Pétur Hafsteinn Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis í Grindavík, hefur selt hlut í Síldarvinnslunni fyrir um milljarð króna. Pétur eignaðist hlut í Síldarvinnslunni í byrjun desember í fyrra eftir að félagið keypti fjölskyldufyrirtæki hans, Vísi í Grindavík.
Miðað við gengi í Síldarvinnslunni við lokun markaða í gær var hlutur Péturs tæplega 3,4 milljarða króna virði áður en að hann seldi tæplega þriðjung hans. Eftirstandandi hlutur Péturs er um 2,4 milljarða króna virði. Þetta má lesa úr breytingum sem orðið hafa á hluthafalista Síldarvinnslunnar.
Hann og systkini hans fimm: Páll, Svanhvít, Margrét, Kristín og Sólný Pálsbörn, fengu samtals um átta prósent hlut í Síldarvinnslunni við söluna á Vísi, sem er alls um 17 milljarða króna virði miðað við gengi bréfa í félaginu í lok dags í gær. Í tilfelli Páls skiptist sá hlutur til helminga milli hans og eiginkonu hans, Guðmundu Kristjánsdóttur. Pétur fékk mest í sinn hlut, um 1,6 prósent hlut, en hin systkinin fengu tæplega 1,3 prósent hlut hvert. Samkvæmt hluthafalista Síldarvinnslunnar á Pétur nú 1,13 prósent hlut í Síldarvinnslunni, eða minna en systkini hans fimm.
Til viðbótar við hlutafé sem systkinin eignuðust tók Síldarvinnslan einnig yfir skuldir Vísis upp á ellefu milljarða króna og greiddi sex milljarða króna í reiðufé til að eignast útgerðina. Reiðuféð var greitt til að gera upp skattgreiðslur vegna kaupanna.
Kvótinn verðmætasta eignin sem var seld
Alls heldur Vísir á 3,54 prósent af öllum úthlutuðum kvóta samkvæmt síðustu birtu tölum Fiskistofu um samþjöppun í sjávarútvegi.
Í ársreikningi Síldarvinnslunnar vegna ársins 2022 kom fram að langverðmætasta eignin sem hún keypti með Vísi voru fiskveiðiheimildir. Mat þeirra á gangvirði þann 1. desember síðastliðinn var 29,6 milljarðar króna, miðað við meðalgengi Bandaríkjadals á síðasta ári. Það er meginþorri þess verðmiða sem Síldarvinnslan greiddi fyrir Vísi í fyrra.
Heildarvirði þeirra fiskveiðiheimilda sem Síldarvinnslan heldur á er 67 milljarðar króna samkvæmt ársreikningi samstæðunnar.
Hagnaður Síldarvinnslunnar var 10,2 milljarðar króna á árinu 2022. Rekstrartekjur útgerðarrisans voru 42 milljarðar króna og eignir hans í árslok voru metnar á 150,5 milljarða króna. Eigið fé samstæðunnar var 83,1 milljarður króna en hafði verið 55 milljarðar króna í lok árs 2021. Þar skipta kaupin á Vísi miklu máli.
Vegna frammistöðu síðasta árs fá hluthafar Síldarvinnslunnar um 3,4 milljarða króna í arð. Ef miðað er við meðalgengi Bandaríkjadals, sem er uppgjörsmynt Síldarvinnslunnar, á síðasta ári þá greiddi samstæðan 2,4 milljarða króna í tekjuskatt á árinu 2022 og 672 milljónir króna í veiðigjald. Þegar veiðigjaldagreiðslum Vísis er bætt við fer sú upphæð upp í 959 milljónir króna. Samtals hefur Síldarvinnslan greitt 1,8 milljarð króna í veiðigjöld á síðustu þremur árum, eða rétt rúmlega helming þeirrar upphæðar sem útgerðin greiðir eigendum sínum í arð vegna frammistöðu síðasta árs.
Blokk með næstum fjórðung alls kvóta
Eftir að kaupin á Síldarvinnslunni gengu í gegn varð til stærsta útgerð á Íslandi, ef miðað er við úthlutaðan kvóta í aflamarkskerfinu. Síldarvinnslan átti fyrir tvö dótturfélög í útgerð, Berg-Hugin og Berg ehf. Samanlögð aflahlutdeild þessara fjögurra útgerða er 12,11 prósent og rétt yfir lögbundnu tólf prósent hámarki sem tengdir aðilar mega eiga.
Stærstu eigendur Síldarvinnslunnar eru Samherji, sem á 30,1 prósent hlut, og félagið Kjálkanes, sem er í eigu sömu einstaklinga og eiga útgerðina Gjögur frá Grenivík og á 16,1 prósent hlut. Þar er meðal annars um að ræða Björgólf Jóhannsson, sem var um tíma annar forstjóri Samherja, og fólk sem tengist honum fjölskylduböndum, meðal annars systkini hans. Auk þess á Kaldbakur, félag í eigu Samherja, 15 prósent hlut í öðru félagi, Eignarhaldsfélaginu Snæfugli, sem á hlut í Síldarvinnslunni. Á meðal annarra hluthafa í Snæfugli er Björgólfur. Samtals eiga þessir aðilar 49,7 prósent í Síldarvinnslunni eftir hlutafjáraukninguna sem framkvæmd var í fyrirtækinu til að greiða Vísis-systkinunum.
Forstjóri Samherja, sem á dótturfyrirtækin Samherja Ísland og Útgerðarfélag Akureyringa, er Þorsteinn Már Baldvinsson, stjórnarformaður Síldarvinnslunnar.
Þegar talin er saman aflahlutdeild Samherja Ísland, Útgerðarfélags Akureyringa, Síldarvinnslunnar, Vísis, Gjögurs og Bergs-Hugins og Bergs (sem eru báðar dótturfélög Síldarvinnslunnar) þá heldur sú blokk á 23,39 prósent úthlutaðra aflaheimilda.
Athugasemdir (1)