun, að mér fannst tilneyddur, um að gera einmitt það í þeirri von að áreitið myndi minnka.
Á þeim tíma var ég hins vegar ekki reiðubúinn til þess að horfa fyllilega í eigin barm og viðurkenna eigin mistök fyrir sjálfum mér – hvað þá allri þjóðinni. Ég greindi ekki rétt frá öllum þáttum málsins og varðandi aðra þætti lét ég það eftir mér að segja ekki alla söguna. Ég sé eftir því,“ skrifar hann.
Á nokkuð í land í bataferlinu
Kristján Einar heldur áfram: „Breyskleiki er eitthvað sem allir ættu að þekkja og á þessum tíma var ég einfaldlega ekki nógu sterkur til þess að láta dæma mig út frá mistökum sem ég gerði á mínu veikasta augnabliki.
Ég var ekki kominn á þann stað sem ég er núna, sem er betri staður. Engu að síður geri ég mér grein fyrir því að ég á enn nokkuð í land í mínu bataferli og er staðráðinn í því að halda þeirri vegferð áfram með aðstoð minna nánustu,“ skrifar hann í lok færslu sinnar.
Hægt er að lesa umfjöllun Heimildarinnar um mál Kristjáns Einars hér.
Athugasemdir (1)