Kynslóðir má skilgreina á marga vegu. Oftast marka heimsviðburðir örlögin og fólkið rís og hnígur í takt við atburði sem það hefur enga stjórn á. Með öðrum orðum: við eigum ekki val um hvaða kynslóð við tilheyrum. Við getum í besta falli reynt að eiga örlítinn þátt í hvernig kynslóðarinnar er minnst. Annað ekki.
Sem dæmi um skilgreiningu á kynslóð má nefna X-kynslóðina svokölluðu. Það er norður-amerískt hugtak og ber að túlka til samræmis við það. Í sem einföldustu máli má segja að fólk fætt á árunum 1965 til 1980 tilheyri þessari kynslóð. X-kynslóðin er ekki eins og sumar fyrri kynslóðir, mörkuð af stríðsátökum eða náttúruhamförum, heldur fremur takti dægurmenningar. Það má segja að stærsta aflið sem mótaði X-kynslóðina sé neyslumenning og fjölmiðlun. Fólk fætt á þessu árabili ólst upp við stöðuga ógn en upplifði þessa ógn einkum í gegnum fjölmiðla og listafurðir enda varð í raun aldrei neitt úr hinum yfirvofandi átökum. Krakkar fæddir 1965 í Ameríku borðuðu Snickers og horfðu á kennsluefni um viðbrögð við kjarnorkuárásum í sjónvarpinu.
„Kjarni málsins er sá að Ufsilon-kynslóðin ól upp með sér það viðhorf að allt skipti máli.“
Heimsveldabörn
X-kynslóðin var að mestu skilgreind undir lok aldarinnar þegar börn hennar voru flest vaxin úr grasi. Gröns-tónlistin í Bandaríkjunum er talin dæmi um örvæntingu X-kynslóðarinnar. Feigur Kurt Cobain að öskurbiðla inn í tómið að hann vilji hverfa aftur inn í leg móður sinnar. Gildismat X-kynslóðarinnar var nefnilega býsna kaldranalegt. Skilaboð þessarar kynslóðar mætti í raun sjóða niður í eftirfarandi: við skiptum ekki máli, ekkert skiptir máli.
En það var samt stemning!
Tökum sem dæmi haustið 1999. Bílastæðið við Laugarásbíó er grátt og þakið slyddu. Bílar drífa að. Gráar mözdur, majoneslitaður póló. Úr bílunum stíga X-arar. Klassískir X-arar í leðurjökkum og gallabuxum með rauðan winston í vasanum. Það er verið að sýna Bardagaklúbbinn. Fight Club. Bara einhver mynd. Er það ekki? Brad Pitt í leðurjakka. Mikið ofbeldi. En líka mikið grín. Reyndar alveg fáránlega mikið ofbeldi, yfirdrifin vegsömun á ofbeldi. En það er eitthvert tvist. Rosaleg mynd, segja X-arar þegar þær stíga úr bíóinu. Rauð winston í slyddunni. Rosaleg mynd. Svo heldur lífið bara áfram. Bílastæðið er autt. Tómar umbúðir utan um Hrís-súkkulaði fjúka út á Kleppsveginn. Slyddan grær yfir sporin.
Þessi pistill er ekki kvikmyndagagnrýni. En þó þarf, samhengisins vegna, að fara fáeinum orðum um menningarfyrirbrigðið sem hér er vísað til. Fight Club er bíómynd frá 1999 sem fjallar um ráðvilltan mann sem leitar að tilgangi og finnur þann tilgang með gegndarlausu ofbeldi. Frekar klassískt þema ef út í það er farið. A Clockwork Orange og eiginlega allar stríðsmyndir fjalla um það sama. Þetta er karllægt og kannski hálf klisjukennt umfjöllunarefni. En færa má rök fyrir því að hugmyndin hafi verið tekin svo langt í Fight Club að þetta umfjöllunarefni hafi í raun verið klárað í eitt skipti fyrir öll. Fight Club var eins og klóruprik og eftir Fight Club þurfti einfaldlega ekki að klóra meira. Við náðum þessu. Það má alveg færa rök fyrir því að hlutir virki þannig. Stundum klárum við mannfólkið ákveðnar hugmyndir eða seðjum hungrið fyrir þeim að minnsta kosti tímabundið. Það er bara ekki hægt að kreista kaldhæðnari ofbeldisfantasíu úr túbunni heldur en Fight Club. Og þegar andlitslausu X-ararnir keyrðu heim á gráum mözdum sínum eftir að hafa horft á Fight Club þá voru þeir í raun að segja bless við eigið gildismat. Með Bardagaklúbbnum söng X-kynslóðin sinn síðasta ópus. En Bardagaklúbburinn felldi hana einnig í leiðinni.
Where is My Mind?
Sjáið til. Lokasenan í Fight Club, og hér skal fólk aðvarað ef það skyldi ekki hafa séð myndina, sýnir veröldina beinlínis hrynja. Aðalsöguhetjan horfir á háhýsi sprengd í loft upp og hrynja allt í kringum sig. Í kvikmyndinni er það kynnt sem frelsandi fantasía og í nokkur augnablik í dimmu Laugarásbíói innan um popp- og leðurjakkabrak, þá var frelsandi að sjá háhýsin falla. Við skulum ekki gleyma að í þessari heimsmynd var kaldhæðni vegsömuð og ekkert skipti máli. Veröldin átti skilið að vera sprengd í loft upp milljón sinnum í svörtu tóminu því það var hvort sem er allt í plati eins og sveppaskýin á skjánum. Vegsömun á ofbeldi var bara önnur leið til að öskra: ekkert skiptir máli!
En svo gerðist það – í alvöru – og fólk horfði ekki bara á það í sjónvarpinu heldur með berum augum. Það leit út eins og brellur en það voru ekki brellur. Fallandi háhýsi. Ellefti september. X-arar þurftu að klípa sig og X-arar þurftu að spyrja sig: Er sem sagt til alvöru hatur, alvöru ofbeldi, er ekki öll tilveran kaldhæðni, orð sögð í gríni sem falla hvort sem er á milli þilja því einstök rödd á ekki möguleika gegn síbyljunni? Núna var ekki hægt að reykja rauða winston og keyra burt á gráum Volkswagen Polo. Ofbeldisfantasían varð að veruleika og það drap fantasíuna og þar með lauk þeirri sögu.
Ufsilon er nafnið sem næstu kynslóð var gefið. Hún er líka kölluð aldamótakynslóðin, eða millennials, en fólk af þeirri kynslóð er talið fætt á árunum 1980 og upp úr. Hér erum við svo nærri nútímanum að erfitt er að segja til um hvenær ný kynslóð hefur tekið við. En elstu aldamótabörnin eru löngu orðin fullorðin og ég myndi sjálfur teljast til þeirra, þó að margt hér á okkar landi hafi þó frekar minnt á Ameríku upp úr 1970 þegar ég fæddist á fyrri hluta níunda áratugarins. Það skal með öðrum orðum viðurkennt að amerískt flokkunarkerfi virkar ekkert endilega hér og þó að Íslendingar séu nýjungagjarnir þá voru myndbandstæki og örbylgjuofnar nýjungar níunda áratugarins á Íslandi en þess áttunda í Ameríku og það segir nokkuð stóra sögu. Mest freistandi er að skilgreina sig utan þessa kerfis, en þó erum við mörg bæði X og Y sem erum fædd á þessum árum.
Ég-kynslóðin
Aldamótabörnin ólust upp við breyttan veruleika. Heim internets og tölvutækni. Á netinu er ekki einstrengingsleg bylgja upplýsinga. Á netinu eru upplýsingar kaotískar og ómiðlægar. Internetið miðlar ekki skýrri heimsmynd. Það er ekkert austur-gegn-vestur. Þetta kallaði á ný viðhorf. Kaldhæðni vék smátt og smátt fyrir einhvers konar einlægni því það er ekki hægt að vera kaldhæðinn á netinu því það sem er sett fram þar getur farið inn í hvers konar samhengi. En einlægnin birtist ekki bara á fallegan hátt heldur líka sem stíf hagsmunavarsla. Samhengisleysi krefst þess að þú haldir vel utan um eigin sögu. „Ég-heimurinn“ varð til. iMac, iPod, iPhone, Æ, æ, æ. Þú varst við stjórnvölinn. Youtube. Youporn. You name it. Það er til nóg af skammaryrðum yfir afsprengi þessa hugsunarháttar. Sjálfhverfa kynslóðin, heimtufreka kynslóðin, avakadó-étandi forréttindakynslóðin. En þetta eru bara uppnefni og alls ekki kjarni málsins. Kjarni málsins er sá að Ufsilon-kynslóðin ól upp með sér það viðhorf að allt skipti máli. Umhverfið skiptir máli, að vera góður við foreldra sína skiptir máli, heilsan skiptir máli, friður á jörð skiptir máli, tannkrem skiptir máli, sérhver tilfinning sérhverrar manneskju skiptir máli. Þetta er viðbragð og andstaða við kaldhæðni X-ara.
En nú stöndum við á bílastæðinu. Bílhurð er skellt. Tesla Model Y. Þrjátíu þúsund króna joggingbuxur og CBD-olía silast í átt að anddyrinu. Í bíósölunum er fátt um fína drætti. Endurgerðir af endurgerðum af gömlum sögum. Ofurhetjusull. En þó er ein mynd í bíó sem segir sögu sem skiptir okkur máli. Það er verið að sýna mynd sem fjallar um það þegar Nike landaði samningi við Michael Jordan. Þetta er mynd sem heitir Air. Leikararnir eru með fyndnar hárgreiðslur og tónlistin og umgjörðin öll er einn stór feelgood lofsöngur um uppruna Air Jordan vörumerkisins. Myndin er skemmtileg og þykir vel heppnuð. Salurinn er óvenjulega vel setinn. Enda er þetta okkar saga. Sagan af strigaskónum okkar, jafngamlir Ufsilonunum sjálfum. Strigaskónum sem slitu barnsskónum á frumdögum internetsins, á tímum nostalgískrar markaðssetningar. Þetta var sagan af skónum sem margsinnis reyndu að leggja skóna á hilluna en bara gátu ekki hætt að fljúga og hafa aldrei verið merkilegri og stærri í menningunni. Sagan af Air. Maður nánast felldi tár í bíóinu að loksins skyldi einhver segja þessa sögu. Að loksins skyldi vera sett alvöru púður í að búa til kvikmynd um strigaskó. Þótt fyrr hefði verið.
Ekkert nema net
En í miðri sýningu læddist óþægilega tilfinningin að manni. Er þetta þá kannski ópusinn? Síðasta saga aldamótakynslóðarinnar? Tveggja klukkustunda auglýsing fyrir íþróttavörumerki? Allt í einu rann upp fyrir mér svo skýrt að kannski skiptir ekki allt máli. Auðvitað skiptir sumt máli. Hlýnun jarðar, tilfinningar systkina manns, hvort það sé matur í ísskápnum. En Air Jordan skiptir ekki máli. Air Jordan hefur aldrei skipt máli. Og bíómynd um Air Jordan, sem heitir hinu viðeigandi nafni „Loft“ er bara nákvæmlega það. Loft sem skiptir engu máli. Og þegar ég horfði á myndina þá var það eitthvað við þessa vegsömun á Loftinu sem minnti á vegsömun Bardagaklúbbsins á ofbeldinu. Það er eitthvað við það hvernig hugmyndin er tekin gjörsamlega alla leið. Klóruprikið er búið að gera sitt gagn. Sagan er búin.
Ufsilonin keyra burt frá bíóinu. Og það verður aldrei hægt að líta um öxl. Og rétt eins og Tvíburaturnarnir hrundu ekki fyrr en tveimur árum á eftir Fight Club, þá á eitthvað eftir að gerast sem klárar dæmið. Hvað það verður er erfitt að segja. Það verður ekki endilega neitt hræðilegt, en eitthvað mun stimpla þetta inn. Það skiptir nefnilega ekki allt máli. Flest í veröldinni er bara loft. Léttvægt, óseðjandi og heimskulegt. Ný kynslóð er að átta sig á því. Bandarískir markaðsfræðingar kalla næstu kynslóð Z. En ekki láta ameríska markaðsfræðinga skilgreina ykkur. Það urðu að hluta örlög Ufsilonana. Til nýrrar kynslóðar: Rísið upp, gefið ykkur nafn!
Athugasemdir (1)